Bobby Fisher, fyrrverandi heimsmeistari í skák, fær dvalarleyfi hér landi, komi hann til landsins.

Útlendingastofnun sendi síðdegis í dag, utanríkisráðuneytinu staðfestingu þess að skáksnillingnum Bobby Fisher sé heimilt að koma hingað til lands, og að hann fái hér dvalaleyfi, æski hann þess.

Bobby Fisher hefur um alllanga hríð dvalið í Japan en hann er að forminu til bandarískur ríkisborgari þótt hann sjálfur hafi afsalað sér ríkisfangi sínu og telji sig landlausan.

Hann lenti harkalega uppá kant við stjórnvöld í heimalandi sínu þegar hann tefldi við fyrrverandi heimsmeistara Boris Spassky í Svweti Stefan í Svartfjallalandi 1992. Bandarísk stjórnvöld töldu að með því hefði hann brotið viðskiptabann sem þá var í gildi gagnvart þáverandi Júgóslavíu. Síðan hefur hann verið eftirlýstur í Bandaríkjunum en hann var handtekinn í Japan í sumar þegar hann hugðist fara þaðan til Filippseyja. Þá var hann með útrunnið vegabréf og hefur hann verið í varðhaldi. Hann kvæntist í sumar japanskri konu. Hann hefur ekki fengið formlegt hæli í Japan og hefur ítrekað lýst yfir hann vilji komast frá því skelfilega landi sem hann nú telur vera.

Undanfarna mánuði hafa íslenskir velunnarar Fishers beitt sér fyrir því að stjórnvöld hér á landi beiti sér í máli hans. Málið hefur verið rætt í ríkisstjórn og nú hefur Útlendingastofnun staðfest bréflega til utanríkisráðuneytisins að Fisher fái dvalarleyfi.

Bobby Fisher verður nú kynnt ákvörðun íselenskra stjórnvalda og verður sendiráði Íslands falið að aðstoða hann við að koma hingað, óski hann þess.
tekið af skak.is