Fyrir nokkrum árum síðan var skáklíf hérna á landinu mjög gott. Við áttum stórmeistara sem ferðuðust á skákmót út í hinum stóra heimi. Héldu merki Íslands sem skákþjóð hátt á lofti. Þá var gaman að vera Íslendingur og hafa gaman af skák og fylgjast með t.d. Jón L Árnasyni, Jóhanni Hjartarsyni, Helga Ólafssyni og Margeiri Péturssyni svo ég nefni nú einhver nöfn. Svo kom því miður niðurtímabil sem var því miður of langt. En sem betur fer gerast kraftaverkin og fyrir tveimur árum síðan varð ég var við skákfélag sem hét og heitir enn: Hrókurinn. Þar var í fararbroddi og er það enn í dag: Hrafn Jökulsson og hefur honum tekist að rífa upp skákina í þeim öldudal sem hún var. Enda á hann heiður skilin fyrir þessa baráttu sína og koma skákinni aftur á kortið á Íslandi. Ég var svo heppinn að komast á skákmót út í Ólafsvík 4 desember s.l. Þar sá ég marga krakka tefla skák og hafa gaman af. Einnig dáðist ég að taflmennsku þeirra og hve mörg þeirra voru góð þrátt fyrir sinn unga aldur. Þá komst ég að því hve mikið og þarflegt verk skákfélagið: Hrókurinn hefur gert fyrir börnin og skákina í heild sinni. Þarna sá ég t.d. Helga Ólafsson og hafði gaman af því að fylgjast með honum ásamt danska stórmeistaranum Henrik Danielsen sem er kennari hjá skákskóla hróksins. Miðað við það sem ég sá þarna á mótinu í Ólafsvík sé ég að við þurfum ekki að kvíða framtíðinni í skákinni. Þarna er nógur efniviður og ég get sagt það að þarna í þessum hópi eru 3-4 krakkar sem eiga að geta náð langt, jafnt strákar sem stelpur. Þannig að eftir nokkur ár í viðbót eigum við eftir að ná góðu flugi í skákinni í heiminum og láta að okkur kveða.