Friðrik Ólafsson Friðrik Ólafsson varð stórmeistari í skák fyrstur íslenskra skákmanna. Afrek hans við skákborðið mörkuðu á sínum tíma ótvíræð tímamót í íslenskri skáksögu.
Friðrik Ólafsson er fæddur árið 1935 og varð stórmeistari í skák árið 1958. Á árunum 1978-1982 var Friðrik forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE. Friðrik er lögfræðingur að mennt og starfar sem skrifstofustjóri Alþingis.

Með frábærum árangri sínum á seinni hluta 6. áratugarins náði Friðrik fyrstur Íslendinga stórmeistaratitli í skák. Hann varð ekki bara stórmeistari, heldur hóf hann sig upp í hóp sterkustu skákmanna heimsins og varð um leið víðkunnur jafnt innan skákheims sem utan. Með taflmennsku sinni hafði Friðrik mótandi áhrif á taflmennsku manna og allan þann áhuga og athygli sem skákin fékk hér á landi. Árangur Friðriks hafði mikil áhrif á það í hvaða farveg þróun skákmála féll. Jarðvegur skákarinnar var plægður þannig að í grósku áranna sem á eftir komu hefur sprottið upp og dafnað hér slík sveit stórmeistara, að hver einasta stórþjóð mætti telja sig fullsæmda af slíkri fylkingu öflugra skákmeistara. Guðmundur Arnlaugsson sagði í formála að bók Friðriks, Við skákborðið í aldarfjórðung, árið 1976:

Á Íslandi er áhugi á skák meiri en víðast hvar annars staðar. Þessi áhugi stendur að vísu á gömlum merg, en enginn einn maður hefur lyft honum jafn mikið og Friðrik Ólafsson. Það sem vakti athygli manna á Friðriki fljótlega eftir að hann fór að taka þátt í skákmótum ungur drengur var ekki aðeins hve góðum árangri hann náði, heldur – og ekki síður – hvernig hann fór að ná þessum árangri. Hann sýndi þegar í upphafi óvenjulega dirfsku og hugkvæmni, í skákum hans brá fyrir meiri tilþrifum en menn áttu að venjast … Okkur Íslendingum hættir oft til að gleyma því hvílíkur dvergur þjóðin er, jafnvel þótt miðað sé við svonefndar smáþjóðir. Við berum okkur óhikað saman við [aðrar þjóðir] … án tillits til fólksfæðarinnar og ætlumst til þess að okkar menn standi jafnfætis mönnum annarra þjóða. En við höfum einnig sýnt öðrum þjóðum að við erum hlutgengir á ýmsum sviðum menningar þótt smáir séum. Þar hafa fáir lagt meira af mörkum en Friðrik Ólafsson. (Friðrik Ólafsson, 1976).


Meðal afreka Friðriks má nefna frammistöðu hans á millisvæðamótinu í Portoroz 1958 þar sem hann varð í 5. sæti á eftir Tal, Gligoric, Petrosjan og Benkö og jafn Fischer með 12 vinninga, en Tal vann mótið með 13,5 vinningum. Friðrik hefur unnið allmörg alþjóðleg skákmót, hann hefur orðið skákmeistari Norðurlanda og sex sinnum átti hann Íslandsmeistaratitilinn í skák.