Sjaldan hef ég séð verri útsendingu en Eddu verðlaunin 2001. Hún einkenndist alltof mikið af stirðleika og mistökum. Öfugur fasi á myndböndum, þ.e. brenglaðir litir, eða þá lítið sem ekkert hljóð. Brandarar kynna í meðallagi og ef þeim hefði verið fækkað hefði útsendingin kannski haldið tíma, en ekki farið 50 mínútur framyfir. Maður hefði búist við aðeins betra frá eins reyndum stjórnanda útsendingar og Agli Eðvarðssyni. Reyndar hefur honum ekki tekist mjög vel upp með þætti eins og Milli himins og jarðar, þar sem alltof mikill tími fer í eftirvinnslu og það að gera útsendinguna óaðfinnanlega en lítið sem ekkert sett í efni þáttarins.
Og svo rúsína í pylsuendanum, tölvan með kreditlistanum stóð á sér, þannig að reynt var að bjarga öllu fyrir horn. Kreditlistinn kom, en ég held að mjög fáir hafi náð að lesa hann.
Ég mæli með að næsta ár verði fengið aðeins yngra blóð í stjórnendastólinn, Egill hefur ekki gert neitt góða hluti með Edduna síðustu þrjú árin.