Birgitta til Riga!

Úrslitin í Söngvakeppni Sjónvarpsins eru ráðin. Lagið sem keppir fyrir Íslands hönd Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er Segðu mér allt í flutningi Birgittu Haukdal. Höfundur lags er Hallgrímur Óskarsson og höfundar texta eru Hallgrímur Óskarsson og Birgitta Haukdal.

Alls voru 69.413 atkvæði greidd, en hægt var að greiða atkvæði frá kl. 14.00. Þegar útsending hófst, kl. 21.00 höfðu um 15 þúsund atkvæði verið greidd. Þess má geta að í síðustu forkeppni, árið 2001, greiddu 15.553 manns atkvæði.

Atkvæðin féllu þannig:

1. Segðu mér allt 21.694 atkvæði
2. Eurovísa 10.594 atkvæði
3. Sá þig 5.041 atkvæði

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Riga í Lettlandi þann 24. maí n.k. og verður Birgitta fyrst á svið ytra.