Alias Mig langar til að vekja athygli fólks á nýjum sjónvarpsþáttum sem Sjónvarpið tekur til sýningar næstkomandi mánudagskvöld. Þetta eru spennuþættirnir “Alias” sem hófu göngu sína í Bandaríkjunum fyrir ári síðan og slógu rækilega í gegn. Gagnrýni var góð og Golden Glope verðlaun og Emmy tilnefningar fylgdu í kjölfarið.

Framleiðandi þáttanna er JJ Abrams og er hvað þekktastur fyrir að bera ábyrgð á “Armageddon,” “Forever Young,” og “Regarding Henry,” svo og fyrir að hafa skapað háskólaþættina “Felicity.” Þannig var þessum þáttum reyndar “pitchað” í upphafi: hvað ef Felicity hefði verið njósnari fyrir CIA?

Hljómar fáránlegt ekki satt?

Og þó. Í fyrsta lagi eiga þessir þættir ekkert sameiginlegt með “Felicity” fyrir utan það að aðal söguhetjan er ennþá í skóla (í masters námi) og tveir leikarar í þáttunum voru í báðum þáttum. Í stuttu máli segir frá 27 ára gamalli konu, Sydney Bristow, sem á yfirborðinu er ósköp venjulegur nemi og bankastarfsmaður, á kærasta, vini og föður sem hún talar lítið sem ekkert við. Í reynd starfar Sydney ekki hjá banka heldur SD-6 - leynilegri deild innan CIA - eða svo heldur hún. Það er erfitt að lýsa þáttunum að einhverju viti án þess að koma upp um hvað gerist í fyrsta þættinum - þar sem allt gerist sem mun skipta sköpum í lífi Sydney. Svo ég fari út á almennar nótur - þá er mikill hraði og spenna í þáttunum. Slagsmál, sprengingar og áhættuatriði á fimm mínútna fresti. Handritin eru vel skrifuð og leikurinn góður. Sögurnar eru eins fjarstæðukenndar og hugsast getur - flest plottin ganga út á það hvernig hinar ýmsu njósnastofnanir elta uppi ýmsa hluti sem einhver maður á 15. öld, Rimbaldi, á að hafa fundið upp - hluti sem voru á undan sinni samtíð, jafnvel á undan okkar samtíð ef ekki yfirnáttúrulegir. Það góða er hins vegar það að hraðinn í þáttunum er nær stanslaus og gefur áhorfendum engan tíma til að kryfja sögurnar. Það borgar sig heldur engan veginn - mun sniðugra að njóta ferðalagsins og hafa það kyrfilega í huga að maður er að horfa á sjónvarpsþátt - afþreyingu í sinni hreinustu mynd - njóta ferðalagsins og bíða spenntur eftir því sem gerist næst.

Helstu persónur:

Sidney Bristow (Jennifer Garner):
Þrautþjálfaður njósnari en felur þann sannleik fyrir nær öllum í lífi sínu. Það væri líka stórhættulegt fyrir þá að komast að því. Hefur virklegan áhuga á bókmenntanámi sínu en vinnan á það til að trufla það.

Jack Bristow (Victor Garber):
Faðir Sydneyjar. Klár en talsvert fráhrindandi maður. Kannski vegna þess að hann hefur ýmislegt að fela.

Michael Vaughn (Michael Vartan):
Starfsmaður CIA. Er hrifinn af Sydney en má ekki sýna það því það gæti komið þeim báðum í hættu.

Arvin Sloane (Ron Rifkin)
Yfirmaður SD-6. Slóttugur maður sem gerir hvað sem er til að halda stofnuninni gangandi. Lítur á Sydney sem n.k. dóttur. Á konu sem er alvarlega veik.

Marcus Dixon (Carl Lumbly)
Samstarfsmaður, félagi (partner) og vinur Sydneyjar hjá SD-6.

Marshall Flinkman (Kevin Weisman)
Tækjagaur SD-6. Hann er þeirra “Q”. Getur búið til ótrúlegustu hluti úr einum varalit. Lítill og skrítinn karl sem hefur tilhneigingu til að röfla út í hið óendanlega.

Will Tippin (Bradley Cooper)
Besti vinur Sydneyjar og kannski aðeins of hrifinn af henni. Er blaðamaður og tekur fljótlega eftir undarlegum hlutum sem gerast í lífi Sydney. Hnýsnin gæti einhvern tímann komið honum í koll.

Francie Calfo (Merrin Dungey)
Besta vinkona Sydney og Wills og samleigjandi Syndeyjar.

Síður sem vert er að kíkja á:
http://abc.abcnews.go.com/primetime/alias/
http:// www.alias-tv.com

Sýningar á þáttunum - sem munu heita “Launráð” á íslensku - hefjast næstkomandi mánudagskvöld kl. 22:15 í Ríkissjónvarpinu.

Góða skemmtun
——————