Sem áskrifandi Stöðvar 2 til 14 ára tel ég mig í fullum rétti til að gagnrýna stöðina ef mér þykir tilefni til. Ég borga Stöð 2 tæpar 100 þús. kr. á ári! (Stöð 2 + Fjölvarp) þannig að mér finnst ég eiga heimtingu á góðri þjónustu frá þeim.

Fyrst vil ég taka fram að ég sendi þeim tölvupóst fyrir þónokkru síðan, en fékk aldrei svar. Nú var vefsíðunni þeirra breytt fyrir nokkru og er þar ekki lengur tengill sem heitir hafa samband eða eitthvað slíkt. Nú er einungis gefið upp netfangið stod2@stod2.is (sem ég notaði).
Ekkert þýðir að hringja í svokallaðan þjónustusíma Stöðvar 2 því þar svara aðeins krakkar sem vita ekkert og eru hvort eð er að vinna hjá allt öðru fyrirtæki sem sér bara um að svara í símann fyir Stöð 2. Og ekki hef ég tíma eða tækifæri til að hringja á skrifstofu Stöðvar 2 á skrifstofutíma og reyna að fá samband við einhvern sem veit eitthvað og getur svarað mér af einhverju viti (ég hef reynt).

En hvað er það sem ég vil gagnrýna?

Jú, það eru ýmis vinnubrögð þeirra sem ég er mjög óánægð með og mér finnst fyrir neðan allar hellur. Sérstaklega sá slæmi ávani að hætta sýningu á sumum þáttum í miðri syrpu og halda svo (vonandi!) áfram með þá eins og ekkert hafi í skorist mörgum mánuðum síðar, án nokkurra skýringa. Mér finnst þetta oftast vera gert eins og þeir haldi, eða voni, að enginn taki eftir þessu.

Mig langar að nefna hér 3 dæmi sem ég man eftir í augnablikinu (en þau eru sko miklu, miklu fleiri).

1. How I Met Your Mother: Syrpa nr. 2 var sýnd á laugadögum um kl. 19:15. Þegar aðeins 3 (já, ÞRÍR!) þættir voru eftir af henni var sýningum allt í einu hætt án allra skýringa. Í staðinn kom einhver 6 þátta syrpa um risaeðlur. Og eftir það kom eitthvað annað og nú mörgum mánuðum seinna er enn ekki búið að sýna þessa síðustu þætti. Ansi fúlt fyrir aðdáendur þáttanna.

2. Justice: Mjög vandaðir og svoldið öðruvísi lögfræðiþættir sem voru í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Þettta er 13 þátta syrpa, en eftir 7 þætti var sýningum allt í einu hætt og í staðinn komu hinir hörmulega lélegu þættir Navy NCIS, að því mig minnir. Og aftur var þetta gert án nokkura skýringa.

3. Saving Grace: Ágætis þættir með Holly Hunter, sem voru auglýstir MJÖG mikið upp. Þetta er 13 þátta syrpa, en eftir 9 þætti var sýningum skyndilega hætt og í staðinn kom Crossing Jordan. Gat hún Jordan greyið ekki beðið í 4 vikur með að komast að? Ég bara spyr!

Einnig langar mig að nefna þættina Studio 60 sem sýndir voru fyrir alllöngu síðan.
Þeir þættir voru líka auglýstir MJÖG mikið, aðallega vegna þess að Matthew Perry úr Friends lék eitt aðalhlutverkanna. Sýndir voru 16 þættir af 22. Nú veit ég vel að í USA voru þessir þættir drepnir af NBC, stöðinni sem syndi þá. NBC syndic einmitt líka 16 þætti og gerði svokallað hlé á sýningu þeirra í 3 mánuði. Þá dömpuðu þeir síðustu 6 þáttunum á vondum sýningartíma í maí/júní. Þetta sama er Stöð 2 að gera núna. Mörgum mánuðum eftir að fyrstu 16 þættirnir voru sýndir laumuðu þeir síðustu 6 þáttunum inn í dagskrána á vondum sýningartíma mjög seint á mánudagskvöldum. Án nokkurra auglýsinga eða skýringa. Sem sagt: Dömpum restinni af þáttunum því við erum búnir að borga fyrir þá.

Síðast en ekki síst. Hinir stórkostlegu þættir Weeds.
Voru sýndir á Sirkus í fyrra og hitteðfyrra frá ágúst-nóvember. Núna í haust voru báðar syrpurnar endursýndar á Stöð 2 á mánudagskvöldum, 2 þættir í einu. Ég hélt, og fannst það mjög rökrétt, að þetta væri gert til að gefa þeim sem ekki hefðu Sirkus (eða hefðu bara ekki horft á þættina s.l. 2 ár) tækifæri til að sjá þessa margverðlaunuðu þætti og svo (vegan þess að þeir voru sýndir 2 í einu) myndi 3. syrpa byrja í kjölfarið.
En, nei, nú er nokkuð liðið og ekkert bólar á syrpu 3 af Weeds, eða auglýsingum um hana.

P.S. Ég er búin að fara á dagskrárvef Stöðvar 2 þar sem dagskráin er birt til 10. janúar og enginn af þáttunum sem ég tala um er á dagskráinni.

Nú langar mig að spyrja þá sem eru áskrifendur að Stöð 2 hvort þeir hafi tekið eftir þessum vinnubrögðum, og ef svo er, hvað finnst ykkur um þau?