Idol - Stjörnuleitin, er nýjasta trompið í dagskrárgerð Stöðvar 2. Þátturinn er gerður að erlendri fyrirmynd sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur þekkja úr American Idol. Boltinn fór samt fyrst af stað í Bretlandi með Pop Idol en Idol-þættirnir hafa verið settir upp víða um heim við miklar vinsældir. Fyrirkomulag íslensku útgáfunnar verður með sama sniði og annars staðar. Áheyrnarpróf verða í Reykjavík og á landsbyggðinni en að þeim loknum komast 80 manns áfram í Idol – Stjörnuleitinni. Keppendum verður síðan fækkað í 32 og þá heldur spennan áfram að magnast en aðeins 9 komast í lokaúrslit. Söngvurum heldur áfram að fækka og að lokum stendur einn upp sem sigurvegari. Til mikils er að vinna en mjög vegleg verðlaun eru í boði. Þar ber auðvitað hæst útgáfusamningur við Skífuna en gefinn verður út geisladiskur með sigurvegaranum.

Idol-Stjörnuleitin er eitt af viðameiri verkefnum sem Stöð 2 hefur ráðist í en margir koma að gerð þáttarins. Dómnefndin hefur þegar verið valin en hana skipa þau Sigga Beinteins, Bubbi Morthens og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Vald þeirra er mikið en framan af munu þau ráða örlögum keppenda. Eftir áheyrnarpróf eru það hins vegar sjónvarpsáhorfendur sem ráða úrslitum en hlutskipti söngvaranna ráðast í símakosningu. Þátttakendur í Idol – Stjörnuleitinni skulu vera á aldrinum 16-28 ára og þeir mega ekki hafa gefið út lag sem farið hefur í almenna dreifingu. Þátttakendur yngri en 18 ára þurfa að framvísa skriflegu leyfi forráðamanna.

Frekari upplýsingar um Idol – Stjörnuleitina verður að finna í fjölmiðlum síðar í sumar en skráning keppenda hefst í næsta mánuði. Þátturinn fer svo í loftið á Stöð 2 í haust og verður á dagskrá á föstudagskvöldum.