Söngvakeppni Sjónvarpsins 2003 Sjónvarpið tekur nú þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í sextánda sinn. Að þessu sinni var ákveðið að halda veglega forkeppni og valdi dómnefnd 15 lög úr þeim 204 lögum sem bárust í keppnina.

Sjónvarpið leggur til fjögurra manna hljómsveit undir stjórn Gunnars Þórðarsonar, en auk hans skipa hljómsveitina þeir Haraldur Þorsteinsson, Sigfús Óttarsson og Þórir Úlfarsson. Í mörgum laganna koma fleiri hljóðfæraleikarar en hér eru nefndir við sögu.

Bakraddir skipa þau Hjördís Elín Lárusdóttir, Kristján Gíslason og Regína Ósk Óskarsdóttir.

Lögin verða frumflutt í kynningarþáttum sem verða sýndir vikuna 3.-7. febrúar, en þá verða flutt 3 lög á dag, að loknu Kastljósi. Á undan hverju lagi verður sýnd stutt svipmynd af höfundi þess. Lögin verða síðan endursýnd í vikunni á eftir og einnig flutt á Rás 2 eftir frumflutning.

Úrslitin verða í beinni útsendingu þann 15. febrúar úr Háskólabíói og hefst útsendingin kl. 21:00. Keppnin verður einnig send út á Rás 2. Útsendingarstjóri keppninnar er Egill Eðvarðsson en Gísli Marteinn Baldursson og Logi Bergmann Eiðsson verða kynnar.

Ætlunin er að almenningur geti keypt sér miða í Háskólabíó og verður miðaverði stillt í hóf. Framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2003 verður valið með símakosningu á lokakvöldinu. Áhorfendur velja lagið með því að hringja í símanúmer þess lags sem þeir telja besta lagið.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Riga í Lettlandi þann 24. maí n.k. og verður fulltrúi Íslands fyrstur á svið ytra.
Kveðja kristinn18