Nú var kominn tími til að gera betur en síðast.

Til að hafa betri stjórn á hlutunum ákvað ég að nánast fullbyggja borgina áður en tíminn byrjaði að líða.
Ég gerði vegi sem skiptu borginni niður í 9*9 svæði, hvert um sig 6*6 reitir að stærð.
Það vill svo skemmtilega til að svæðið sem ég fékk fyrir borg, þetta minnsta, er nákvæmlega nógu stórt fyrir 9*9 * 6*6 þesskonar hólf, þegar hvert um sig er umkringt af götum.

Þá er að gera zone-in.
Á einum helmingi borgarinnar voru residental og commercial svæði sem tóku 5*9 kassa. Þeim var raðað þannig að ystu kassarnir innihéldu íbúðarhverfi og einnig dálkurinn(9) í miðjunni. Afgangnum var skipt á milli Íbúðarhverfa og verslunarhverfa.
Þegar allt var búið var hvert verslunarsvæði umkringt af íbúðarhverfum og hvert íbúðarhverfi (nema þau á hornunum) snertu 2 eða 4 verslunarhverfi.
Næstu 2 “dálkar” voru tómir og innihéldu tré. Það var heldur ekki vegur sem skar þá í sundur svo það mætti segja að þetta hafi verið 1 dálkur jafn stór og 2 venjulegir.
Síðustu 2 voru Þéttsetin iðnaðarsvæði fyrir utan efstu kassana þar sem í öðrum voru tré og í hinum orkuver og vatnsdælur, og 2 reitir í fyrri dálknum sem ég sé fram á að setja vatnshreinsistöðvar í í framtíðinni og hef bóndabýli í þeim þangað til.

Alls kostaði þetta tæplega 70000. Nú má tíminn líða.

*Tick*, *Tock*. Hvað er þetta, kemur enginn?
Jú, þarna eru byggingar að rísa.

Með tímanum flytur fólk inn og allt virðist gerast svipað og síðast. Það kviknar í reglulega, fólk kvartar yfir sóðaskap og lélegri þjónustu, og mér er sama. (Það virkaði fyrir Ankh-Morpork, það getur virkað fyrir SimCity)
Vatnsmengun lét á sér kræla, íbúarnir kvarta og ég læt það sem vind um eyru þjóta þar til…
…að ein vatnsdælan stíflast.
Vatnsdælurnar voru nefnilega ekki staðsettar á sama stað og síðast, nú voru þær klesstar upp við kolabrennsluna og 2 reitum frá hóp af sótsvörtum strompum… og ein þeirra var hætt að dæla vatni.
Það lítur út fyrir að ég verði að byggja þessa vatnshreinsistöð, því að það mun ekki fjölga í borginni nema að það sé til vatn handa öllum. Bóndinn er rekinn af landinu og stöðin byggð í býlisins stað.
Nú virðist hlutirnir vera komnir í samt lag og vatnsdælan farin að sinna sínu starfi á ný. Hægt og rólega fyllir fólkið borgina.

Meðan ég bíð eftir að æ meira fólk setjist að hef ég stillt á mesta hraða. Það er aðeins eitt sem er truflandi, það er þegar það kviknar í. Þá ganga hlutirnir hægar en skjaldbaka og ég þarf að bíða eftir að bálið slokkni af sjálfsdáðum til að geta haldið áfram. Aðallega vegna nenningarleysis byggi ég litla slökkvistöð í miðja borgina til að geta slökkt bálin með hraði.
Í fyrra skiptið var ég með eina stóra slökkvistöð. Þá kviknaði barasta aldrei í nokkurs staðar og ég var sífellt að fá lof fyrir góðar eldvarnir. Þó að það hafi verið gott fyrir stoltið held ég að það dugi að hafa eina litla slökkvistöð.., ef ég kref alla til að hafa reykskynjara hjá sér.
Það virkar nógu vel, í þau skipti sem það kviknar virkilega í einhvers staðar eru þeir komnir á staðinn og farnir að slökkva mjög fljótt.

Fólkið hópast í íbúðarsvæðin og fyrir rest heldur vatnshreinsistöðin ekki í við verksmiðjurnar og önnur vatnsdæla stíflast. Nú, jæja, var við öðru að búast? Burt með hinn bóndann og upp með vatnshreinsistöð.

Borgin er hætt að stækka og farin að hækka og skyndilega gerist svolítið sem ég bjóst engan veginn við þegar ég byrjaði. Kolabrennslan framleiddi ekki nógu mikla orku fyrir öll húsin. Nú er ég hissa. Þegar ég skipti vindmyllunum út fyrir hana var einungis 13% notkun á henni, og þar sem þetta er lítið land sem ég hef bjóst ég við að hún myndi duga; en svo er víst ekki. Ég tek niður kolabrennsluna og set upp olíubrennslu. Víst framleiðir hún meira rafmagn en er þó töluvert dýrari í rekstri.

Fleira fólk sest að, ný vandamál hafa skotið upp kollinum. Einhver glæpaalda er í gangi, og verksmiðjurnar eru farnar að menga svo mikið að lyktin af þeim finnst ef maður stendur borgar-megin við skóginn.

Aftur stíflast vatnsdæla. Þarf ég nú að setja niður þriðju vatnshreinsistöðina? Það lítur út fyrir það. Ég ríf niður lítið strompahverfi nálægt orkuverinu og byggi þú-veist-hvað.

Núna hafa risið svo gífurlega margar byggingar að jafnvel ekki olíubrennslan hefur undan að framleiða rafmagn. Ég gæti svo sem skipt henni út fyrir aðra betri en það er bara eitt vandamál. Það er ekkert orkuver sem ég hef aðgang að sem framleiðir meira en olíubrennslan. Ég verð því að byggja 2 fyrir þetta eina; auðvitað af ódýrustu gerð, kolabrennslur.

Ekki það að þessi viðbót hafi haft mikil áhrif á eftirfarandi, en fnykurinn úr verksmiðjunum fannst orðið um alla borg. Verslanir seldu gasgrímur og íbúar stunduðu einhvers konar “anda-lítið” æfingar. Á iðnaðarsvæðinu sjálfu var mengunin komin upp fyrir alla þekkta mæla. Slæmt, en hvað getur maður gert í svona löguðu?

Þar sem það var afar lítið eftir að gera og tekjur voru meiri en gjöld, ákvað ég að fara loksins að veita eitthvað af þessum þjónustum sem fólkið hefur heimt í áraraðir.
Byggja skal skóla. Rétti staðurinn er fundinn; hann er í reit (3,3) við suðurgötuna “upp á rönd” svo að sitt hvorum megin við hann eru 2*3 íbúðarreitir, Bus-funding stillt á 87$; rannsóknir sýna að það hylur nákvæmlega helminginn af svæðinu út í horn.
Börnin fara að ganga í skólann og eru langt-um fleiri en pláss er fyrir. Annar eins er því byggður fyrir hinn helming borgarinnar. (Radíusarnir skerast svolítið)

Nú fer ég að fylgjast með… flest virðist ganga sinn vanagang, greind borgarbúa eykst jafnt og þétt.
Þetta virðist bara ganga nokkuð vel þrátt fyrir mengunina, glæpina, heilsuleysið, fátæktina, einstaka bruna, fjarveru skemmtigarða og greindarleysi íbúanna; hugsa ég.

Hlutirnir eru sjaldnast eins og þeir virðast vera.

Eins og þruma úr heiðskýru lofti, og ég get ekki séð að það hafi verið vegna einhvers sem ég breytti skyndilega, tekur eftirspurnin eftir húsnæði sig til og GJÖRSAMLEGA HRYNUR. Græna línan hoppar barasta ofan í -1000 og situr þar sem fastast.
Er þetta kannski eitthvað tímabundið? Ég bíð og línan haggast ekki. Ég lækka skattana, línan haggast ekki. Ég geri hvað sem mér dettur í hug til að redda þessu en það er allt til svoleiðis einskis. Fjármálaráðgjafinn minn fær vægt hjartaáfall.
Borgarsjóður er alveg hættur að fá skatta og fyrir rest er hann tómur.
Það er engu líkara en að allir hafi skyndilega séð dauðastjörnu Darth Vaders beina geislum sínum að borginni og þá flúið eins og fætur toguðu.

Ég veit svo innilega ekki hvað var í gangi, en þessi borg endaði í algjöru gjaldþroti.

Fyrri borg: Íbúar = 15000; var jöfnuð við jörðu.
Seinni borg: Íbúar = 18000; var yfirgefin.