Nú er kominn tími til að vera borgarstjóri.
Ég fæ upp í hendurnar lítið land (1/16) og 100000 SimKrónur. Með svo mikið gat ég nánast byggt allt strax án þess að láta tímann líða.

Ég set íbúðarhverfi og verslunarhverfi öðrumegin á kortið, iðnaðarsvæði hinum megin til að fólkið kvarti ekki yfir loftmengun; tré á milli sem “anda að sér” menguninni; hverju svæði skipt niður í nokkra 6*6 kassa.
Rafmagn fengið með vindmyllu og vatn með turni með inbyggðri vantsdælu.
Þá er bara að opna borgarhliðin og bíða þess að fólk setjist að.

Simmarnir koma, byggja hús og verksmiðjur og virðast lifa ágætis lífi. Áður en langt um líður er rafmagnsþörfin orðin það mikil að ég læt byggja aðra vindmyllu. Og aðra. Nú þarf fólkið meira vatn; upp með annann vatnsturn.

Þegar borgin er orðin tiltölulega stór fer fólkið að hafa áhyggjur af að það kvikni í einhvers staðar. Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því. Svo kviknar í. Hmm… bara í einhverri reykspúandi verksmiðju, ekki mikill missir, það koma fleiri.

Þegar það býr nógu mikið af fólki í borginni ákveð ég loksins (eftir mörg bál) að róa það og skelli stórri slökkvistöð í miðja borgina. Nógu öflug er hún til að komast hvert sem er á þessu litla svæði sem ég má byggja á… but there was more to come.

Hingað til hafði rafmagnið komið frá vindmyllum, en nú voru þær orðnar svo margar að það var ódýrara að skipta um orkugjafa, svo að ég lét byggja kolabrennslu. Mengaði hún víst mikið og því var hún sett í iðnaðarsvæðið, þar sem að það var fullt af mengun hvort sem er og enginn tæki eftir neinni aukningu. Niður með vindmyllurnar, þær voru dýrar í rekstri.

Fólkið lét í sér heyra aftur, í þetta sinn vegna þess að það voru engir læknar í borginni. Þetta gat víst ekki gengið til lengdar þannig að ég byggði litla heilsugæslustöð í mitt íbúðarsvæðið og kom á fót CPR-training. Nóg höfðu læknarnir að gera því að þessi stöð var yfirleitt yfirfull af fólki sem líklega verkjaði í fingurinn. Þetta verður að duga.

Fólkið var ekki hætt að kvarta. Núna var úrgangur frá verksmiðjunum farinn að leka út í vatnið, eitthvað sem ég bjóst ekki við þegar ég plantaði trjánum, svo að ég varð að byggja vatnshreinsistöð hjá verksmiðjunum til að sía vatnið og gera það drykkjarhæft. Kostnaðurinn við að halda henni við gerði það að verkum að munurinn á inn- og útgjöldum var orðinn ansi lítill.

Meira var kvartað. Borgin var skítug. Þá skal gera landfill til að safna ruslinu á. Best að hafa það bak við orkuverið þar sem enginn sér.

Ekki var allt búið enn. Læknarnir á heilsugæslustöðinni voru orðnir þreyttir á að hafa bara 2 rúm á hverja 3 sjúklinga (jafnvel á 120% funding) að þeir fóru í verkfall. Hvað geri ég nú?
Það var bara um eitt að ræða, rífa stöðina og byggja stóran spítala. Til að hafa efni á að reka hann gat ég ekki haft hann á full funding, og þurfti að hækka skattana um heil 2 prósent (En ég gat þó sleppt skyndihjálparkenslunni), með tímanum gat ég þó lækkað þá aftur.

Enn kvartaði fólkið. Það vildi geta lesið en það var ekkert til að lesa. Bókasafn var byggt fyrir þetta kvartandi fólk þó að það væru ekkert margar bækur í því, en þetta var frekar lítil borg (1/16) og það voru nógu margar.

Þegar hér var komið við sögu var borgarsjóður rekinn með örlitlu tapi og ég reyni að laga það með að byggja við borgina, í þetta skiptið upp á við, og breyti low-density zones í mid-density.
Meira fólk kemur og byggir blokkir.

Fleiri vandamál skutu upp kollinum. Íbúarnir, sem hingað til höfðu verið fyrirmyndar-íbúar, voru farnir að haga sér eins og bullur. Hvað nú? Það verður að ráða einhverja ENN stærri, feitari og frekari til að halda hinum í skefjum, svo ég planta lögreglustöð, og kostar aðeins 125 á mánuði, nær að vísu bara yfir hálft svæðið sem er búið á.
Það virkaði ekki betur en svo að fangelsið var alltaf yfirfullt og blöðin sögðu að réttarkerfið væri eins og hjólhurð.

Stærri blokkir hýsa fleiri kvartara. Landfillið var orðið of lítið og borgin var orðin skítug aftur og vatnshreinsistöðin hafði ekki orðið við að hreinsa upp allann þann sora sem kom frá verksmiðjunum svo að drykkjarvatnið var orðið gruggugt aftur.

Nú laga ég þetta á minn hátt.

*Click*
KaBOOOM

Næst megið þið þamba saltan sjó.