Mig langar að kynna í stuttu máli fyrir ykkur STARFLEET, og sér í lagi íslensku deildina, USS Sögu.

Saga er, einsog fyrr segir, íslensk deild alþjóðasamtakanna STARFLEET International. STARFLEET eru samtök sem stofnuð voru árið 1974 og hafa það að leiðarljósi að mynda samfélag fyrir áhugafólk um Star Trek og þær hugsjónir sem að baki þáttunum liggja.

Íslensk deild STARFLEET var stofnuð árið 1998, þá undir nafninu Hekla, og hefur starfað óslitið síðan, og frá miðju ári 2000 undir nafninu Saga.

Alþjóðasamtökin telja þúsundir meðlima frá fjórum heimsálfum, sem tilheyra yfir 250 deildum af öllum stærðum og gerðum. Þar sem STARFLEET eru samtök byggð á Star Trek heimssýninni er skipulagið innan samtakanna einnig tekið úr þáttunum. Hver deild kallast skip og hefur hún sitt stjórnskipulag sem líkist í mörgu því sem til staðar er um borð í skipum þáttanna. Meðlimir sinna stöðum innan Sögu og velja sér þannig að hvaða leiti þeir sjálfir vilja taka þátt í starfseminni.

Saman gerum við okkur margt til dundurs. Við höldum mánaðarlegan skipulagsfund, síðasta sunnudag hvers mánaðar þar sem stefnan er rædd, mál eru tekin fyrir og ákvarðanir varðandi framtíðina eru teknar. Við horfum saman á kvikmyndir, stundum íþróttir, förum í ferðalög, tökum þátt í góðgerðastarfi, og margt, margt fleira.

Ef þið hafið áhuga þá hvet ég ykkur eindregið að kíkja við á vefsíðunni okkar (www.usssaga.com) og vera svo ekki feimin við að hafa samband við okkur ef það er eitthvað fleira sem ykkur vanhagar um að vita.

Við erum að sjálfsögðu alltaf opin fyrir nýjum meðlimum og ég er sannfærður um að sama hvort fólk hefur brennandi áhuga á Star Trek eða ekki, svo fremi sem það vilji tilheyra jákvæðum, samheldnum vinahóp, þá sé USS Saga eitthvað sem höfðar til þeirra.

Með kveðju,
Ívar Gunnarsson, formaður
_________________________
Captain Ivar Gunnarsson,
Commanding Officer, USS Saga
co@usssaga.com
(\_/)