Star Wars: Episode II Attack of the Clones (2002) Star Wars: Episode II - Attack of the Clones (2002)

***1/2

Attack of the Clones er einsog The Empire Strikes Back miðju sagan í trílógíu. Þær eiga margt annað sameiginlegt; báðar eru dökkar en hafa mjög björt atriði, báðar hafa ástarþemu í bakgrunninum, þó að hún sé ekki eins í bakgrunninum hér og í ESB, báðar er betri en kaflinn sem kom á undan og svo framvegis. Þær eru líka báðar hálfgerður stökkpallur til að fylla í tómið á milli kynningu aðalpersónunnar og hvernig hún endar, Anakin frá því að vera lítill saklaus strákur í The Phantom Menace til að vera Darth Vader í Episode III og svo er bæði hægt að tala um Luke og Darth Vader í fyrri trílógíunni, í A New Hope var Luke sakleysislegur sveitadrengur en varð loks alvöru Jedi í Return of the Jedi en Anakin var hinn vondi Darth Vader í ANH en varð aftur góði Anakin í ROTJ. Aðalmunurinn á Attack of the Clones og The Empire Strikes Back er samt að sú síðarnefnda er mun betri kvikmynd!

Margir urðu fyrir vonbrigðum með The Phantom Menace. Hún var náttúrulega algerlega ‘over hypuð’ og það var ekki möguleiki að hún mundi standa undir því sem beðið var eftir. En margir einsog ég t.d. voru ánægðir með hana, hún var reyndar ‘barnalegri’ en þær gömlu, bjartari og krúttlegri en hún var samt mjög góð mynd. Attack of the Clones var ekki eins ‘hypuð’, þó ‘hypuð’ hafi hún verið. Lucas reyndi líka að gera minni af því sem hann var gagnrýnendur mest fyrir, þó hann segist gera allt einsog hann vilji og að hann þurfi ekki hjálp frá neinum askotans aðdáendum. Jar Jar Binks, sá sem fékk mestu skammirnar er lítið. Hún er mun dekkri og það þarf enginn að segja mér að þeim finnist Close Encounters geimverurnar ‘Kaminoarnir’ vera krúttlegir.

Attack of the Clones byrjar tíu árum eftir að The Phantom Menace endar. Anakin Skywalker (Hayden Christensen) hefur eytt áratugnum undir leiðbeinandi hönd læriföður síns, Obi-Wan Kenobi (Ewan McGregor). Anakin bíður spenntur eftir því að fá að taka próf sem gerir hann að ekta Jedi riddara en Obi-Wan vill að hann bíði rólegur. Amidala (Natalie Portman, fyrrum drottning Naboo núna öldungadeildarþingmaður hjá lýðveldinu, hefur lent á hinni þéttbyggðu plánetu Coruscant til að halda ræðu á þingi um hve mikið hún er á móti sköpun lýðveldis hers og annað þvíumlíkt. Strax og hún lenti var reynt að ráða hana af dögum en það tókst ekki sem skildi. Jedi herrann Macu Windu (Samuel L. Jackson) úthlutar Obi-Wan og Anakin það verkefni að gæta hennar. Verkefnið leiðir þá í sitt hvora áttina, Obi-Wan reynir að finna launmorðingjann og endar á hinni földu sjávar plánetu Kamino þar sem íbúarnir hafa unnið hörðum höndum að búa til klóna her fyrir lýðveldið. Þar finnur hann mannveiðarann Jango Fett (Temeura Morrison) og klónið hans, Boba Fett (Daniel Logan).

Á meðan Obi-Wan rannsakar Jango og klóna herinn fer Anakin með Amidölu til heimaplánetu hennar Naboo. Þar verða þau ástfanginn. Anakin hefur miklar áhyggjur af mömmu sinni og Amidala grípur tækifærið til að hitta tilvonandi tengdamömmu hennar og vill skreppa til Tatooine. Þar kynnist Anakin fósturföður sínum og bróður Cliegg Lars (Jack Thompson) og Owen Lars (Joel Edgerton) og hann fréttir að móðir hans hefur verið tekinn af burt og er líklega dáinn. Á meðan er Obi-Wan önnumkafinn við að leysa gátuna um herinn og endar í föngum hins dularfulla Count Dooku (Christopher Lee). Anakin, Amidala og C-3PO fara til Obi-Wan og ætla að bjarga honum en enda sjálf sem fangar Dookus. Það leiðir til endaatriðsins sem er um 40 mínútur og inniheldur nánast allt sem Star Wars getur innihaldið, skrímsli, klónaher, vélmennaher, tugir Jedi meistara og ástæðuna fyrir því að Yoda (Frank Oz) er talinn vera mestu af öllum Jedium.

Um alla myndina eru hlutir sem eiga að minna mann enn meira á gömlu trílógíunna, býlið sem Owen, Beru og Luke bjuggu í á Tattoine í A New Hope er endurskapað. ‘The Death Star’ er nefnd og þrívíddarmynd af henni er sýnd. Sum geimskipin eru farin að líkjast þeim sem koma skulu. Amidala er í líkari fötum og með svipaða greiðslu og Leia var með og í endaatriðinu þegar klóna herinn er sýndur er ‘Imperial March’ eða Darth Vader lagið spilað.

Aðalhluverk kvikmyndarinnar er að sína breytinguna á Anakin, hvernig hann fór að því að breytast í Darth Vader. Myndin sinnir því hlutverki vel. Það eru mörg atriði sem benda til þess hvað mun gerast og hvað hefur þegar gerst. Til dæmis þegar Anakin lýsir því hvernig hann mundi vilja að ‘lýðveldið’ væri, einn maður ræður öllu og lætur alla aðra vera sammála, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Svo eru auðvitað augljósu atriðin sem leiddu til þess, að hann hafi ekki getað bjargað móður sinni frá dauða og handleggsmissirinn. Það er líka sýnt mikið hvað hann lýtur upp til Palpatines og svo virðist sem Palpatine sé nú þegar búin að ákveða örlög Anakins.

Leikarahópurinn fær aðeins meira að gera en í Phantom Menace. Natalie Portman fær að gera annað en að standa um í asnalegum fötum. Ewan McGregor gerir meira af Alec Guinnes eftirhermunum sínum en er ekki bara labbandi með Liam Neeson útum allt. Hayden Christensen er enginn Olivier en hann nær að koma sínu á framfæri. Ian McDiarmid (Darth Sidious/Palpatine), útlitið hans fer hrörnandi og hann er farinn að líkjast meira gamla keisaranum í Return of the Jedi. Christopher Lee leikur skósvein hans, Count Dooku. Samuel L. Jackson (Macu Windu) fær að vera meira á skjánum núna og er meira að segja í nokkrum bardagaatriðum. Ahmed Best er minna á skjánum sem CGI veran Jar Jar Binks og vélmenna tvíeykiðR2D2 (Kenny Baker) og C3PO (Anthony Daniels) eru saman komnir til að halda svolitlum húmor í gangi.

Tónlistin eftir John Williams er mjög góð að vanda. En ég tók eftir því að hann fékk oftar ‘lánað’ frá öðrum verkum en hann hefur áður gert. Það er til dæmis eitt lag spilað oft í myndinni sem Sam Raimi aðdáendur þekkja úr kvikmyndinni Darkman en John Williams þemað er mjög líkt því sem Danny Elfman gerði fyrir hana. Sjón- og tæknibrellurnar í Attack of the Clones eru einsog engar aðrar. Þær eru betri en í The Phantom Menace, sem var með ótrúlega flottar brellur. Öll smáatriði eru gerð svo vel að það er erfitt að bíða eftir DVD útgáfunni, þar er næstum víst að ég muni láta nokkuð oft á pásu, bara til að sjá smáatriðin í bakgrunninum á Coruscant byggingunum.


sbs : 19.06.2002