Smá-inngangur…

Í samræmi við áskorun sem birtist hér á vefnum fyrir nokkru um að halda efninu lifandi, ákvað ég að leggja mitt af mörkum með því að skrifa greinar um mína uppáhalds Star Trek þætti, úr öllum seríum. Ef þessi fyrsta fær sæmilegar viðtökur mun ég skrifa fleiri, en ekki þó með neinu reglulegu millibili. Kannski eina á mánuði, stundum fleiri og stundum færri. Röðin á þáttunum til umfjöllunar verður líka tilviljanakennd, fer bara eftir því hvað ratar í vídeótækið hjá mér næst þegar ég fer að finna fyrir Trek-fráhvarfseinkennum.




Góðir þættir I - Far Beyond the Stars

DS9, season 6. Kapteinn Siskó fellur í dá og dreymir undarlegan draum; hann er svartur Sci-Fi höfundur í New York árið 1953

Að mínu mati var DS9-serían á niðurleið í 6. seasoni. Dominion-stríðið var farið að taka alltof mikinn tíma, og þessi leiðinda-sápuóperubragur farinn að færast yfir þættina, sem síðan náði hámarki sínu í ferlega slöppum lokaþáttum. Þó eru þarna nokkrir góðir þættir sem standa uppúr, og sá er hér um ræðir “Far Beyond the Stars” er að mínu mati hreinn gullmoli. Þetta er líklega al-besti þáttur DS9, og kemst hæglega á lista yfir bestu Star Trek þætti yfirhöfuð.

Þátturinn hefst á því að Siskó fer að sjá sýnir, fólk frá sirka 1950 fer að birtast honum. Í framhaldi af þessu fellur hann í dá. Áhorfandinn veit ekki meira, en Siskó virðist vera kominn inní líf annars manns, Benny Russell. Benny er rithöfundur sem býr í Harlem árið 1953. Hann er mjög fær sci-fi höfundur, en hefur þann djöful að draga að vera svartur á þessum tímum. Hann fær aðeins sögur sínar birtar gegn því að hann haldi bakgrunni sínum og kynþætti leyndum. Hann hefur hingað til sætt sig við þetta og tekst að skrimta á höfundarlaunum.

En nú fer Benny einnig að sjá sýnir svipaðar þeim sem Siskó sá í upphafi þáttar. Hann sér fyrir sér geimverur og fólk úr fjarlægri framtíð. Það er eins og Benny og Siskó séu að horfa á hvorn annan (og heim hvors annars) í spegli. Hér ber líka að geta þess að allir hinir aðalleikarar DS9 leika hér aðrar persónur en þeir eru vanir, semsagt vini og kunningja Bennys.

Í framhaldi af þessum sýnum fer Benny að skrifa stanslaust, sögur um Benjamín Siskó og Deep Space 9. Hann lendir í deilum við útgefanda sinn útaf litarhafti Siskós, og fær ekki sögurnar útgefnar. En sýnirnar halda áfram, og hann lítur á það sem köllun sýna að koma þeim á blað. Þetta leggst sífellt þyngra á líf hans, og endar það með því að honum er sagt upp starfi og lagður inn á geðveikrahæli.

Hið snilldarlegasta við þáttinn er spurningin sem aldrei er svarað: Siskó sér Benny fyrir sér sem raunverulega persónu, rithöfund úr grárri forneskju. Benny sér sömuleiðis Siskó fyrir sér sem raunverulega persónu, sem hann er að segja frá fremur en að skálda upp. Hvor þeirra raunverulegur? Eru þeir það báðir og fá innsýn í líf hvors annars í gegnum einhverskonar “aldaspegil”? Eða var þetta allt eitthvert rugl sem “spámennirnir” plöntuðu í hausinn á Siskó? Eða, er kannski bara Benny raunverlegur, og Siskó og DS9 skáldskapur og/eða hugarórar geðveiks manns?

Það er fjölmargt sem gefur þættinum enn meira gildi. Fyrst er þar að nefna boðskapinn um kynþáttamismunun sem er annað meginþema þáttarins. Þótt ekki sé boðskapurinn frumlegur, er hann góður og gildur. Og fyrir þá sem til þekkja, er þátturinn frábært “homage” til sci-fi menningar eftirstríðsáranna. Flestir af kollegum Bennys á sci-fi tímaritinu eiga sér að einhverju leyti raunverulegar fyrirmyndir.

Ýmislegt er til staðar í þættinum sem hugsanlega hefði getað pirrað mann, hlutir sem manni þóttu vera ofnotaðir. Þar má nefna Dominion-stríðið, Prophets-ruglið, og búningaveisluna. (Star Trek hefur allt frá byrjun notast við búninga og leikmyndir úr öðrum sjónvarpsþáttum sem til staðar eru í Paramount-stúdíóinu, stundum heppnaðist það vel og stundum ekki). En öll voru þessi sögu-element notuð hér á hárréttan hátt, og allt small fullkomlega saman. Sitt lítið af hverju, og úr varð frábær þáttur.
_______________________