Sjö af níu Mig langar til að taka þátt í greinaátakinu sem nú er í gangi á Star Trek áhugamálinu og mér finnst einmitt mjög góð hugmynd hjá Mangudai að standa fyrir svona greinaátaki. Ég ætla hér að neðan að skrifa stutta grein um eina af mínum uppáhalds persónum í Star Trek, Sjö af níu. Ég vil byrja á því að taka fram að það væri að sjálfsögðu hægt að skrifa um hana margar blaðsíður og fara nákvæmlega ofan í ýmis atriði varðandi hana og þáttyöku hennar í Star Trek, en ég ætla að láta nægja að kynna hana örlítið.

Sjö af níu eða Anika eins og hún reyndar heitir réttu nafni var einn af meðlimum Voyager áhafnarinnar þegar skipið var á ferð sinni heim í gegnum delta fjórðunginn. Janeway skipstjóri hafði mikinn áhuga á Sjö, eins og hún var jafnan kölluð í daglegu tali og reyndi að hjálpa henni að verða mennsk á ný og barðist fyrir tilveru hennar um borð.

Anika litla Hansen var á ferð um geiminn með foreldrum sínum þeim Magnusi og Erin sem voru bæði vísindamenn á litlu skipi sem kallað var Raven þegar öll fjölskyldan var samlöguð af Borg skipi í kringum árið 2356 á Omega svæðinu. Talið er að fjölskyldan hafi jafnvel verið fyrstu mennirnir sem voru samlagaðir í Borg samvitundina.

Voyager átti í smávægilegu samstarfi við nokkur Borg skip um tíma í Delta fjórðungnum. Ef ég man rétt hjálpuðust áhafnir Voyager og nokkur Borg skip að við að bægja á brott “sameiginlegri ógn”. Það er ansi langt síðan ég sá þennan þátt en mig minnir að þetta hafi verið einhverjar verur sem ógnuðu borgurunum og réðust á einhvern hátt á heilsu þeirra. Voyager gat boðið fram hjálp til að vinna bug á þessum verum á einhvern hátt (ég man ekki hvort það var einhver læknisfræðileg aðferð, mig minnir það) og fengu í staðinn að fljúga í gegnum Borg svæðið sem skipið var komið á, án þess að áhöfnin yrði samlöguð.

Svo fór á endanum að borg dróni númer Sjö af níu sem áður hafði verið manneskja varð eftir í Voyager, en Sjö var tengiliður áhafnarinnar við samvitundina. Þegar Sjö var komin um borð og átti að einhverjum ástæðum ekki afturkvæmt í nálæg Borg skip ákvað Janeway skipstjórin, eflaust ásamt lækninum, að reyna að fjarlægja Borg hlutana af Sjö. Lækninum tókst að fjarlægja um 80% af borg tólunum og ígræðslunum af Sjö og aftengja hana samvitundinni svo að hún yrði aftur sjálfstæður einstaklingur.

Því miður man ég þessa atburðarás ekki nákvæmlega en í stuttu máli kom það einhvernveginn svona til að Sjö varð einn af áhafnarmeðlimum U.S.S. Voyagers.

Það sem mér finnst svo skemmtilegt við Sjö er hvernig hún breytist smátt og smátt og verður mennskari og mennskari með hverjum deginum. Hún er líka afskaplega klár og býr enn yfir ýmsum eiginleikum borg dróna, t.d. hvað varðar tækni. Hún hjálpaði mönnunum mikið við að finna ýmis ráð sem nota mátti gegn Borgskipum og drónum og þeir lærðu mikið af henni um Borg. Hún á frekar erfitt með mannleg samskipti einfaldlega af því að hún hefur ekki átt í slíkum samskipum síðan hún var barn. Læknirinn sem líka er að reyna að verða mennskur og læra á samskipti, tilfinningar o.fl. aðstoðar Sjö stundum við það að læra að verða mennsk, t.d. með sýndarveruleikaforritum (ég man bara ekki íslenska orðið yfir holodeck).
Sjö er útlitslega mjög fögur og fönguleg kona eftir að borg ígræðslurnar voru fjarlægðar og sumir karlarnir heillast af henni. Sjö hefur þó aldrei verið í almennilegu sambandi þó hún hafi kannski heillast smávegis af einhverjum.

Sjö var meðal fárra á Voyager og sennilega sú eina eftir að Neelix fór frá borði sem kveið fyrir því að Voyager kæmist heim til Jarðarinnar. Hún kunni ekki á það að vera jarðarbúi eða á Jörðinni. Hún átti ekkert “heim” til að fara til eins og allir hinir og átti reyndar aðeins eina frænku á lífi sem hún þekkti ekki neitt. Við vitum ekki hvernig henni hefur vegnað eftir að hún kom í Alfa fjórðunginn en það síðasta sem vitað er er að hún kom þangað ásamt áhöfn Voyagers árið 2378.

Nú ætla ég að láta þetta gott heita og vona að einhverjir hafi haft gaman að, þó það sé ekki nema vegna þess að það sé komin grein í greinaátakið. Ég vona að ég hafi ekki farið rangt með staðreyndir. Mest af þessu er eftir minni og það getur vel verið gloppótt. Endilega leiðréttið ef ég hef farið með eitthvað vitlaust. Ég vil að lokum geta þess að heimildir um Sjö af níu fann ég á síðunni: http://www.startrek.com


Karat.