Jæja, nú hef ég nýlokið því að horfa á alla TOS þættina frá upphafi til enda í réttri röð og tók ég mér 3 mánuði u.þ.b. til að leigja spólurnar í Laugarásvídeó.

Reyndar er ég núna búinn að sjá ALLA Star Trek þætti (TOS, TNG, DS9, VOY, ENT). Þannig að ég er í góðum málum að bera saman seríurnar.

TOS með Kirk, Spock og Bones í fararbroddi verð ég að segja að sé alveg ótrúlega góð sería með miklu drama, ráðgátum, spennu og húmor. Sterkir karakterar.

Þótt TOS sé frá 1967 þá er alveg ótrúlegt hvað var lagt mikið í þessa þætti og hvað þeir eru endingagóðir, flest það efni sem var framleitt á þessum tíma er ekki hægt að horfa á í dag.

Þegar maður er byrjaður að horfa á TOS þá gleymir maður alveg að þetta séu eldgamlir þættir, og ekkert í þáttunum sjálfum sem lætur þig halda að þetta sé eldgamalt (s.s. hárgreiðslur eða hippaföt). Eina sem maður verður var við eru hljóð og myndgæði, en þau eru svosem ágæt.

Það helsta sem ég sé við þættina eru svokallaðir stórstjörnuleikstælar í Kirk, sem er kannski ekkert slæmt. Svo var e.t.v. of mikið um að Enterprise kom að einhverjum plánetum sem voru í rauninni “mirror-earth” einsog þeir kölluðu, væntanlega til að spara vinnu og peninga við að búa til eitthvað framandi umhverfi. Einnig var einkennandi mikið um eitthvað yfirnáttúrulegt, eitthvað tengt huganum, framan af allavegana.


En það er virkilega fyndið að bera saman TOS og Enterprise (nýjustu seríuna), TOS er einfaldlega MIKLU MIKLU skemmtilegra.

Í staðinn fyrir að það séu örfáir þættir mjög góðir einsog í ENT, þá eru allir þættir mjög góðir og aðeins örfáir slakir í TOS.


TOS lét mig uppgötva aftur um hvað Star Trek snérist.