Mig langar að byrja á að taka heilshugar undir orð Atari í grein hans titlaðri “Federation”. Þarna er ég þér 100% sammála.

Star Trek hafði framanaf mikla sérstöðu, jafnvel innan Vísindaskáldskapar-geirans. Í Star Trek endurspeglaðist sterk hugsjón og jákvæður boðskapur sem var fáséður á öldum ljósvakans. Því miður hafa þessar áherslur dofnað mikið eftir andlát Gene Roddenberrys og nýrri seríur (DS9 og VOY) tekið aðra stefnu. Þó þessar seríur séu í sjálfu sér ekkert slæmar þá eru þær þó að tapa þeirri sérstöðu sem Star Trek hefur eða öllu heldur hafði. Þær eru að breytast úr dulbúnum hugsjónapælingum í það að verða það sem kalla mætti á lélegri íslensku “mainstream entertainment”. Ekki ætla ég að þykjast skilja hvað lá að baki þeirri ákvörðun. Ef til vill var tilgangurinn að fjölga yngri áhorfendum, ef til vill eitthvað annað. Niðurstaðan er hinsvegar sú að áhorf Star Trek hefur aldrei verið lægra. DS9 og VOY seríurnar ná samanlagt ekki þeim vinsældum sem t.d. The Next Generation (TNG) hafði á sínum tíma og nýtur enn.

Ég vona bara að framleiðendurnir sjái sig um hönd þegar kemur að gerð nýrrar seríu og átti sig á því að Star Trek þarf að halda sérstöðu sinni til að lifa af. Hasar og ofbeldi geta menn sótt hvert sem er annað og ef fram heldur sem horfir er hætt við að Star Trek týnist einfaldlega í fjöldanum.

Stöndum vörð um sérstöðuna. Leyfum Star Trek að vera Star Trek!
(\_/)