Jeminn eini! þegar ég kveikti á leiðarljósi þegar ég kom heim í dag (sem var í seinna lagi vegna baráttufundar kvenna) beið mín Mindy í öllu sínu veldi, með Nick sér við hlið, að ljúga einhvern ættleiðingafulltrúa fullan …

Af svipnum á Nick að dæma þegar að bros Mindy var sem breiðast þegar hún var að lýsa hve hamingjusöm og algjörlega vandamálalaus þau væru sem par og hve yndislegar fjölskyldur þau ættu sem að hittust reglulega á fjölskyldufundum til að styrkja vinskapinn, held ég að þetta samband sé á hraðri leið í vaskinn!

Öllum sem hafa augu og vilja sjá hvað er að ske má vera morgunljóst að Mindy vill ekki Nick og hjónabandið aftur, hún vill barn - nánar tiltekið litla prinsessu! Að sættast við Nick og að lifa með honum sem eiginkona er bara leið til að komast að æðra markmiði hjá henni. Þó að hann vilji eflaust eignast börn áður en hann er allur þá er hann samt, greinilega, ekki orðinn eins DESPERATE og Mindy. Hann mun því ekki sætta sig við að lifa í lygi með Mindy svo að hún fái sitt langþráða barn - nánar tiltekið stelpu.

Og hvað er málið með það að tala alltaf um litlu stelpuna?!? Af hverju er hún ekki að bíða eftir barni? Sama hvors kyns? Maður hefði nú haldið að manneskja sem þráir börn svona heitt ætti ekki að setja kynið fyrir sig! Ef að hún vill BARA stelpu til að leika sér að, getur hún þá bara ekki fengið sér dúkku?!?

Stundum er manni bara fyrirmunað að skilja Melindu Sue og mun kannski ALDREI gera!