Í gær klukkan 17.05 settist ég fyrir framan sjónvarpið, tilbúin til að horfa á Leiðarljós en sá bara stiklur, hugsaði fyrst, jæja, það hlýtur eitthvað að hafa bilað hjá þeim. Ég kíkti samt á textavarpið og sá að þetta hafi verið planað.

Nú spyr ég, er ekki möguleiki á að sýna 20 ára gamlar stiklur á öðrum tíma en 17.05 virka daga, eins og til dæmis 16.05 virka daga? Þótt þið teljið þetta vera sorp þá hefur Leiðarljós breiðan aðdáendahóp og við þolum ekki að komið sé fram við okkur eins og þriðja flokks áhorfendur. Við höfum þolað það frá byrjun að Leiðarljósi sé hent út fyrir hinar ýmsustu beinar útsendingar frá hinum og þessum íþróttaviðburðum sem ég persónulega efast um að fleiri horfi á en Leiðarljós. Sem dæmi má nefna útsendingar frá hestamótum.

Við hinsvegar getum ekki sætt okkur við að þátturinn okkar sé tekinn út fyrir eitthvað svona rugl, ekki það að ég hafi neitt á móti Ómari Ragnarssyni. Nú spyr ég ykkur, mundi ykkur detta til hugar að taka út Helgarsportið eða einhvern Bandarískan framhaldsþátt t.d. Ed út fyrir Stiklur? Nei það efast ég um.

Við borgum, eins og aðrir afnotagjöld og ætlumst til þess að fá okkar þátt metin jafnmikils og aðra framhaldsþætti. Ekki eins og 17.05 sé mjög eftirsóknarverður tími til að sýna þætti.

Með kveðju og von um tillitssemi og virðingu

Védís
Just ask yourself: WWCD!