Gamlir og góðir grannar - Tad og Paul Tad Reeves

Mynd
Hann kom inn í þættina árið 1998, á svipaðan hátt og Stingray gerði nokkrum árum síðar. Hann er frændi Toadie, og í samræmi við hefðirnar í þeirri fjölskyldu er hann kallaður fiskanafni. Raunverulegt nafn hans er Wayne, en er alltaf kallaður Tad sem stytting á “Tadpole” sem merkir halakarta. Hann var hálfgerður vandræðaunglingur, og svo kom í ljós að hann var ættleiddur, og þá missti hann sig alveg í drykkju og sjálfsvorkunn. En að sjálfsögðu batnaði hegðun hans með tímanum, bæði með hjálp Susan og Harolds.
Tad bjó mest allan tímann heima hjá Harold og Madge og tengdist þeim sterkum böndum, og urðu hann og Paul McClain bestu vinir. Það slettist þó reglulega upp á vinskapinn hjá þeim, sérstaklega vegna stelpumála. Á tímabili voru þeir meiraðsegja báðir að deita Flick Scully í leynum, sem var góð vinkona þeirra og nágranni.
Helstu áhugamál Tad voru BMX hjól og tónlist. Hann uppgötvaði á unglingsaldri ágæta plötusnúðshæfileika, og vann m.a. sem plötusnúður á klúbbnum Hemisphere. Hann yfirgaf Erinsborough (og þar með þættina) þegar hann fékk boð um að túra um Ameríku og sýna snilli sína í að þeyta skífum.



Paul McClain

Mynd
Paul kom inn í þættina árið 1997, þegar hann var settur í fóstur hjá Madge og Harold. Þá var móðir hans nýlátin og faðir hans var róni og hafði ekki átt mikinn þátt í uppeldi Pauls. Hann og Hannah Martin úr næsta húsi urðu fljótlega góðir vinir og seinna kærustupar. Þau hættu þó saman þegar fjölskylda hennar flutti úr bænum.
Paul hafði mjög gaman af áströlskum fótbolta og stóð sig vel, en honum fannst alltaf erfitt að spila með og á móti strákum sem voru bæði eldri og reynslumeiri en hann sjálfur. Eftir smá hvatningu varð hann þó stjarna liðsins. Það leit samt út fyrir að ferlinum hefði lokið áður en hann byrjaði, þar sem Paul lenti í slysi á BMX hjólinu sínu. Þar slasaðist hann á mænu og var í hjólastól um tíma, en batnaði þó að lokum.
Þegar hann lauk skólanum fékk hann stöðu hjá Adeleide Crows, þar sem hann spilar enn að því við best vitum.