Rick og Philip í Leiðarljósi 26.1.2007 Í Leiðarljósi í dag (föstudag 26.1.2006) var aðeins farið aftur í tímann. Snemma í þættinum voru Fletcher og Rick að dást að dóttur Fletcher og Holly og Fletcher minnti Rick á það hversu mikið kraftaverk börn væru og að þeir vissu báðir hvernig það væri að missa börn. Seinna voru svo sýnd brot úr gömlum þáttum þar sem Rick og Philip Spaulding voru að rífast. Þar sem ekki er víst að allir núverandi aðdáendur viti um hvað málið snerist þarna ákvað ég að rifja þetta aðeins upp, svona eins og ég man þetta.

Það að Fletcher hafi minnst á þetta við Rick er nefnilega mjög viðeigandi. Fletcher missti einhvern tíman dóttur sem var 4 ára eða eitthvað svoleiðis. Um hana veit ég því miður ekkert nema að hún dó. En barnið sem Fletcher var að tala um að Rick hefði misst veit ég aðeins meira um. Fletcher í raun missti það líka þar sem þetta var frænka eða frændi hans.
Konan sem Rick og Philip voru að rífast um, Meridith er nefnilega systir Fletchers (sennilega voru þau bæði ættleidd, en það gerir þau samt sem áður að systkinum). Meridith þessi kom einhvern daginn til Springfield og er læknir. Hún og Rick fella hugi saman. Ég man ekki hvort það var fyrir eða eftir að þau giftu sig sem eitthvað kom upp á og Meridth endaði á því að sofa hjá Philip Spaulding, besta vini Rick (gott ef þetta var ekki eftir brúðkaupsveislu Fletchers og Mave (mömmu Ben) sem haldin var í grillveislu Bauer fjölskyldunnar 4. júlí).
Meridth verður ófrísk eftir Philip. Hún veit það og Philip, en Rick hefur enga hugmynd um að hann eigi ekki barnið. Þegar að fæðingunni kemur koma upp vandamál og Rick er beðinn um að velja hvort eigi að bjarga konunni hans eða barninu. Rick náttúrulega stendur gjörsamlega milli steins og sleggju og leitar ráða hjá Philip. Philip er í nánast jafn ómögulegri stöðu og Rick, en ráðleggur honum að bjarga Meridith, þau geti eignast fleiri börn. Rick fer eftir ráðum Philips, Meridith lifir en barnið ekki.

Einhvern veginn komst þetta svo auðvitað upp, að Rick gat ekki verið faðir barnsins og hann leggur þá saman tvo og tvo af litlum hlutum sem komu uppá og fattar að Philip hljóti að hafa verið faðir barnsins. Upp úr þessu komu senurnar sem sýndar voru í dag, þar sem Meridith gat ekki eignast fleiri börn og ákvað að fara frá Springfield.

Rick og Philip sættust nú aftur eftir þetta og áttu ýmislegt saman áður en þeir voru sendir í útlegð frá Springfield fyrir að sviðsetja dauða Philips, sem síðan leiddi til þess að Rick varð ástfanginn af “ekkju” Philips, Beth.

Nú er bara spurning hvort þetta myndbrot með Grant Alexander sem Philip Spaulding sé einhver formsmekkur af því sem koma skal. Eru Philip, Beth og Lizzie kannski á leið heim til Springfield á næstunni? Það verður spennandi að sjá!
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.