Vikan í Nágrönnum Jæja, þar sem það er svo mikið að gerast í Nágrönnum þessa dagana og ekki mikið um innsendar greinar á áhugamálið ætla ég að skrifa aðra grein um Nágranna.

Eins og þið eflaust vitið gerðist margt í síðustu viku, kráin og kaffistofan brunnu, auk læknastofu Karls. Gus birtist aftur og ekkert varð af fyrirhuguðu brúðkaupi Karls og Izzyar. Charlie dó og Paul Robinson birtist aftur eftir meira en áratugar fjarveru frá þáttunum.

Svo að við byrjum á málinum með Charlie og Steph þá gerðist það helst í þessari viku að Lyn er orðin hrædd um að Steph hafi hjálpað honum til að deyja og er í nöp við dóttur sína vegna þessara grunsemda. Lyn vill varla tala við dóttur sína og bannaði henni að koma í jarðarför afa síns. Sem betur fer kom Valda amma hennar á úrslitastundu og leyfði Steph að vera viðstaddri, en Valda telur Steph ekki seka, frekar en flestir aðrir. Það eru aðeins Lyn og bróðir hennar sem telja það, auk lögreglunnar. Í þættinum í gær var Steph handtekin og í dag var hún látin laus gegn tryggingu fram að réttarhöldum. Vonandi fer þetta allt vel og sannað að Steph er saklaus. Hún má ekki við þessu álagi því að eins og kom í ljós fyrir stuttu er hún ný orðin ólétt.

Paul Robinson heldur áfram að vera gjafmildur. Hann hefur keypt Lasseters kjarnann auk þess sem hann borgaði fyrir tryggingu Steph og stendur straum af starfsemi kaffistofunnar sem nú er staðsett í félagsmiðstöð bæjarins. Sumir eru farnir að velta fyrir sér hvað Paul raunverulega vilji aftur til bæjarins. Í raun og veru dettur mér ekkert í hug annað en að hann vilji bæta að einhverju leyti fyrir gamlar syndir í bæjarfélaginu (ég man því miður ekki alveg hvað það var sem hann gerði, kannski að einhver geti minnt mig á það) og kannski finna tengsl við fortíðina, sérstaklega þar sem hann er skilinn og orðinn einn á báti.

Enn hefur ekki komið í ljós hver kveikti í kránni en búið er að hreinsa bæði Lou og Max þar sem báðir hafa fjarvistarsönnun. Lögreglan virðist nú helst hafa Karl grunaðan, og þá sérstaklega um morðið á Gus Cleary. Já, Gus var myrtur. Það kom í ljós að líkið sem fannst í brunarústunum var af Gus og að hann hafði lent í átökum fyrir brunann og því ekki dáið í bunanum heldur verið myrtur áður. Það eru margir sem kæmu til greina sem morðingjar, því ekki var Gus vinsæll og skapaði sér gjarnan óvild manna. Þeir sem ég tel að lögreglan myndi helst gruna eru Karl, Izzy, Boyd og Max. Sumum dettur í hug Paul en því hef ég enga trú á. Aftur á móti er ég enn þá sannfærð um að það hafi verið Luka sem kveikti í, enda á hann sögu að baki sem brennuvargur. Ég veit ekki hvort að það hafi verið hann sem drap Gus, en af hverju ekki? Ef Gus hefur staðið hann að verki, er þá ekki líklegt að sami aðili hafi drepið hann?

Þess má svo að lokum geta að Lana er flutt úr bænum, en fjölskylda hennar flutti aftur til Canada. Gaddi hefur líka eignast nýja kærustu sem er mjög svo lík honum og Serena er að verða brjáluð úr afbrýðisemi.

Þetta eru þau atriði sem mér finnst markverðust frá liðinni viku. Án efa hefur eitthvað gleymst og þið megið endilega koma með viðbót hér að neðan. Jafnframt væri gaman að fá einhver álit, t.d. varðandi íkveikjuna og morðingja Gus. Eru einhverjir á sömu skoðun og ég eða hafið þið einhverjar aðrar hugmyndir?


Karat.