Hitamálin - Izzy og Karl Mig langar til að taka þátt í greinaátakinu og ætla í þessari grein að skrifa um eitt helsta hitamálið í Nágrönnum á þessari stundu.

Það eru nokkur mál sem standa upp úr í Nágrönnum þessa vikuna. Þar má einna helst nefna samband Izzyar og Karls og svo aftur tengsl þeirra beggja við Susan. Það er þetta mál sem ég ætla að fjalla um í þessari grein.

Þegar Izzy kom fyrst til Erinsbæjar laðaðist Karl strax að henni þó að hann væri giftur og á þeim tíma ekki með samband í huga. Izzy, sem virðist vera fæddur daðrari, daðraði við Karl sem og aðra karlmenn. Hún virtist njóta þess að gefa þeim undir fótinn og vefja þeim um fingur sér eftir sinni hentisemi. Þar má helsta telja Karl, Gus og Jack. Þetta allt saman olli því eins og flestir vita að flestar konur lögðu fæð á Izzy.

Þegar upp úr slitnaði á milli Kennedy hjónanna var Izzy svo ekki lengi að taka Karl upp á sína arma, þó mestmegnis vegna þess að hún var ófrísk og vantaði góðan föður fyrir barnið sitt. Föður sem yrði jafnframt góður eiginmaður. Karl, sem var orðinn eins og ástfanginn unglingur, var því besta skotmarkið.

Eins og þið vitið átti Izzy í miklum sálrænum erfiðleikum á meðgöngunni vegna þess að hún lifði í stöðugum ótta við það að upp um hana kæmist. Þetta endaði svo með því að hún missti fóstrið. Þessi missir var til þess að konurnar í Erinsbæ fóru að finna til með Izzy og reyndu að láta sér linda við hana. Izzy var jafnvel farin að halda að hún gæti eignast góðar vinkonur. Izzy og Karl fjarlægðust við missi hins ófædda barns og tóku á sorginni á ólíkan hátt. Karl með því að brotna niður og leita á náðir Bakkusar (og Susan) og Izzy með því að rasa út. Skýrasta dæmið var þegar hún fór út að skemmta sér og reyndi að táldraga Jack, er sem betur fer hafði vit á því að segja nei.

Mér finnst að hjónaleysin hafi fjarlægst mikið. Izzy þarf ekki lengur eins mikið á Karli að halda og áður. Og hún gæti eflaust náð sér í mun yngri og áhugaverðari mann. En örugglega engan sem myndi hugsa eins vel um hana. Hún virðist ekki vera ástfangin, eins og Jack hefur haldið fram við hana. Karl er aftur á móti orðinn örvæntingarfullur og vill ekki missa nýju ástina sína frá sér og vill að þau gangi sem fyrst í það heilaga, sem Izzy féllst á, með semingi þó.

Susan hefur svo dregist inn í þetta mál á þann hátt að Karl leitar til hennar þegar hann á í vanda eins og áður. Og oft á tíðum er það m.a.s. frekar ósmekkegt eins og Susan sagði sjálf. Að hann leiti alltaf til fyrrverandi konunnar með ástarmálin. Susan hefur þó getað aðstoðað Karl við að leysa úr ýmsum hugarefnum og mér finnst ótrúlegt hve hún tekur þessu öllu saman vel. Susan er líka búin að reyna að tala aðeins við Izzy og reynir að vera ekki fjandsamleg þó svo að hún beri vissulega kala til ungu konunnar sem hún telur að vissu leyti hafa spillt hjónabandi sínu.

Það fer svo aftur virkilega í taugarnar á Izzy að það skuli vera Susan sem Karl leitar til í vanda. Hún er orðin verulega afbrýðisöm vegna þessa og það sást best í síðasta þætti þegar Izzy rauk á dyr í afmæli Bens litla. Reyndar var það líka vegna þess að hún heyrði Susan og Lil, sem hún taldi vera vinkonu sína, “baktala” sig.

Mér finnst þetta vera verulega spennandi mál og ég er spennt að vita hvernig þetta fer. Á Izzy eftir að giftast Karli af þrjóskunni einni saman? Á Karl eftir að átta sig á að Izzy elskar hann ekki? Þetta kemur eflaust fljótlega í ljós.


Karat.