Vikan í Nágrönnum

Þessa vikuna hefur ýmislegt gerst í Nágrönnum og ég ætla í lítilli grein að segja frá helstu atburðum þáttanna svo þeir sem ekki hafa séð sér fært að fylgjast með í vikunni geti áttað sig á stöðunni.


Steph og Max giftu sig í þættinum í dag, föstudag. Alla vikuna hefur undirbúningur brúðkaupsins staðið yfir undir styrkri stjórn Lyn og Völdu. Allt átti að vera eins flott og hátíðlegt og mögulegt væri. Max og Steph vildu sjálf ekki hafa stórt og mikið brúðkaup og óaði við öllum undirbúningnum. Mægðurnar leyfðu þeim ekki að ráða neinu. Þau voru sjálf búin að hugsa sér að hafa litla og látlausa athöfn, en sú hugmynd komst ekki einu sinni að. Lyn hélt að Steph væri bara að segjast vilja hafa lítið brúðkaup vegna þess hvað stórt brúðkaup væri of dýrt. En sannleikurinn er sá að Steph átti bara slæmar minningar frá “stóra brúðkaupinu” þegar Marc Lambert skildi hana eftir við altarið. Max hafði gift sig áður og vildi líka hafa látlausa athöfn. Öðruvísi minningu.

Kvöldið fyrir brúðkaupið birtist Max, að ég held í glugganum hjá Steph (en mamma hennar heimtaði að hún myndi eyða síðustu nóttinni sem ógift kona í húsi foreldra sinni), og stakk upp á að þau myndu hlaupast á brott og gifta sig einhvers staðar í rólegheitum. Steph var til í þetta og þau drifu sig út úr bænum ásamt krökkunum. Um morguninn hringdi Lyn og Steph svaraði og ákveðið var að nokkrir fjölskyldumeðlimir og vinir kæmu og væru viðstaddir litla athöfn úti í náttúrunni. Þess má geta að allir voru frjálslega klæddir, Steph var í því sem henni líður best, gallabuxum og bol, en með brúðarslör (sjá mynd). Og svona var nú þetta og þau eru gift.

Valda og Charlie voru búin að vera að tala svolítið saman í síðustu þáttum. Brúðkaupsundirbúningurinn vakti upp sárar minningar hjá Völdu síðan Charlie hafði skilið hana eftir við altarið fyrir áratugum síðan (það leiddi til þess að hún varð að láta systur sína ala Lyn upp). Hann reyndi að biðjast afsökunnar og gaf henni fallega eyrnalokka. Þegar Steph og Max höfðu gift sig var Valda í öngum sínum yfir flottu veislunni og matnum sem hún var búin að panta og varð að afþakka. Charlie fór þá á fjóra fætur og bað hennar í annað sinn. Hann sagðist vilja giftast henni eins og hann hefði ætlað fyrir svo mörgum árum ef hún vildi hann og gæti fyrirgefið sér. Valda tók bónorðinu og þau giftust í athöfninni sem átti upphaflega að vera brúðkaup Steph og Max. Það varð sem sagt tvöfalt brúðkaup þennan daginn.
Þess má geta að það var Libby sem greip brúðarvöndinn.

Aumingja Lou var farri góðu gamni í brúðkaupunum og eftir hið seinna virðist augljóst að ekkert verður úr sambandi hans og Völdu, en þau voru líka búin að ákveða að vera bara vinir.

Réttarhöldin yfir Lou voru núna í vikunni og hann var þrátt fyrir störf Körtunnar sem lögmanns og frásagnir vina sinna í vitnastúkunni dæmdur til þriggja ára fangavistar í Warrinor fangelsinu. Þar af voru tvö ár án tækifæris til reynslulausnar, en dómarinn vildi gera mál Lous að fordæmi.
Lou og allir aðrir voru mjög hissa. Lou var færður í fangelsið og Kartan kennir sér um og er að reyna að undirbúa e.k. áfrýjun.
Klefafélagi Lous er enginn annar en Darcy Tyler læknir, sem er frændi Susan fyrir þá sem ekki vita, og var dæmdur fyrir m.a. að stela af Susan og “ráðast á” Lyn eða því sem næst (ég sá ekki þann þátt eða þætti og er ekki viss um nákvæmlega hvernig þetta var). Lou hefði svo sannarlega getað lent með verri manni í klefa en hann er alls ekki hrifinn af því að þurfa að umgangast Darcy. Darcy varar Lou við ýmsu í fangelsinu, ég átta mig ekki alveg á því hvort hann er velviljaður Lou eða ekki. Fangelsið virðist í það minnsta hafa hert hann. Lou er hins vegar alveg miður sín og æsti sig við greyið Körtuna og heimtar að hann nái sér út. Ég vona nú svo sannarlega að það muni takast.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ég held að þetta séu svona merkilegustu atburðirnir í liðinni viku.

Karat.