Upprifjun vikunnar
Það gerðist ýmislegt í Nágrönnum í þessari viku og samböndin sem ég skrifaði um í minni síðustu grein þróuðust áfram. Ég ætla því að skrifa örlítið um þróunina vikunni.

Samband Toms og Susan hefur svo sannarlega þróast. Susan var búin að gefa Tom upp á bátinn og sagðist ekki ráða við svona samband. Tom kom henni svo hins vegar á óvart og sagðist hafa kastað hempunni, s.s. hætt sem prestur. Núna er hann orðinn “óbreyttur maður” og er farinn að vinna sem sendill, nema hann hafi verið að grínast þegar hann sagðist vera búin að fá vinnu sem sendill! Ég átta mig ekki alveg á hvar hann býr sem stendur. Hann átti að flytja strax af prestsetrinu og er mikið hjá Susan. Ég held að hann búi samt ekki hjá henni.
Fólk tekur þessu sambandi misvel, og eiginlega má segja að flestir líti það hornauga. Libby er ósátt eins og glöggt má sjá og Sindi var svolítið hissa þegar hún sá að Tom hefði gist, en ég held að hún standi með Susan. Lyn er auðvitað algjörlega andsnúin sambandinu enda mjög trúuð kona og ég held að hún beri enn einhverjar tilfinningar til Toms, en hún var hrifin af honum áður en hún giftist Joe.

Karl og Izzy eru búin að komast að þessu sambandi. Mér fannst votta fyrir afbrýðisemi hjá Karli en Izzy gjörsamlega missti sig þegar hún sá að Tom væri með Susan. En hann veit sannleikann um barnið því hún skriftaði hjá honum. Tom er hins vegar enn bundinn þangarskyldu þó að hann hafi reyndar gefið eitthvað í skyn við Susan, sem mér fannst mjög ósmekklegt. Ég held að það sé bara spurning um tíma hvenær Susan áttar sig á að Karl á ekki barnið. Það er spennandi að sjá hvernig þetta samband þróast áfram, en ég er svolítið efins um að það muni ganga upp, ég veit ekki af hverju. Þau eru þó mjög sæt saman og hegða sér bæði eins og ástfangnir unglingar.

Samband Izzyar og Karls hefur lítið þróast í þessari viku. Izzy á við mjög miklar sálarkvalir að etja þar sem hún er skíthrædd um að Karl komist að því að hann er ekki faðir barnsins og að hann muni hætta með henni út af því. Henni líður líka mjög illa yfir því að vera að ljúga að honum. Mér finnst eins og hún sé á milli tveggja elda. Ég er að vona að hún muni segja Karli sannleikann, hann hlyti hvort sem er að komast að sannleikanum fyrr eða síðar. Og fyrr er betra en seinna. Hann er líka læknir og á svo auðvelt með að komast að hinu sanna. Segjum bara ef hann væri að taka blóðprufu af barninu einhvern tíman!

Eins og áður kom fram skriftaði Izzy hjá Tom. Eftir að hann áttaði sig á að hún væri kærasta Karls hvatti hann Izzy meira til að segja honum satt. Nú er spennandi hvort hún lætur verða af því fljótlega, en hún sagði við Tom að hún ætlaði að segja Karli allt. Þar sem þetta er Izzy efast ég samt um að hún muni segja honum nokkuð.

Samband Jacks og Mac hefur líka breyst í vikunni. Jack er að reyna að taka sig á, sofa meira og hætta djamminu. Hann var nærri búinn að saga af sér hendina (ef ég sá það rétt, ég reyndar rétt leit af skjánum þegar þetta gerðist) og Lyn bjargaði honum á síðustu stundu með því að taka sögina úr sambandi. Þarna áttaði Jack sig svolítið á því að þetta gengi ekki lengur og líka að hann væri að fara illa með mömmu sína með þessu rugli. Jack hefur sem sagt minnkað djammið og er hættur að vilja fara út á nóttunni með Mac. Hún er hundfúl út af þessu. Hún lánaði honum peninga og sagði að það lægi ekkert á að borga, en þegar Jack vildi ekki fara með henni út þá heimtaði hún að hann borgaði sér strax.

Mér er eiginlega hætt að lítast á þetta og er farin að halda að Mac sé ekki öll þar sem hún er séð. Kannski er hún bara slæm fyrir Jack. Hún virðist að minnsta kosti alls ekki skilja að hann þarf að vinna og sofa og að hann á ekki endalausa peninga til að skemmta sér fyrir.
Ég skil eiginlega ekki hvernig hún fer að þessu sjálf, kannski er hún á þannig vöktum að hún geti sofið eitthvað á daginn! Hins vegar virðist hún ekki vera alveg nógu vel með á nótunum þar sem hún var nærri búin að keyra á Summer í þættinum í dag. Nú er spennandi að sjá hvað gerist í þessum málum. Mac hótaði Jack í dag að hún myndi ekki bíða eftir honum ef hann nennti ekki að fara út með henni og að hann ætti að ákveða sig (ef hann vill vera með henni verður hann að djamma með henni). Það er spurning hvort hann vill endilega reyna að halda í hana og skellir sér aftur út í ruglið eða hvort hann stendur við orð sín gagnvart Lyn og tekur sig á.

Eitt samband var í burðarliðnum í vikunni en það var á milli Völdu og Lous. Eins og þið munið sjálfsagt var Valda hrifin af Lou þegar hann giftist Trixie. Nú er Trixie farin og Valda gerði sér vonir um að ná í Lou. Og hann var líka hrifinn af henni. Lou hafði sig loksins í að bjóða henni út, en þau voru búin að vera að þræta og rífast hvert við annað. Lou mætti allt of seint því Trixie þurfti endilega að hringja til að biðja hann um peninga og hann losnaði ekki úr símanum. Valda varð virkilega móðguð. Max og Harold fengu Lou eiginlega til að bjóða henni út aftur, en þá kom Valda of seint af því að Charlie, barnsfaðir hennar og æskuunnusti birtist allt í einu hjá Lyn. Hann kom akkúrat á sama augnabliki og Valda sagði við Lyn að fyrsta ástin hyrfi aldrei alveg. Hún átti við Lyn og Tom en þetta gæti allt eins átt við hana og Charlie, sérstaklega því að hún sagði svo við Lou að þau ættu bara að vera vinir. Kannski ætlar hún frekar að reyna að krækja aftur í Charlie. Hvað veit maður!

Ég segi þetta gott í bili, nú er um að gera að halda áfram að fylgjast spennt/ur með hvernig þetta þróast allt saman.

Karat.