Atburðir liðinnar viku Atburðir liðinnar viku.

Mig langar til að ræða aðeins um atburði liðinnar viku og þá helst hvernig sambönd nokkurra persóna hafa þróast.

Susan og Tom hafa átt í leynilegu sambandi sem í síðustu viku skaust upp á yfirborðið (það er þó ekki á allra vitorði). Lyn komst að hinu sanna og er sérlega óánægð með það. Hún og Susan eiga erfitt með að umgangast hvora aðra vegna þessa máls og leituðu báðar huggunar hjá Liliönu.
Ráðskona séra Toms heyrði á tal hans og Susan um samband sitt og grunaði hvað væri að gerast á milli þeirra. Í raun og veru var engin spurning að hún áttaði sig á þessu.
Ráðskonan gaf sig á tal við Susan og sagði henni að hún vissi hvað væri í gangi. Susan þóttist fyrst ekkert vita um hvað hún væri að tala en hin sagði henni að hún vissi þetta vel. Hún sagði Susan að séra Tom væri ekki allur þar sem hann væri séður og gaf í skyn að hann hefði áður átt í ástarsamböndum við konur, þar á meðal sjálfa sig. Susan bar þetta upp á Tom en hann þóttist ekkert kannast við þetta, hvort sem það er satt eða ekki. Ef satt skal segja kæmi mér það nú ekkert á óvart þó hann hefði verið með einhverri annarri konu. En kannski er hann að segja satt. Kannski var ráðskonan bara svona hrifin af honum sjálf og túlkaði eitthvað sem Tom gerði eins og hann væri að daðra við hana eða eitthvað þess háttar.
Það sem við bíðum svo eftir er hvort þessi ráðskona eigi eftir að kjafta frá þessu um Tom og Susan, en þá væri hann í mjög vondum málum sem prestur.
Í lok vikunnar fór Susan svo til Toms og sagði honum upp. Hún sagðist ekki geta átt í þessu sambandi lengur og ég skil hana ósköp vel.

Fleiri sambönd þróuðust áfram í vikunni. Darren hefur lýst því yfir að hann sé enn hrifinn af Libby og vilji fá hana aftur. Darren er sá sem Libby hefur verið að tala við á netinu og ætlaði að hitta á kaffistofunni. Libby komst að því að þetta væri Darren og varð öskureið. Þau sættust svo á endanum og fóru út saman. Stefnumótið endaði með því að þau kysstust smávegis fyrir utan hjá Libby á leiðinni heim. Libby vildi bjóða honum inn en hann afþakkaði. Þar sannaði hann fyrir henni að hann væri breyttur maður, en áður fyrr hefði hann ekki hikað við að fara með henni inn. Darren er búinn að vera að reyna að sanna það fyrir Libby að hann sé breyttur maður og muni koma mjög vel fram við hana ef hún taki hann aftur. Libby er mjög efins og þorir ekki að skella sér út í samband þó svo að það sjáist vel á henni að hún hefur áhuga á því. Libby er ákaft hvött til að þróa sambandið við Darren t.d. af Steph vinkonu sinni. Nú verður spennandi að sjá hvað á eftir að gerast í næstu viku á milli þessara skötuhjúa.

Annað samband sem heldur áfram að þróast er samband Mac og Jacks. Þau hafa bara verið að djamma og skemmta sér saman hingað til. Jack er orðinn frekar sjúskaður eins og allir hafa séð. Hann sefur ekkert og er sífellt að gera mistök. Það lá við stórslysi þegar hann datt í stiganum og nú síðast var öllum tækjum stolið af vinnusvæðinu þar sem Jack gleymdi að læsa. Það er greinilegt að hann ræður ekki við að vera yfirmaður og hann lætur undirmann sinn í raun og veru stjórna fyrir sig og gera allt sem er erfitt, t.d. segja upp mönnum. Jack er á hraðri leið í ruglið sýnist mér.
Mac er lögga þó að Jack viti það ekki enn þá og hún kom á staðinn þegar öllum tækjunum hafði verið stolið. Hún sá Jack koma og ég held að hún hafði verið frekar hissa að sjá að hann væri þarna og að það væri hann sem væri svona mikill sauður. Ég held að hann hafi lækkað í áliti hjá henni.
Jack sagði við Mac að hann vildi minnka djammið og að hann ætti heldur ekki pening. Hún vildi lána honum en hann vildi ekki fá svona mikið lánað. Þau fóru saman út að borða og það var bara hálf einkennilegt. Eins og þau hefðu ekki um neitt að tala. Ég held að Mac hafi sérstaklega leiðst. Þetta endaði því með að þau fóru bara út að skemmta sér.
Ég átta mig ekki á því hvað á eftir að gerast á milli Jacks og Mac. Hún er að djamma til að minnka álagið á sér og gleyma atburðum liðins dags í löggunni. Ég get ekki ímyndað mér af hverju Jack er svona mikið í þessu, allavega ekki upphaflega. En nú er hann sjálfsagt í þessu til að halda í Mac. Mér finnst þau nú eiginlega ekki passa nógu vel saman. Hann er svo mikill “drullusokkur” eitthvað núna finnst mér. En það er spennandi að sjá hvað gerist. Ég giska á að Mac muni á endanum láta hann róa á þeim grundvelli að hann er óábyrgur og tillitslaus við aðra. Hún sjálf er í daglegu lífi ekki eins og þegar hún er að skemmta sér. Jack er alltaf sá sami.

Þetta eru svona mínar vangaveltur. Gaman væri að vita hvað ykkur finnst um þessi sambönd. Þessi grein er ekkert meistaraverk en mér fannst bara vanta inn nýja grein.

Karat.