Connor O´Neill - fortíð&framtíð Eins og flestir sem fylgjast með Nágrönnum vita er Connor O´Neill ungur Íri sem hefur ferðast alla leið til Ástralíu, upphaflega ekki til að setjast þar að. Connor heillaðist af landi og þjóð og vann ötulum höndum að því að fá að setjast þar að, sem honum hefur nýlega tekist.
Connor fékk upphaflega að gista hjá Scully fólkinu, en Jack Scully spilaði fótbolta á Englandi með bróður Connors og voru þeir því kunnugir. Connor var þó gestur hjá þeim ansi lengi þar sem hann flutti í raun og veru bara inn til þeirra. Connor og yngsta heimasætan; Michell urðu ótrúlega ástfangin og fengu eftir margar tilraunir blessun fjölskylduföðurins Joes. Connor og Michell höfðu það að mestu mjög gott saman og útlit var fyrir að samband þeirra myndi endast þrátt fyrir ungan aldur, sérstaklega hennar. Michell hjálpaði Connor m.a. með að læra að lesa, en hann var algjörlega ólæs og þar af leiðandi ómenntaður þegar hann kom til Ástralínu. Einhvern veginn hafði hann komist í gengum grunnskóla á Írlandi án þess að þurfa að lesa eða skrifa neitt af viti.
Það var m.a. vegna skorts á lestarkunnáttu sem Connor var nær vísað úr landi. Hann mátti aðeins dvelja í Ástralíu ákv. lengi og með þeim skilyrðum að hann ynni ekki í meira en 6 mánuði hjá sama atvinnurekanda (ef ég man rétt), en hann hafði unnið mest allan tímann í Ástralíu hjá Joe. Það var einmitt samverkamaður hans hjá Aussie-Build sem sagði til hans hjá Innflytjendeftirlitinu en viðkomandi var illa við Connor vegna velgengni hans og tengsla við yfirmanninn Joe minnir mig.
Svo fór að Connor lagði á flótta. Michell lét ekki bugast og leitaði að honum og fann hann á endanum. Þau ætluðu fyrst að stinga af saman en á endanum fóru þau til baka. Málið hjá Innflytjendaeftirlitinu bjargaðist en Connor varð að skipta um vinnu. Upp á síðkastið hefur hann unnið hjá Lou á kránni.
Michell ákvað að fara til Ameríku sem skiptinemi, þó með trega. Svo að upp úr slitnaði á milli þeirra Connors (það var komin einhver þreyta í samandið fyrir). Connor átti vingott við tvær stúlkur eftir að Michell fór utan. Hann svaf hjá Lori (fyrrverandi kærustu Jacks) og hún varð ófrísk og fór heim til Nýja-Sjálands, enda áttu þau ekki í ástarsambandi. Síðan byrjaði Connor samband við Carmellu, sem er dóttir mafíósans Rocco. Hún er töluvert stjórnsöm og mér finnst Connor hafa verið hálf neyddur út í sambandið, þó svo að hann hafi líka verið hrifinn af Carmellu. Hann var hræddur við pabba hennar sem vildi alls ekki að þau væru saman. Rocco hræddi Connor m.a. með því að keyra um með hann í skottinu á bíl. Connor fannst það því ekki þess virði að hitta Carmellu á laun. Hún hafði þó sitt fram þangað til Michell kom aftur frá Ameríku og hann valdi hana fram yfir Carmellu.
Í þann mund sem Connor og Michelle náðu saman aftur birtist Lori með dóttur sína og Connors; Maddie, sem hann vissi ekki að væri til. Hann fékk strax mikla föðurtilfinningu og vill nú gera allt fyrir dóttur sína, en Lori flutti fljótlega með hana út á land og rétt áður slitnaði aftur upp úr á milli Connors og Michell.
Á þessari upprifjun má sjá að Connor er ekki heppinn í kvennamálum, en hann varð mjög heppinn á annan hátt. Mamma hans sendi honum leynilega uppskrift af fjölskyldubjórnum og vegna hans var Connor orðinn nógu einstakur til að fá full réttindi til að búa í Ástralíu. Því fylgdi að sjálfsögðu mikil gleði.

Það sem ég myndi vilja sjá í lífi Connors er að hann haldi áfram að vinna á kránni og færist þar upp metorðastigann. Mér finnst líka að hann ætti að fara í nám. Hann er lítið menntaður og ég væri til í að sjá hann t.d. skrá sig í Erinsboroug High og taka þar aftur lokaárið. Síðan gæti hann kannski farið út í veitingarekstur eða eitthvað svoleiðis. Ég vona að strákarnir á nr. 30 muni geta keypt húsið, ég held þeir séu bara ágætir saman. Síðan væri auðvitað óskandi að hann eignaðist nú nýja kærustu. Og þá einhverja góða. Ég myndi ekki vilja sjá hann og Carmellu saman aftur t.d. Hann þarf einhverja stöðuga konu eins og Michell var. Síðan vill maður auðvitað sjá Connor rækta sambandið við dóttur sína betur og t.d. að hann tæki hana að sér í einhvern tíma. Það væri svolítið áhugavert að fá einstæðan föður í þættina aftur, og þá með svona lítið barn. Max Hoyland var auðvitað einn með sín börn og Libby er ein með sinn son, en það væri áhugavert ef Connor tæki Maddie upp á sína arma. Mér sýnist reyndar að ég ætlist til frekar mikils af honum. En að minnsta kosti að fara í nám, vinna og taka að sér barnið, það myndi skapa áhugaverða þætti.

Karat.