Jæja, langur þurrkur búinn hjá mörgum bíst ég við…En ég ákvað að reyna að vera alltaf fyrsta manneskjan að skrifa um þátt vikunnar. Þetta varð alltof langt, ég hafði of mikinn tíma. En næstu verða öruglega styttri, uþb 1-1 og hálf bls í Word. Það var bara of mikið af mikilvægum hlutum að gerast. Njótið vel.

Þátturinn gerist daginn eftir lokaþátt seríu eitt, og margt kemur í ljós strax á upphafsmínútunum. Við komumst að því að Dan er ekki dáinn, heldur liggur hann nú á spítala eftir hjartaáfallið. Deb er á spítalastofunni hjá honum, en hana dreymdi að hann hefði dáið, og allir væru í jarðarförinni hans, en vaknaði þegar Dan ( í draumnum) kippir í hendina á henni og segir að hún hafi drepið sig.

Svo sjáum við Haley og Nathan vakna, morguninn eftir að þau höfðu gift sig. Þau eru bæði ansi ánægð, en hunsa það alveg þegar Deb hringir, líklegast til að segja Nathan frá því að Dan hafi fengið hjartaáfall.

Næst sjáum við Keith og Lucas á einhverri strönd í Charleston, þeir tala um hve ánægðir þeir eru með nýja bæinn og svona, Lucas er búinn að snoða sig *sjokk* En þeir eru truflaðir þegar einhver hringir í Keith.

Karen er að taka til á kaffihúsinu þegar hún horfir út um gluggann, og sér lítinn strák í grárri hettupeysu hlaupa framhjá driplandi körfubolta, sem minnir hana mjög á Lucas.

Peyton er að mála eitthvað á spjald, nánar tiltekið textann á laginu sem er spilað undir (þetta lag fannst mér alveg geðveikt, segir nokkurn vegin nákvæmlega hvað er að gerast í atriðinu. Það er með hljómsveitinni Yellowcard, heitir Empty Apartment. Varð að segja þetta, því að ég varð svo hrifin að ég bað um diskinn með þeim í jólagjöf, og hann er mjög góður) Undir textann setur hún svo mynd sem hún hafði teiknað, af Jake og Jenny eins og þau voru þegar þau fóru. Brooke labbar inn í herbergið hennar, og þær eru greinilega orðnar bestu vinkonur aftur. Brooke talar um að nú sé annar dagur “Hoes over bros reunion tour”. Brooke fer út, Peyton er að elta hana, en sér þá bréfið frá Lucas í töskunni sinni, hún hafði semsagt ekki sagt Brooke frá því. Svo fer hún út.

Nathan segir Haley að pabbi hans hafi fengið hjartaáfall. Henni er brugðið, og þegar hann segist ætla að fara á spítalann vill hún fara með. En hún vill ekki segja Dan og Deb strax frá því að þau hafi gift sig. En hann vill það, hann segist ekki vilja fela það að þau séu gift.

Núna eru Brooke og Peyton komnar niður á höfn, og fara að sigla á bát sem pabbi hennar Brooke á. Báturinn heitir Liquid Assets, sem mér fannst nokkuð skondið.

Deb er að tala við lækninn hans Dan um það hvort það sé eðlilegt að hann sé rænulaus svona lengi. Þá spyr hún hann hvort það hefði skipt máli ef hún hefði komið honum á spítalann fyrr. Læknirinn jánkar því, en hann segir bara að hún hafi komið honum þangað eins fljótt og hún gat. Þá sjáum við að hún er að rifja upp þegar hún kom að honum á gólfinu. Hún er að fara að hringja í neyðarlínuna, þegar hann segir að hún ætti að vona að hann deyi. Hún verður þá reið, kastar símanum það langt frá að hann nær ekki í hann, og segir honum að hringja sjálfur. Þá les hún yfir honum hve ömurlegur hann hafi verið, alveg þangað til hann líður útaf. Það skýrir drauminn hennar í byrjun.

Næst sjáum við Keith segja Lucas að Dan hafi fengið hjartaáfall. Lucas sýnir ekki mikil svipbrigði, en er greinilega brugðið.
*Flashback* Það er gærdagurinn, Nathan og Haley eru heima hjá honum, þau höfðu komið inn úr rigningunni í seinasta þætti. Hann spyr hana hvort hún vilji giftast sér. Hún tekur hann ekki alvarlega, segir að þau séu of ung, að fólk geri þetta ekki á þeirra aldri, það sé ekki eðlilegt. Hann segist ekki vera eðlilegur hvort sem er, og að hann vilji aldrei vera það. Hún samþykkir það líklega að lokum, en við sjáum það ekki.*flashback búið*

Keith og Lucas tala um það hvernig Luke líði yfir því að Dan hafi fengið hjartaáfall, Keith segir honum að það sé alveg eðlilegt ef hann sé áhyggjufullur. Luke spyr þá hvort það sé eðlilegt að vona að hann deyi.
*Flashback* Þetta gerist áður en Dan labbar inn og sér að Keith og Deb sváfu saman. Hann situr í bílnum sínum og er að æfa það sem hann ætlaði að segja við Deb, að hann myndi gera hvað sem er til þess að fá þau Nathan aftur, að hann sjái eftir því hvernig hann hefur látið, og að hann elski hana enþá. Svo gerist það sama og í seinasta þætti, hann labbar inná þau.

Karen labbar inn á sjúkrastofuna þar sem Whitey liggur, þau fara að tala saman og hann spyr hana hvort hún ætli sér ekki að gera eitthvað meira, núna þegar Lucas er farinn. Hún segist kannski ætla að taka nokkur fög í háskólanum, en hann segir henni að hætta að hugsa um það, og gera það, því að hún vilji ekki enda eins og hann, og velta sér uppúr því sem hún gerði ekki.

Næst sjáum við Brooke og Peyton, sem eru búnar að “leggja” bátnum, og liggja í sólbaði á þilfarinu og njóta þagnarinnar. Þær tala aðeins um Lucas, en segjast svo ætla að ná sér í nýja kærasta, að Lucas (og Jake hjá Peyton) hafi bara misst af þeim. Brooke segir Peyton að hún hafi alltaf viljað sjá Peyton og Jake enda saman, jafnvel þegar hún vildi ekki tala við hana. Allt í einu brunar bátur fullur af gaurum framhjá þeim, og Brooke verandi Brooke flassar þá þegar þeir bruna framhjá. Svo stingur Brooke upp á því að þær fari að synda, en þær eru ekki með sundföt. Þá ákveða þær bara að fara að synda samt, fatalausar, og endar atriðið á þeim skvettandi eitthvað við bátinn.

Lucas segir Keith að það sé tilgangslaust fyrir hann að taka kassa úr flutningabílnum, þeir séu hvort eð er að fara aftur til baka. Keith vill ekki alveg samþykkja það, hann segir að framtíð hans sé í Charleston núna, hann geti ekki bara farið til baka. Þá byrja þeir að gera lista yfir það afhverju þeir ættu að vera í Charleston, og afhverju þeir ættu að fara aftur til Tree Hill. Fyrst setja þeir Dan sem ástæðu til að vera áfram, svo talar Lucas um hvað hann hafi verið leiðinlegur við Brooke og Peyton, að hann hafi ekki einu sinni getað kvatt þær, hann hafi bara skrifað bréf. Þá sjáum við Brooke og Peyton á bátnum, Brooke talar um að henni finnist ekki slæmt að hann sé farinn, frekar hvernig hann fór, án þess að kveðja. Þá sýnir Peyton henni bréfið, og Brooke verður reið útí hana fyrir að hafa ekki sýnt sér bréfið.

Nathan og Haley eru komin á spítalann, hún spyr hann hvort hann vilji gera þetta einn, en hann vill að hún komi með. Þá segir Haley, já, við stóðum líka saman þegar við töluðum við foreldra mína…
*Flashback* Við sjáum Haley og Nathan labba inn heim til Haley, hún kallar hvort einhver sé heima, þegar hún fær svar snýr hún sér að Nathan og segir honum að ef foreldrar hennar segja já, þá muni hún giftast honum, þau þurfa hvort sem er að samþykkja það þar sem hún er ekki lögráða enþá. Inni í eldhúsinu hitta þau vinkonu mömmu hennar, en svo labbar mamma hennar inn, talar við vinkonu sína, en sér svo Haley og Nathan. Hún kemur með léttan brandara um það hvort Nathan hafi komið inn um herbergisgluggann hjá Haley, eða hvort hann hafi fundið hurðina núna. Þegar Haley spyr hvort þau geti talað við hana og pabba hennar túlkar mamma hennar það þannig að Haley sé ófrísk. En þá skýtur vinkona mömmu hennar því inn að hún sé hrein mey, sem segir svolítið til um það hversu vel mamma hennar þekkir hana. Við komumst að því í þessu atriði að pabbi hennar heitir Jimmy, sem er oftast gælunafn af nafninu James, þannig að hann myndi heita James James :) og mamma hennar heitir Lydia.*flashback búið*
Nathan labbar inn og sér Dan liggjandi meðvitundarlausan á sjúkrarúminu, en spyr hjúkkuna hvort hann muni deyja.

Lucas og Keith eru komnir með ágætan lista yfir ástæður til að vera áfram í Charleston. Þá segir Lucas Nathan, Keith ætlar að skrifa hann sem ástæðu til þess að vera áfram, en Lucas segir að hann eigi að vera hinumegin. Þá segist Keith skilja það ef Lucas vilji fara aftur til Tree Hill, en það sé of margt þar sem hann geti ekki horfst í augu við.

Nathan hittir mömmu sína í kapellunni, og þau tala saman, en Deb sér giftingarhringinn sem Haley er með þegar hún reynir að hughreysta hana. Hún verður brjáluð, og segir Nathan að það sé honum að kenna að Dan hafi fengið hjartaáfallið, þó að hún viti vel að það var henni að kenna. Hún hittir Karen á ganginum fyrir utan kapelluna, og hún segir Karen frá hjartaáfallinu. Þær fara á kaffihúsið, og þar pælir Deb í því hvernig Nathan og Haley hafi getað gift sig til að byrja með.
*Flashback* Nathan og Haley segja mömmu hennar og pabba frá því að þau vilji gifta sig, þau trúa þeim ekki strax, en svo ákveða þau að ræða málið.*Flashback búið*

Peyton og Brooke rifja upp gamla tíma, og Karen og Haley ræða um það að Nathan og Haley hafi gift sig.
Lucas hringir í Nathan, og þeir hegða sér eins og alvöru bræður, Lucas spyr hvernig Dan líði, sem er skrítið umræðuefni fyrir þá báða. Svo spyr Lucas hvernig það hafi atvikast að þau hafi gift sig.
*Enn og aftur flashback* Mamma og pabbi Haley ræða það hvort þau ættu að leyfa þeim að gifta sig, og Haley hlustar á úr næsta herbergi. Við komumst að því að þau voru í svipuðum sporum þegar þau voru ung, og mamma hennar vill ekki að hún hati þau fyrir það að leyfa þeim ekki að gifta sig.*flashback búið*

Brooke og Peyton ákveða að þær vilji ekki lesa bréfið, og henda því í eldinn.
Keith rifjar það upp við sjálfan sig, að Dan vilji ekki sjá hann lengur. Lucas reynir að fá hann til að fara aftur til Tree Hill, því Dan er nú bróðir hans eftir allt saman.

Svo kemur þessi röð af stuttum myndskeiðum, við sjáum Haley labba út úr herberginu sínu með dótið sitt, Karen ætlar að heimsækja Dan, en verður að viðurkenna að hann sé faðir sonar síns til að fá að fara inn og vandamál Whitey eru meiri en hann hafði gert ráð fyrir.
Nathan kemur heim, og sér Haley grátandi, hún er búin að taka af sér giftingarhringinn, hún fer að tala um það að þau hafi gert mistök, að þau séu of ung osfv. Hann er ekki alveg sammála henni, og segir alveg rosalega fallega hluti, þá sjáum við seinasta flashback kvöldsins, þau standa á ströndinni, og eru að gifta sig, mamma hennar og pabbi eru vitnin, en hann fer með aðra góða “ræðu” en hún segir þetta hefðbundna, á meðan sjáum við fleiri lítil brot.
Lucas kemur heim til mömmu sinnar, Whitey liggur á sjúkrahúsinu með tárin í augunum, Deb sér að Dan skrifaði bara D á skilnaðarpappírana áður en hann hneig niður, þau eru semsé enþá gift, Brooke og Peyton eru hlaupandi á ströndinni, við sjáum bréfið brenna rólega í eldinum, en þær hætta þegar Lucas kemur labbandi, og Keith kemur inn á sjúkrastofuna til Dan, og tekur utanum Deb, og þá vaknar Dan.
- MariaKr.