Af hverju er The OC svona vinsælt sjónvarpsefni? Nýlega hóf Skjár Einn sýningar á sjónvarpsþáttum sem bera nafnið The OC. Á ótrúlega stuttum tíma hafa þættirnir hlotið gífurlegar vinsældir meðal ungs fólks á öllum aldri og í skólum, á vinnustöðum og kaffihúsum er mikið rætt um afdrif þeirra sem þættirnir fjalla um. Samkvæmt nýlegum áhorfskönnunum horfðu um 8 milljónir Bandaríkjamanna á þáttinn og samkvæmt Gallup horfði fjórðungur þeirra 12-29 ára Íslendinga sem horfa á Skjá Einn á þáttinn, samkvæmt uppsöfnuðu áhorfi á frumsýningu.
Þættirnir bera sterkan keim af þáttum eins og Beverly Hills 90210 og Melrose Place. Þ.e., sápuóperur sem sýndar eru á besta tíma (“primetime soap opera”). Þannig fjallar The O.C. um ríka unga krakka sem búa í bestu hverfum Kaliforníufylkis og í þessu tilfelli í Orange County sem þættirnir fá nafn sitt af.
Formúlan er útreiknuð af framleiðendum og handritshöfundum. Ríkir krakkar sem eiga við vandamál að stríða og fátæki vandræðaunglingurinn sem kemur inn í líf þeirra. Gleymum ekki vandræðalegum augnablikum sem eiga sér stað dag hvern í lífum persónanna og auðvitað óvæntum uppákomum sem fá hvern þann er fylgist með til að skjálfa af spennu. Og þetta virkar.
Ef ég útskýri þetta aðeins nánar, þá þrá flestir unglingar meiri spennu og hraða í líf sitt og ef því fylgja peningar, þá myndu þeir ekki mótmæla. Alla langar til að koma með hnyttin tilsvör við öllu eins og söguhetjurnar okkar. Allir áhorfendur geta fundið sig í þeim aðstæðum sem koma fyrir söguhetjurnar og óvæntu augnablikin gerast sjaldan fyrir þig og mig, en færðu ekki í magann?
The OC eru greinilega þættir sem eru komnir til að vera. Nú þegar er hafin framleiðsla á 2. tímabili sem mun innihalda 27 þætti eins og hið fyrsta, og fyrir liggja áætlanir um útgáfu þess fyrsta á DVD, alls 7 diska safn.
——————————