Varð fyrir vonbrigðum með þáttinn og ætla því ekki að telja upp allt sem gerðist en aðeins að tæpa á því markverðasta…

Fjárhagsvandræði Frank og Eleni
Hvað sagði ég ekki? Hún Eleni fór til AM að biðja um lán af “settlement” peningunum. Ég hafði nú lúmskt gaman af því þegar að AM gat ekki orðið við bón hennar, þó ekki væri það af reiði/afbrýðissemis/öfundar/illsku ástæðum heldur einfaldlega því hann er búinn að eyða öllu í dagblaðið. Hann var þó boðinn og búinn til þess að reyna eftir fremsta megni að safna þessum peningum, það er jú það sem hann gerir að safna peningum hjá fólki. Eleni hefði nú tekið boðinu hefði Frankie ekki komið eldspúandi á staðinn talandi um að hann myndi aldrei taka við peningum frá AM og þaðan af síður þiggja hjálp frá honum. Já, stoltið er slæmt.
Annars held ég að það sé tími til kominn fyrir Frankie að fara átta sig á að AM kvæntist ekki Eleni gegn vilja hennar. It takes two to tango eins og þeir segja upp á enskuna og þau hefðu aldrei gengið í þetta hjónaband hefði Eleni ekki viljað það. Kannski ættu þau bara að vera fegin að hún var gift AM í þennan STUTTA tíma, því nú hefur hún lært að fólk verður af aurum api og að peningar kaupa ekki hamingju. Ég er ekki viss um að konan sem kom til USA í leit að betra lífi hefði sætt sig við lífið í matsölunni til lengdar, grasið hefði alltaf virst grænna hinum megin. Svo má ekki gleyma því að AM mun eflaust verða þeim peningauppspretta til æviloka, þegar hart er í ári er eitthvað sem segir mér að hann muni aldrei neita þeim um aðstoð…

Mæðgurnar
Jahh, verð víst að draga orð mín til baka um það að Holly verði sú sem kjafti frá nóttinni góðu. Þær áttu saman hjartnæmt spjall mæðgurnar, þar sem Blake uppljóstraði ótta sínum um að hún væri dæmd til að geta aldrei höndlað hamingjuna eins og foreldrarnir. Holly reyndi að hughreysta hana og sagði að nú hefði hún fundið hinn eina rétta og að allt myndi ganga upp að þessu sinni. Blake var nú ekki jafn viss og móðirin. Það merkilegasta úr þessu spjalli þeirra er kannski að Holly sagði að hún elskaði hana og væri stolt af henni, auk þess sem hún hefði alveg sætt sig við samband hennar við Ross. Nú er það bara spurningin hve lengi þessar sáttir munu endast…

Stálin stinn
Jæja ekki alveg! Eins og ég var nú spennt að sjá hádramatískt uppgjör milli feðganna:( Mér varð ekki að ósk minni. Þetta var lélegt atriði. Roger afneitaði Hart sem syni sínum, en þrátt fyrir það að Hart hafi verið að reyna að rétta honum sáttarhönd þegar hann sagði honum frá kossi Jennu og Buzz, þá tók hann afneitun föður síns nú ekkert nærri sér. Var aðallega umhugað um að leiðrétta þann misskilning að Julie héldi að hann hefði verið að reyna að koma unnustu föður síns í rúmið.
Talandi um Julie. Svipurinn á Dylan þegar Julie fór að tala um Hart var óborganlegur, eiginlega hápunktur þáttarins:)

Ástarþríhyrningurinn
Jenna sá sér ekki hag í að lána Buzz peninga, hefði samt eflaust gert það hefði hún vitað í hvað þeir skildu fara. Buzz sá sér þá leik á borði og stal flotta “nýja” gamla bílnum hennar. Hún komst þó ekki að því fyrr en hún var búin að teyma Roger í bílageymsluna til að gefa honum sérstaka uppörvunargjöf. Eitthvað segir mér að við munum sjá neistana fljúga þegar Jenna og Buzz fara að takast á um þetta mál:)