Er þetta ekki stóra spurningin, í hvorn flokkinn fellur AM? Á hann sæti hjá þorparanum eða myndi hann sóma sér betur á lista með þeim sem eru alltaf ljúfir sem lamb?

Við sem höfum fylgst nógu lengi með til að hafa fylgst með öllum þeim sporum sem AM hefur tekið í Springfield, allt frá því hann klöngraðist inn um gluggann á fjallabústað Spauldinganna og allir héldu að þar væri mættur leigumorðinginn sem Alan hafði ráðið til að drepa Phillip og þar til í dag er hann stendur upp að því er virðist allslaus – hefur misst bæði fjölskylduna og auðinn, vitum að þessir flokkar eru of hvítir og svartir fyrir AM – og í raun flesta þá sem búa í Springfield, ef ekki alla!

Það er samt erfitt að hugsa til þess að strákurinn sem var svo hneykslaður á framferði föður síns, þegar hann var trúlofaður Vanessu (munið þið eftir því?!?) og að halda við Revu á sama tíma, að hann kjaftaði frá sé sá sami og borgaði Musettu til að hoppa upp í rúm Franks og láta þannig líta út fyrir að Frankie greyið væri two timing bastard. En kannski ekki, lífið hefur jú ekki verið neinn dans á rósum fyrir AM. Það hefur til dæmis einkennt ástarsambönd hans að áhugi vinkvennanna er alltaf meiri á einhverjum öðrum…lítum á þetta frá byrjun. Danah var í raun hrifin af Cameron, það leið ekki á löngu þar til allur áhugi Harley var farinn að beinast að Dylan og hún eyddi með honum öllum stundum en ekki manninum sínum, Blake – hvað er hægt að segja þetta var sjúk ást ef ást skal kalla og hún hefði betur hlustað meira á mömmu gömlu en þorparann meðan á því hjónabandi stóð og svo er það Eleni sem í þrjósku sinni giftist AM í stað þess að ræða málin við Frank, hún notaði hann en áttaði sig bara ekki á því að hann var líkt og hún óheiðarlegur frá upphafi sambandsins, var svo allan þann tíma sem þau eru búin að vera gift að láta sig dreyma um Frankie – líkt og hjónaband AM og Blake var þetta í raun doomed from the start!

En það má ekki kenna öðrum um það sem AM hefur gert rangt. En hvort er verra að borga konu fyrir að leggjast í annars manns rúm eða að ríða giftri konu? Mér finnst það seinna og þó að ætlunin með því fyrra hafi verið slæm þá hefði það ekki skipt neinu ef kellingin sem aldrei lokar munninum og heldur kjafti hefði gert það líka þá. En nei það var ekki AM sem eyðilagði fyrir þeim þetta happy life þeirra Elenis og Franks heldur var það stoltið hennar Eleni. Hún getur aðeins kennt sjálfri sér um að hafa eytt þessum tíma með AM og engum öðrum.

Ef við bökkum að hjónabandi og í raun sambandi þeirra AM og Harleyar hvað kemur þá í ljós. Þau hittust eins og kunnugt er þegar Frank var á leið með hana á sjúkrahúsið að fæða Daisy. Eða hitti? Öllu heldur keyrði á! Svo tók við hálfgert haturssamband þeirra á milli, sem þó fljótlega þróaðist yfir í ástarsamband sem leiddi þau upp að altarinu (ég vil meina að ástin hafi leitt þau þangað alveg frá upphafi en ekki tilhugsunin um peningana). Það var þó þyrnum stráður vegur að komast þangað, fjölskyldan mótfallin, ef frá er talinn Alan sem sá þar möguleika á að komast í álnir á nýjan leik eftir að Phillip og flestir aðrir íbúar Springfield höfðu lagst á eitt til að koma honum frá völdum og rýja hann inn að skinni, og oft sem þau voru nærri því að skilja að skiptum en að haldast saman. Hver var til dæmis ekki með hjartað í buxunum þegar það neistaði milli Harley og Phillips þátt eftir þátt upp á háaloftinu þegar hann var að kenna henni að vera dama? Aldrei hef ég séð annað eins á skjánum, kannski vegna þess að þetta voru alvöru neistar en ekki leiknir? Hvað veit ég? En allt gekk vel að lokum og þau giftu sig með blessun fjölskyldunnar, sem þó var búin að koma í veg fyrir að hann fengi peningana. Þau voru svo sæt saman þennan dag, hún föst í brúðarkjólnum og hann að reyna að redda málunum með garðklippunum! Svo var það að þau rifu sig frá fjölskyldunni á hæðinni, þegar AM vildi sýna að hann gæti alveg staðið á eigin fótum. Það er skrýtið hve langtímaminnið er lélegt hjá íbúum Springfield, það talar alltaf um AM eins og hann sé ríkisbubbi sem aldrei hafi þurft að lyfta litlafingri, en hann þrælaði nú yfir eldavélinni og vaskinum á matsölustofu Cooperanna í þónokkurn tíma og var bara helvíti góður í því! Jæja þau voru nú ekki lengi í paradís, því fyrr en varði kom Dylan í bæinn og ýfði uppgömul sár í lífi Harley og á endanum var farið að loga í gömlum glæðum þeirra á milli. Þá er komið að fyrsta skiptinu sem AM hefur verið tilbúinn að fórna lífi sínu fyrir Harley…hann rændi barninu og var tilbúinn til þess að yfirgefa fjölskylduna og auðinn og líta aldrei um öxl, lifa lífi sínu á sífelldum flótta ef það þýddi að Harley yrði hamingjusöm. Þau ákváðu að snúa aftur, en það dregur ekkert úr því sem hann var tilbúinn að fórna fyrir hana. Eftir þetta var allt á niðurleið í sambandi þeirra og endaði þetta allt saman með skilnaði þeirra, þau voru hvort öðru reið og vegna aðstæðna í lífi þeirra gátu þau ekki unnið úr vandamálunum þó þau hefðu viljað (hver man ekki eftir Harley grátandi inn á klósetti eftir að hafa rabbað við Blake?).

Þó að hjónabandinu lyki var ekki hægt að segja það sama um vinskapinn. Þegar Josh var að leika Harley grátt var það AM sem stóð við hlið hennar. Það var hann sem bauð henni skilning og öxl að gráta við. Þá hélt maður að þau myndu ná saman aftur en nei! það þurfti að senda hana í burtu til að skósveinar þorparans myndu ekki drepa hana (athugið að þetta er í fyrra skiptið sem AM bjargar lífi hennar því hann skipulagði „flóttann“), sem þeir hefðu ekki hikað við skulum við athuga. Eftir þetta var lítið að gerast á milli þeirra. Gleymum því þó ekki að hann hefði fórnað lífi sínu fyrir hana hérna um daginn á flugvellinum…sumir munu segja að það hafi verið sektarkenndin en ekki góðmennskan en þarf ekki góðmennsku til þess að hafa sektarkennd?!?

Það gefur að skilja að ég var mjög ósátt við framkomu Harleyar gagnvart AM í sprengjumálinu, ég geri mér grein fyrir að henni vantaði meira en nokkuð annað einhvern blóraböggul. Einhvern til að kenna um ástand Mallets, en AM var rangur aðili. Hvernig átti hann að vita að maðurinn var geðbilaður eða amk stórlega brenglaður? Og hann hafði gert allt sem í sínu valdi stóð til að koma í veg fyrir þau ósköp sem dundu yfir. Hafði borgað kellingunni stórfé (mér fannst fólk oft gleyma að Musette var glæpahyski) og látið lögguna viita af sprengjunni (hvers vegna var ekki sérhæfð sprengjusveit send á staðinn í stað Mallets ofurlöggu?!?). En í hnotskurn Harley var fljót að gleyma hver hefur verið hennar dyggasti vinur í gegnum tíðina (þ.e. þann tíma sem þau hafa verið í GL), en það hefur tvímælalaust verið AM. Frank telst ekki með hann er fjölskylda, auk þess sem hann hefur ekkert alltaf verið boðinn og búinn að stand by her side….

Ef við lítum þá á samband AM við Blake. Hvað var maðurinn að hugsa að hætta sér út í samband við konuna sem lokaði bróður hans inni á geðveikrarhæli, vitandi að hann var fullkomlega heill á geði?!? Þetta mun ég aldrei skilja…hins vegar skil ég hvers vegna hann giftist henni, hann stóð jú í þeirri meiningu að hann hefði barnað hana, sem að sjálfsögðu reyndist aðeins sú fyrsta af síendurteknum lygum Blake meðan á hjónabandinu stóð. Ég man ekki nákvæmlega hvað gerði útslagið, þ.e. hvers vegna að hann skildi við hana. mig minnir alla vega að það hafi ekki verið barnalygin, kannski bara var það eitthvað korn sem fyllti mælinn…fyrst gabbaði hún hann í hjónaband og svo hélt hún alls kyns blekkingarleikjum áfram. Nú veltið þið ef til vill fyrir ykkur hvort ekki sé tvískinnungur hér á ferðinni. Því ég fordæmi Blake fyrir að blekkja AM í hjónaband en ekki AM fyrir að blekkja Eleni í hjónaband. En málið er einfaldlega það að AM blekkti ekki Eleni í hjónaband. Það er ekkert eðlilegt orsakasamband milli þess að halda að maðurinn sem þú ert ástfanginn af hafi haldið fram hjá þér og svo þess að giftast manninum sem hefur verið að gera hosur sínar grænar fyrir þér. Þú giftist ekki einum af því að hinn gerði eitthvað af sér, þú giftist einum því hann gerði eitthvað/allt rétt! En hins vegar má ætla að þegar fólk er gott og tekur ábyrgð á gjörðum sínumþá sé beint orsakasamband milli þess að barna stúlku og vilja að giftast henni (amk í Ameríku!). Svo þetta er ekki sami hluturinn.

Eftir að sambandi Blake við þennan Spauldinginn lauk, hélst vinskapur á milli þeirra annað en með hina…hins vegar hafa þau langt í frá góð áhrif hvort á annað. Espa upp framagirnina hvort í öðru svo mikið að allt annað gleymist…margt sem er mun mikilvægara en peningar og völd. Hins vegar er eitt gott um hana að segja og samband þeirra, núna virðist hún vera sú eina sem skilur hvers vegna AM varð að fara á eftir Eleni og hvers vegna að fyrirtækið er ekki efst á huga hans núna þegar allt er svart. Þannig að hún er í raun sú eina sem sýnir honum þá samúð sem hann á skilið…hann elskaði Eleni ekkert minna en Frank og allir voru boðnir og búnir að vorkenna honum þegar Eleni valdi, já VALDI, AM…

Hvað með sambandið við Eleni? Ég held að af öllum hafi AM farið verst út úr þessu öllu saman, því konan sem hann elskaði fékk hann til að trúa að hún elskaði hann líka (ég er hins vegar á því að svo hafi ekki verið, kannski einhver væntumþykja en ekki ást. Hún var allan tímann ástfangin af Frankie sínum). Hann gerði allt sem hann gat til að standast kröfur hennar en ekkert var nóg, því að hjartað var alltaf hjá Frank. Þar liggur kötturinn grafinn í þessu máli. Eleni valdi vitlaust og allir fengu að þjást fyrir það en AM einna mest. Því það voru bara draumar sem hrundu hjá Frank þegar hún valdi AM, en það var veruleikinn sem hrundi til grunna hjá AM þegar hún núna ákvað að yfirgefa hann fyrir Frank. Í rauninni lít ég svo á að gæjarnir tveir hafi verið fórnarlömb Eleni.

Ég held að stærsti ókosturinn við AM sé öfundin. Það er alltaf einhver sem hann er að metast við og það leiðir oft til þess að hann gerir hluti sem hann ætti kannski ekki að gera. Fyrst var það Phillip sem var allt sem hann vildi vera, eða frekar hafði allt sem hann vildi. Aðdáun og elsku föðursins, auk virðingar innan fjölskyldunnar og fyrirtækisins. Svo var það Vanessa, sem „rændi“ því sem réttilega átti að vera hans…forstjórastöðunni í fyrirtækinu, þó núna sjái hann að hann var ekki tilbúinn leiddi þetta hann þá til ýmissa misgóðra verka. Nú er það Frank…hann hafði alltaf athygli Eleni og AM þoldi það ekki. Skiljanlega reyndar, hún átti að heita gift AM en ekki Frank.

Allir voru alltaf tilbúnir að fyrirgefa syndir Phillips á þeirra forsendu að við öðru væri ekki að búast miðað við föðurinn. Syndir feðranna og allt það (þá er átt við Alan ekki Justin). Af hverju á það sama ekki við um AM? Hann hefur ef eitthvað er farið verr út úr samskiptunum við Alan en Philip gerði. Muniði til dæmis ekki eftir því þegar hann sagði Harley frá einum af þeim fáu skiptum þegar Alan heimsótti hann. Hann var að leika við einhvern vin sinn og Alan vissi ekki hvor var sonur sinn. Bara grátlegt! Þannig að kannski hitti Eleni naglann á höfuðið í gær (30/9) þegar hún sagði að það hefði ræst betur úr AM hefði hann átt almennilegan föður.

Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að amma hennar Eleni hafi átt kollgátuna þegar hún spurði Eleni hvort að maðurinn sem sparaði ekkert til þess að hjálpa veikri móður hennar gæti í raun verið eins vondur og hún vildi meina? Það er alveg ljóst að mínu mati að það er meira gott í AM en vont. Því myndi ég ekki hika við að setja hann á góðu kalla listann, en þó með þeim fyrirvara að hann er enginn dýrlingur og alveg jafn mannlegur og allir aðrir í ljósinu okkar!