Það er svo að ég er mikill aðdáandi sagnfræðibrandara af ýmsu tagi en af einhverjum ástæðum virðist öðru (eðlilegu?) fólki ekki finnast brandarar um liðin mikilmenni sögunnar vera sérstaklega fyndnir. Ja… fyrir utan þennan með Hitler og gasreikninginn sem af einhverjum ástæðum er alltaf sívinsæll, eins crappí og hann er :-) Kannski er þetta vegna þess að þessir brandarar eru oft ekkert sérstaklega fyndnir nema fyrir innvígða. Til dæmis er til hellingur af Leonid Brezhnev bröndurum sem menn fatta ekkert fullkomlega húmorinn í nema vera svolítið inni í valdabaráttunni í Kreml og kommúnismanum í Sovét yfirhöfuð. Ég læt fylgja eitt lítið dæmi.

“Það var á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980 og komið var að opnunarávarpi leikanna sem að sjálfsögðu var flutt af félaga Brezhnev. Hann var farinn að gamlast nokkuð og farin að daprast sjón og þurfti þess vegna aðstoð við að komast upp á pallinn að púltinu. Hljómsveit og kór Rauða hersins lauk við að þruma Internationalinn og félagi í ungliðahreyfingunni rétti Brezhnev ræðuna. Brezhnev hnyklar mikilfenglegar augabrýrnar pírir augun fram fyrir sig. Dauðaþögn fellur á Ólympíuleikvanginn á meðan heimurinn bíður eftir að leiðtogi Sovétríkjanna hefji upp raust sína. Brezhnev lítur loks upp og hefur ræðuna á stöfunum: O, O, O .. Þá stekkur ungliðinn fram að púltinu, pikkar í karlinn og segir með skjálfandi röddu: ”Fyrirgefðu Félagi aðalritari, en þetta eru ólympíuhringirnir!"

Ég var að velta því fyrir mér hvort einhverjir aðrir hér væru í felum með þetta undarlega áhugamál og hvort ástæða væri til að setja upp kork eða kubb með slíku þar sem menn gætu sent inn uppáhalds skopsögur. Eða kannski er ég bara skrýtinn eftir allt saman.

obsidian