Nýútkomin bók, Mcmillan-útgáfufyrirtækisins, um líf Önnu Frank, gyðingastúlkunnar heimsþekktu, gefur að sögn útgefenda nákvæmustu mynd sem komið hefur fram til þessa af stuttri ævi hennar.


Nýútkomin bók, Mcmillan-útgáfufyrirtækisins, um líf Önnu Frank, gyðingastúlkunnar heimsþekktu, gefur að sögn útgefenda nákvæmustu mynd sem komið hefur fram til þessa af stuttri ævi hennar. Á fréttavef BBC í gær kom fram að bókin er gefin út í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin sextíu ár frá því að dagbókin hennar kom út á prenti.

Dagbók Önnu Frank er ein best þekkta og áhrifaríkasta frásögn af ofsóknum á hendur gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni.

Nýja bókin fjallar um líf Önnu áður en hún fór í felur í Amsterdam. Verkið miðar að því að fylla út í þá mynd sem til er af lífi hennar fram að þeim tíma og rekur hvernig hún var svikin og handtekin. Hún lést í kjölfarið í Bergen-Belsen-útrýmingarbúðunum.

Langaði að verða rithöfundur
Anna og fjölskylda hennar bjuggu við mjög þröngan kost á leynilegu lofti í Amsterdam á tímum hernáms nasista, frá 1942 til 1944. Dagbókin segir af lífi þeirra í felum og því sem þau lögðu á sig til að finnast ekki. Anna segir einnig töluvert frá þrám sínum og vonum, en hana langaði eins og frægt er mikið til að verða rithöfundur: “Mun ég nokkurn tíma skrifa eitthvað stórkostlegt?” spurði Anna í dagbókinni sinni, “mun ég nokkurn tíma verða blaðamaður eða rithöfundur? Ég vona það, ó, ég vona það svo sannarlega, því skrifin gefa mér færi á að skrá allt, allar hugsanir mínar, hugsjónir og drauma.”

Hana grunaði auðvitað ekki að með þessum dagbókarskrifum myndi ósk hennar rætast og hún skapa sér þá frægð sem hana dreymdi um. Hvað þá að síðari tímar myndu líta á orð hennar sem “stórkostlegan” – eins og hún orðar það – vitnisburð um hugrekki þess sem stendur frammi fyrir grimmilegum örlögum og ómennskri ógn.

Það er stofnunin sem rekur hús tileinkað minningu Önnu Frank í Amsterdam sem lét skrá bókina, en markmiðið er að minna á helförina og örlög þeirra sem létu lífið í henni í valdatíð nasista. Því þótt Anna Frank væri einungis eins og dropi í haf þeirra milljóna sem fórust í helförinni er dagbókin hennar einstaklega vel til þess fallin að ljá þeirri þjáningu sem í helförin fórst andlit – áminning um að á bak við tölur sem telja milljónir eru einstaklingar sem allir áttu sér vonir og þrár er siðblinda þriðja ríkisins batt enda á.