Smá íhugunarefni hér:

Það er ekki að ástæðulausu sem að meðalaldur fólks hefur farið síhækkandi síðastliðna áratugi. Að stórum hluta má þakka þetta sí-batnandi þjóðfélagsaðstæðum síðustu 100 ár - minnkandi fátækt, heilnæmari búsetuaðstæðum, betri aðgangi að heilbrigðisþjónustu.

En mikið af þessu má þó rekja beinlínis til stórstígra framfara í læknavísindum. Þá erum við að tala um t.d. um bólusetningar og meðferðir við krabbameini, o. fl. En þó fyrst og fremst fúkkalyf, sem líklega hafa bjargað fleiri mannslífum en nokkur önnur uppfinning læknavísinda.

Sjálfur er ég rúmlega þrítugur og við ágæta heilsu, en þegar ég las grein einhversstaðar og fór að spá í þessu, áttaði ég mig á að ég hefði hæglega getað dáið a.m.k. þrisvar á ævinni úr vandamálum sem ekki hefðu verið svo auðlæknanleg fyrir 100 árum síðan: Úr mislingum 6 ára, úr lungnabólgu 13 ára, og úr sýkingu eftir slæmt fótbrot 27 ára (hefði fyrr á tímum líklega misst fótlegginn neðan við hné, eða í besta falli orðið haltur það sem eftir var ævinnar).

Þó í mínu tilfelli hafi þetta allt verið lítið meira en tímabundin óþægindi, hefðu þau fyrr á tímum hæglega getað leitt til dauða eða örorku. Og vel má vera að ég sé þarna að gleyma einhverju sem mér þykir svo ómerkilegt að ég man ekki lengur eftir því.

Hvað haldið þið, hefðuð þið náð ykkar núverandi aldri fyrr á tímum?
_______________________