Datt í hug að stofna hér umræðuþráð um nýjustu könnunina, þar sem menn geta “gert grein fyrir atkvæði sínu”.

Ég merkti við “nei”, en hefði líklega alveg eins getað merkt við “Já, en…” ef það hefði verið í boði. Efnið er þannig að afskaplega erfitt er að svara spurningum um það með afgerandi “já” eða “nei”, til þess er málið aðeins of flókið.


Upphaf Fyrri heimsstyrjaldar var ekkert frekar Þjóðverjum að kenna en Frökkum og/eða Bretum. Hinsvegar er það staðreynd að þeir réðust inní Belgíu og Frakkland og í stríðinu var stór hluti þessara landa lagður í rjúkandi rúst, án þess að Þýskaland yrði fyrir neinu svipuðu tjóni. Það hefði því verið réttlætanlegt að láta þá greiða sanngjarnar (og viðráðanlegar) skaðabætur til þeirra landa.

En það fór því miður ekki svo. Skaðabóta-ákvæði Versalasamninganna voru fáránleg, ætlunin var greinilega að refsa og hefna Þjóðverjum og halda þeim í efnahagslegri spennitreyju. Sanngjarnar skaðabætur virtust vera aukaatriði, fyrst og fremst skyldi láta Þýskalandi blæða. Enda voru þarna skapaðar þær kringumstæður sem Hitler nýtti sér til að ná völdum.


Í seinna stríði voru aðstæður allt aðrar. Stríðið var óumdeilanlega Þjóðverjum að kenna. Það varð líka margfalt skæðara en fyrra stríð, og þegar því lauk lá Þýskaland allt í meiri rústum en flest þeirra landa sem þeir höfðu ráðist inní.

Í stríðinu komu upp ýmsar áætlanir um að láta Þjóðverjum blæða eftir stríð, jafnvel enn verr en síðast. Alræmdust þeirra var hin svokallaða “Morgenthau-áætlun” Bandaríkjamanna, sem síðar var algerlega fallið frá. Í stríðslok sáu menn hversu fáránlegar slíkar áætlanir voru; landinu hafði þegar nánast algerlega blætt út, og þurfti þvert á móti gríðarlega efnahagsaðstoð til að verða starfhæft aftur - þá fyrst væri hægt að íhuga hugsanlegar stríðsskaðabætur á vitrænum grunni. Að auki var veikt og biturt þurfalings-Þýskaland það síðasta sem Vesturveldin þurftu á að halda á eftirstríðsárunum. Þess vegna var farin allt önnur leið en eftir fyrra stríð: Nú var Þýskalandi hjálpað á fætur, undir ströngu eftirliti. Enda varð Vestur-Þýskaland innan 15 ára einn af styrkustu stoðum NATO.

Ekki þekki ég þá sögu alla, en eftir að Vestur-Þjóðverjar fengu aftur sinn efnahagslega styrk, greiddu þeir gríðarlegar upphæðir í stríðsskaðabætur til landa sem illa urðu fyrir þeim í stríðinu. Upphæðir sem þá voru nánast orðnar klink fyrir þá, en komu sér mjög vel hjá viðtakendum.

Athyglisvert er líka að Vestur-Þjóðverjar tóku nánast einir á sig þessa greiðslubyrði. Sovétmenn höfðu rænt öllum verðmætum úr Austur-Þýskalandi eftir stíðið, og var það í huga Austurblokkarinnar afgreitt mál. Austurríkismenn greiddu aldrei eyri, þeir héldu því fram (á mjög hæpnum forsendum) að þeir hefðu verið fórnarlömb Þriðja ríkisins fremur en aðilar að því!
_______________________