Kýros konungur
Persar voru upphaflega ómenntuð bændaþjóð sem bjuggu í fjalllendi austan við Persaflóa. Kýrus var konungur þeirra, sem laut þó yfirráðum Medakonungs sem þá réði ríkjum og gerði íbúunum lífið leitt.
Þá gerðist það sem engan óraði fyrir; Kýros konungur(eins og hann er stundum kallaður) braust til valda í Medu, gerði uppreisn 550 f.Kr, og skömmu seinna Lýdíu, sem Krösus hafði stjórnað.Með mildi sinni og góðmennsku sló Kýrus í gegn, og brátt réði hann yfir allri Vestur-Asíu.Hann leyfði þjóðunum sem hann sigraði að halda trú sinni og menningu, en gerði þær skattskyldar engu að síður.Frægasta dæmið um góðmennsku hans eru samskipti hans við Gyðinga. Árið eftir fall Babýlonar leyfði hann þeim Gyðingum sem hann hneppti í hald að snúa aftur til síns heima og veitti þeim fé til að byggja aftur upp það sem hafði lagst í rúst.
Flestar aðstæður voru honum í vil, sem lét hann leggja undir sig heiminn á rúmlega 10 árum. Hann lagði undir sig þjóðir og leyfði þeim í grófum dráttum að ráða sér sjálfar, og gerðist þannig boðberi friðar.
Kýros konungur ætlaði síðan að láta kné fylgja kviði og ráðast inn í Egyptaland. Sá draumur rættist hins vegar ekki; Kýros féll í herför gegn Sökum, hirðingjaþjóð á Mið-Asíu. Kom það því í hlut Kambýsesar, sonar hans. Eftir fall Kambýsesar settist Daríus sonur hans í hásætið.Hófst þá mikil velmegun í Persaríki.

Skipulag Persaveldis
Eitt af því sem Persar þróuðu með sér sjálfir var skipulag heimsveldisins.
Stærsti þátturinn í velgengni þeirra var að þeir voru fyrstir þjóða til að koma sér upp mynt. Hafði myntin þau áhrif að hún einfaldaði skattheimtu og viðskipti.Daríus þessi sem áður var nefndur skipti Persaveldi í 20 fylki(satrap) sem hvert og sér átti sinn konung eða landstjóra. Þeir tóku upp vegakerfi Assýringa sem ráðið höfðu ríkjum áður á þessu landsvæði, og stækkuðu og endurbættu það svo vel, að sendiboðar Persaveldis gátu komið skilaboðum þvert yfir gjörvallt ríkið á hálfum mánuði. Stór þáttur í þeim gríðarlega hraða voru hestar þeirra, sem eru taldir fyrirrennarar arabísku gæðinganna. Höfðu þeir sérstaka gangtegund sem, að sögn, líktist tölti, og kann það að vera ástæða þess að riddarar og sendiboðar Persa sköruðu framúr miðað við aðrar þjóðir. Þetta bætta vegakerfi, áberandi réttaröryggi og blómstrandi atvinnulíf í kjölfar upptöku myntarinnar olli því að Persaveldi stóð í miklum blóma.
Mikilvægustu heimildir sem til eru um Persa og veldi þeirra eru sagnarit Heródóts. Hann skrifaði mikið um lifnaðarhætti þeirra, sem og árekstra milli Persa og Grikkja á 5.öld f.Kr. Einnig eru margar opinberar áletranir frá Persneskum aðalsættum sem gefa mikilvægar vísbendingar um þessa þjóð.Sökum þess að Persar voru í upphafi lítt siðmenntuð þjóð, varð það til þess að þeir settu lítið mark á þjóðirnar sem lutu þeim vegna fábrotinnar menningar.
Svo mælti Zaraþústra
Hitt atriðið sem Persar sköpuðu upp á eigin spýtur voru trúarhugmyndir. Mesti spámaður og heimspekingur Persa var Zaraþústra, og er talið að hann hafi verið uppi á 6. öld, jafnvel fyrr. Hann þróaði stórmerkilega trúarhugsun sem er að vissu leyti undanfari kristindómsins. Kjarninn í henni er, að í heiminum togist á tvö öfl, hið góða og hið illa. Ahura Mazda, og Ahriman.Þeir höfðu með sér marga óæðri guði og djöfla. Þessi tvö öfl berðust um heiminn, og mannkynið tæki þátt í lífsbaráttunni með þessum guðum, og gæti valið með hverjum þeir héldu. Boðskapurinn var auðvitað sá, að Ahúra Mazda sigraði að lokum hið illa.
Það er með öllu óvíst, hver þessi Zaraþústra var, hvar hann lifði og þar fram eftir götunum, en eitt er þó víst; að trúarhugmynd þessi er svo djúpstæð að hún hlýtur að vera frá einum nanni komin. Landslag Persaveldis svipar til trúnnar, þar skiptast á miklar andstæður hvert sem litið er, ískuldi og steikjandi hiti, gróðursælir akrar og skrælþurrar eyðimerkur. Þveröfugt við þessar flóknu helgidýrkanir sem einkenndi trúarbrögð í nærliggjandi menningarsamfélögum var tignun Ahura Mazda ákaflega einföld, en hún fólst aðallega í því að láta eld loga á opnu altari.
Leiðtogar Persaveldis játuðu allir þessa trú, sem breiddist með ógnarhraða út þökk sé lærisveinum Zaraþústra, þótt hún hafi strax blandast öðrum trúarbrögðum.
Dýrkun Ahura Mazda týndist síðar meir innan um alls konar helgisiði og hindurvitni. En enn þá eimir eftir af kenningum hans í þeim löndum sem Hellenisminn hélt sig.

Persastríð
Aldamótaárið 500 var merkilegt fyrir þær sakir, að þá brutust grísk borgríki í Jóníu(á strönd litlu Asíu sem voru undir yfirráðum Persa) m.a. vegna þess að Dareios ætlaði að flytja Fönikíumenn til Jóníu, og að verslunar- og auðborgin Sýbarís lagðist í eyði, sem olli viðskiptakreppu hjá borgríkjunum. Leituðu þau nú logandi ljósi að bandamönnum í heimalandi sínu, Grikklandi, en þar var fátt um svör, fyrir utan 20 herskip sem Aþeningar sendu þeim. Dareios var öskuvondur þegar hann sá að Aþeningar hjálpuðu uppreisnarseggjunum og sendu þangað innrásarflota sem lagði Aþenu í rúst. Að því loknu bjuggust þeir við að Grikkland lægi opið gagnvart þeim, en það reyndist vera rangt. Mun smærra aþenskt varnarlið(undir stjórn Milítadesar) vann sigur á 600 herskipum og 25 þúsund manna þrautþjálfuðu fótgönguliði og hröktu þá á brott.
Þá varð Dareios sótöskuvondur(s.s. ennþá reiðari en í fyrra skiptið) og dró sig í hlé til margra ára við uppbyggingu enn þá stærri hers sem átti að valta yfir Grikkland og öllu sem tengdist því. En hann dó, svo Xerxes sonur hans tók við verkefninu.(sem tafðist lítillega vegna nokkurra uppreisna), og 481 f. Kr. Lagði Xerxes af stað með 1.7 milljón fótgönguliða, 80. þús. Manna riddaralið, 20. þús. Í úlfaldasveitir og nokkuð frá Þrakíu víðar, eða 324 þús. manns. Að viðbættum Skipaflotanum og þjónustu- og flutningaliði og öðru dóti, var þetta allt saman um 5.2 milljónir manna.
En herkænska Grikkja var með ólíkindum. Með því að berjast á þeim stöðum, þar sem Persar gátu ekki beitt öllu liði sínu í einu(svo sem sjóorusta á þröngu sundi), unnu þeir sigur. Þá var persneska goðsögnin hrunin. Hnignun Persaveldis var í nánd.
Hnignun Persaveldis og niðurlag
Persneska heimsveldið hvarf jafn skjótt og það reis upp. Í vestri var stórkonungur á uppleið, Alexander mikli, sem notfærði sér heimsveldið sem stóð á brauðfótum. Á sama hátt og það hafði risið upp vegna mildi sinnar, þurfti það einnig að gjalda þess með hruni sínu. Ósamþykki var meðal þeirra þjóða sem Persar höfðu lagt undir sig sem varð einn liðurinn í gervallri undirtöku Alexanders mikla.
Persar og veldi þeirra höfðu veitt þjóðum sínum mikinn greiða, bæði grið gegn öðrum óvinaþjóðum og létu þau stuðla að blómatíma í menningu þeirra.


Heimildaskrá

Thomsen, Rudi. 1955. Saga mannkyns – Ritröð AB. Samfélög hámenningar í mótun, bls.117-131. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Carter, Ron. 1984. Þróun siðmenningar, bls 49-52. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Ásgeir Hjartarson. 1973. Mannkynssaga – Fornöldin, bls. 107-115. Mál og Menning, Reykjavík.

Rostok, Andrea Katharina og Feldmann, Walter. 1986 Hesturinn og reiðmennskan, bls.291. Bókavirkið ehf.