Hér í þessari grein er ætlun mín að fjalla um þá þróun sem leiddi til sameiningar Þýskalands árið 1871. Það er ætlun mín að segja frá helstu atburðunum sem og mönnunum sem leiddu til sameiningar Þýskalands. Sameininguna má helst þakka einum manni Otto von Bismarck. Það verður þó að taka það inn í myndina að enginn er eyland og Bismarck var ekki einn að störfum. Engu að síður vegur hann þungt í þessu.
Bismarck fæddist árið 1815 í borginni Brandenburg í Schonhausen. Móðir hans var af góðum ættum og faðir hans var landeigandi (júnkari). Bismarck var sendur í skóla í Göttingen á tímabilinu 1834-1839 og nam hann þar lögfræði. Afskipti sín af stjórnmálum hóf hann fyrst árið 1847 er hann var kjörinn á þing fyrir hérað sitt og árið 1855 er hann kjörinn fyrir Prússlands hönd á sambandsþingið í Frankfurt “ og í þessi átta ár lagði hann sig mjög eftir því að kynna sér stjórnmál og þá einkum utanríkismál.”(1977, Bárður Jakobsson,Afburðamenn og örlagavaldar,bls 178). Árið 1859 fékk hann sendiherrastöðu í Péturborg í Rússlandi og þremur árum seinna var hann sendur til Parísar sem sendiherra.
“Sumarið 1862 fékk hann sent undarlegt símskeyti frá Berlín.Inntakið var latneska orðtakið Periculum in mora sem merkir, það er hættulegt að hika og var því bætt við að hann skyldi koma heim þegar. Undir sendinguna skrifaði L´oncle de Maurice Henning en sá sem sendi skeytið var Albert von Roon hernaðarmálaráðherra Prússlands.”(1977,bls 178, Bárður Jakobsson, Afburðamenn og örlagavaldar IV)
Ástæða þess að skeytið var sent var sennilega sú að stjórnarkreppa var í Prússlandi. Vilhjálmur I konungur hafði sett fram frumvarp um endurskipulagningu hersins og naut til þess stuðnings hermálaráðherra síns van Roon.”Skv.þessari tillögu átti að fjölga nýliðum úr 40.000 í 60.000 í ári. Allir nýliðar áttu að gegna þriggja ára herþjónustu og herskyldualdurinn skyldi lækkaður úr 19 árum í 12 og herinn þannig yngdur upp og á annan hátt efldur. Endurskipulagningin myndi krefjast verulegra aukinna útgjalda.”(1977, bls 255, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi). Andstaða þingsins við frumvarpið einkenndist þó ekki af því að vera andstaða við útgjaldaaukninguna sem þetta hefði í för með sér, heldur þingið á móti þeirri valdaaukningu sem konungurinn og herinn undir stjórn junkaranna öðluðust. Vilhjálmur I. Konungur réði ekki við þingið og vantaði sterkan mann. Þó að Vilhjálmur
hefði verið tregur til skipaði hann engu að síður Bismarck forsætisráðherra, einum til tveimur mánuðum eftir heimkomu hans frá París. “Hvort eða hve mikil áhrif á stjórnarstefnu Prússa, Bismarck hefur þá verið farinn að hafa er óvíst en hitt er aftur á móti staðreynd að eftir þetta hélt Bismarck um þjóðarskútu ekki aðeins Prússlands, heldur og allrar Evrópu allt þar til “hafnsögumaðurinn fer frá borði” árið 1890”(1977, bls 178, Bárður Jakobsson,Afburðamenn og örlagavaldar IV.) Bismarck tókst að koma endurskipulagningu hersins á stofn. Þó frumvarpi konungs hefði ekki verið samþykkt tókst Bismarck engu að síður að endurskipuleggja herinn með því að vísa til gats í stjórnarskránni “sem samkvæmt kenningunni var talið myndast ef fjárlögin væru ekki afgreidd á réttum tíma”.´Þegar þannig væri ástatt væri það skylda ríkisins að sjá til þess að rekstur ríkisins gæti gengið með því að innheimta fyrir það skatta þá er heimild væri fyrir´.
Stríðið um Slésvík – Holtsetaland
´Árið 1848 höfðu hinir þýskumælandi íbúar Slésvíkur og Holtsetalands gripið til vopna með stuðningi Prússa og krafist sjálfstæðis frá Danmörku, afleiðing þess varð tveggja ára stríð sem lauk með málamiðlun um óbreytt ástand fyrir milligöngu stórveldanna. Í þessari málamiðlun höfðu Danir meðal annars skuldbundið sig til þess að tengja Slésvík ekki nánari böndum konungsríkinu.´ Það þýddi þó ekki að Danir ætluðu að láta Slésvík í friði og árið 1863 töldu dönsk stjórnvöld sig hafa góða ástæðu til þess að ná yfirráðum yfir Slésvík. Athygli stórveldanna beindist að frelsisstríði Pólverja gegn Rússum og í Prússlandi stóð deilan um endurskipulagningu hersins sem hæst. Dönsk stjórnvöld gáfu þá út sameiginleg stjórnskipunarlög fyrir Danmörku og Slésvík en þessi aðgerð þeirra braut í bága við friðarsamninga sem gerðir voru. Á sama hátt og Danir vildu Slésvík fyrir sig voru margir þjóðernissinnaðir Þjóðverjar sem töldu að Slésvík og Holtsetaland væru þýsk ríki og með því að setja fram sameiginlegu stjórnskipunarlögin höfðu dönsk stjórnvöld fengið Bismarck í hendur þau vopn sem hann þarfnaðist. Bæði gat hann komið fram sem baráttumaður fyrir því að staðið væri við alþjóðasamninga, sem forvígis maður þýskrar þjóðernisstefnu og lægt þannig þær óánægjuraddir sem heyrðust meðal þýskra þjóðernissinna heima fyrir, “sýnt Þjóðverjum innan Prússlands og utan þess að Prússar væru megnugir að gæta hagsmuna þýskumælandi manna gagnvart erlendum þjóðum”(1962, bls 45, Knútur Arngrímsson og Ólafur Hansson, Mannkynssaga handa framhaldsskólum) og Bismarck hafði einnig augastað á hafnarborginni Kiel . Í febrúar 1864 hófu síðan Prússar og Austurríkismenn stríð við Dani sem þvert á trú sína uppgötvuðu að þeir stóðu einir og óstuddir. Austurríkismenn höfðu farið í út í stríðið með Prússum til að sýna Þjóðverjum sig sem forvígismenn þeirra. Einir og óstuddir höfðu Danir enga möguleika á sigri og eftir að innrásarherirnir höfðu brotist í gegn við Dybböl lögðu þeir undir sig allt Jótland. Í friðarsamningum sama ár neyddust Danir til þess að láta af hendi Slésvík og Holtsetaland við þýska sambandið. Prússar fengu yfirráð yfir Slésvík og Austurríkismenn yfirráð yfir Holtsetalandi.
Sjö vikna stríðið 1866
Eftir sigurinn á Dönum kom brátt upp ágreiningur milli Austurríkismanna og Prússa um það hvernig stjórn hertogadæmanna skyldi háttað. Óvíst er hvort Bismarck hafi stuðlað að þessum ágreiningi til þess að stofna til árekstra við Austurríki. “Sennilega hefur hann viljað halda opinni leið til friðsamlegrar lausnar jafnframt því sem hann vann að því að einangra Austurríki frá öðrum þjóðum ef svo færi að vopnuð átök yrðu óumflýjanleg”( 1977, bls 257, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi). Það sem skipti sköpum í þessu ferli var afstaða Napóleons III sem taldi að stríð milli Prússa og Austurríkismanna “yrði langvinnt og myndi greiða fyrir uppstokkun á evrópukortinu sem yrði Frökkum í hag”.( 1977, bls 255, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi) og lofaði velviljuðu hlutleysi Frakka. Fyrir tilstuðlan Napoleons var stofnað til bandalags milli Prússa og Ítala sem áttu að koma hinum fyrrnefndu til hjálpar og hljóta að launum Veneziu ef til stríðs milli Austurríkismanna og Prússa kæmi.. Fyrsti hluti ráðabruggs Bismarcks var að láta Prússneskt herlið leysa Holtsetalands úr höndum Austurríkismanna og yfir til Prússa. Síðan bar hann fram þá tillögu að breytingar yrðu gerðar á þýska sambandinu. Breytingar þessar fólu það með sér að Austurríki yrði rekið úr sambandinu og stofnað væri þýskt ríkisþing kosið í almennum kosningum. Þetta tefldi í tvísýnu forystustöðu Austurríkis í Þýskalandi og braut í bága við hugmyndalega heimsskipan allra ráðamanna. “Rökrétt svar við þessu var stríðsyfirlýsing Austurríkis og myndun þýsks bandalags gegn Prússlandi sem flest hinna smáu og meðalstóru þýsku ríkja gengu í.” (1977, bls 257, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi) Austurríkismenn hófu stríðið í góðri trú á bandalaginu og her sínum sem hafði sýnt sig og sannað í stríðinu við Dani en ekki hafði verið tekið með í reikninginn, áhrif endurskipulagningar prússneska hersins. “Prússneski herinn var vel æfður og vel vopnum búinn, og fluttur til vígstöðvanna í járnbrautarlestum sem fóru um járnbrautarnet er lagt hafði verið með þarfir hersins fyrir augum, enda reyndist hann andstæðingum sínum ofjarl.”( 1977, bls 258, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi) Úrslitaorrustan í stríðinu var við Sadova(Königgräts) í Bæheimi. Hálf milljón manna börðust í hvoru liði og var þetta mesta orrusta síns tíma. Stríðinu lauk eftir 7 vikur og fóru friðarsamningarnir fram í Prag. Í kjölfar stríðsins og eins og friðarsamningarnir greindu á um var þýska sambandið frá 1815 leyst upp og Austurríki bægt með því frá afskiptum við þýsku smáríkin. Og í stað þýska sambandsins var stofnað Norður-Þýska sambandið undir forystu Prússlands og skyldi þing sambandsins vera í Berlín og var Bismarck kanslari þess. Ýmis smáríki voru innlimuð í Prússland svo sem Hannover og Hessen-Kassel, Nassau og Frankfurt am Main auk þess sem stjórn yfirráð Slésvíkur og Holtsetalands féllu í hlut Prússlands. Einnig fengu Ítalir í sinn hlut Veneziu eins og samið hafði verið um. Núna höfðu Norður- Þýsku ríkin verið sameinuð með suður landamæri við ánna Main og Suður-Þýsku ríkin urðu að ganga í varnarbandalag við Prússland. Norður þýsku ríkin höfðu ekki verið sameinum með ræðum og samþykktum heldur með “járni og blóði” “Bismarck stóð með pálmann í höndunum. En hann lét það ekki stíga sér til höfuðs,gagnstætt því sem segja má um marga aðra valdamenn í sögu mannkyns” (1977, bls 258, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi) Hann var andsnúinn því að strá salti í sár Austurríkismanna og vildi vingast við hinn sigraða óvin og koma þannig á stöðugleika í Mið-Evrópu.
Prússnesk-Austurríska stríðinu eða 7 vikna stríðinu eins og það er stundum nefnt var lokið og ollu lyktir þess mikilli breytingu á valdahlutföllum í Evrópu. Austurríki sem hafði verið mikið stórveldi hafði beðið hnekki og glatað stöðu sinni innan þýska sambandsins einnig tók nokkurs óróa að gæta meðal Frakka. Frakkar litu á þetta nýja sterka miðstjórnarvald sem Prússland var orðið sem ógnun við öryggi í landinu og ögrun við hefðbundið forystuhlutverk þess meðal stórveldanna á meginlandinu. Einkum kom þetta illa við Napoleon sem byggði vinsældir sínar að mestu leyti á því að honum tækist að halda heiðri Frakklands á lofti. Heiður Frakka hafði beðið nokkra hnekki við sameiningu Ítalíu og eitthver Mexíkó-ævintýri sem lagt hafði verið út í og endað illa. Auk þess hafði Napóleon lofað velviljuðu hlutleysi sínu í þeirri trú um að stríð Prússa og Austurríkismanna yrði langsótt og myndi vænka hag Frakka. Annað kom í ljós og til þess að leysa þau pólitísku vandræði sem voru heima fyrir afréð Napoleon að beiða Bismarck um stuðning við óskir Frakka um umbun í formi aukins landrýmis í einhverri mynd og nefndi hann þar helst héruð í Rínarlöndunum, Belgíu og Luxemborg. Napoleon náði litlum árangri í þessum efnum þar er hugmyndir hans mættu nokkurri andstöðu meðal stórveldanna og fékk Napoleon á sig það orð að vera “óáreiðanlegur og ágengur”.
Árið 1868 var “gerræðislegri og spilltri” stjórn Ísabellu Spánardrottningar steypt í byltingu. Spánverjar urðu nú að velja sér nýjan konung og fyrir valinu varð þýskur prins Leopold af Hohenzollern-Sigmaringen, kaþólskri hliðarætt prússnesku konungsættarinnar. Lengi vel voru vangaveltur um það að Bismarck hefði staðið á bak við konungsvalið með mútum og spottatogi en þær vangaveltur eru ekkert annað en uppspuni. Hitt er aftur á móti ljóst mál að Bismarck studdi hugmyndina því að spænskur konungur með þýskt blóð myndi hafa veruleg áhrif á hernaðarstöðu Þýskalands gagnvart Frakklandi. Ætlunin var að stjórnir Evrópulanda létu þetta óskipt og létu spænsku stjórnina og Hohenzollernættina ráða þessu. Þá kröfðust Frakkar þess að Leopold hafnaði konungstigninni og Vilhjálmur I beytti áhrifum sínum á þá leið. Vilhjálmur studdi friðsamlega lausn en eigi gat prinsinn tjáð sig neitt um kröfur Frakka því hann var staddur í fjallgöngu í Ölpunum. Engu að síður var konungstitlinum hafnað og var það faðir Leopolds sem hafnaði konungstitli fyrir hönd sonar síns þann 12.júlí. Endalok málsins voru þær að Frakkar uxu í áliti og Prússar biðu álitshnekki.
Frakkar fengu Bismarck en í hendur ný vopn þegar Frakkar ákváðu að ganga á Vilhjálm I og krefjast þess að Vilhjálmur I lýsti því yfir að hann leyfði aldrei neinum af Hohenzollern-ættinni að setjast að völdum á Spáni. Til að krefjast þessa sendi Napóleon, Vincent de Benedetti til heilsulindanna í Ems þar sem Vilhjálmur I dvaldist. Krafa þessi var óaðgengileg og hafnaði Vilhjálmur henni þar er hún var ekkert annað en krafa um pólitíska uppgjöf. Vilhjálmur gerði grein fyrir samtali sínu við Benedetti í símskeyti til Bismarcks. Þegar Bismarck fékk skeytið sat hann að snæðingi með van Roon, hermálaráðherra og von Moltke hershöfðingja. Það tók Bismarck ekki langan tíma að átta sig á því tækifæri sem hann stóð frammi fyrir og það tækifæri greip hann. Hann umsamdi skeyti konungs á stundinni og sendi til birtingar í því formi. Van Roon og von Moltke voru svo hrifnir af breytingunni að þeir samþykktu hana. Tilgangurinn með breytingu skeytisins eða öllu heldur tækifærið sem Bismarck fékk var að gera Frökkum heitt í hamsi og fá þá til þess að lýsa yfir stríði við Þýskaland eða Prússa. Frakkar gengu í gildruna og lýstu yfir stríði við Þýskaland. Það var fyrst og fremst stolt Frakka og heiður sem ollu því að þeir lýstu yfir stríði. franska stjórnin hafði hvorki beðið eftir skýrslu frá Benedetti né opinberri yfirlýsingu frá Vilhjálmi konungi. Stoltið hljóp með þá í gönur og helst var það “fjálgleg ræða” Leboufs hermálaráðherra um hernaðarstyrk franska hersins sem vó veigamikið í þeirri ákvörðun.
Þýsk-franska stríðið 1870-71
Það kom brátt í ljós hve stórt franska stjórnin hafði hlaupið á sig í þessu máli. Franski herinn var engann veginn undir það búinn að leggja í stríð það er stjórnin hafði sent hann til. Einnig stóðu Frakkar einir og óstuddir vegna þess að stjórninni hafði farist að tryggja sér stuðning annara ríkja. Austurríki og Ítalía lýstu bæði yfir hlutleysi sínu. Austurríkismenn vegna íhlutunar Frakka á Ítalíu árið 1859 og Ítalir vegna veru fransk herliðs í Róm páfa til verndar sem hafði hindrað sameiningu Ítalíu. Bismarck hafði aftur á móti tryggt sér “velvilja” Rússa með því að aðstoða þá í baráttunni við pólska uppreisnarmenn auk þess gaf hann vilyrði sitt fyrir endurskoðun friðarsamningsins í París 1856 þeim er bundu endi á Krím-stríðið. Bismarck tókst einnig að koma í veg fyrir stuðning Breta við Frakka með því að greina opinberlega frá fyrirætlunum Napoleons um aðför að sjálfstæði Belgíu. Frakkland voru nú orðið friðarspillir Evrópu.
Hernaðaðarlegur viðbúnaður Frakka hafði tekið nokkrum framförum, kominn var fram afturhlaðni riffillinn (chassepot) sem tók fram kveikjupinnabyssu Prússa, og einnig ný tegund fjölskotabyssu (mitraileuse). Auk þessara nýju vopna lögðu Frakkar síðan traust sitt á gamalkunna hreysti franskra hermanna. Gegn þessum nýju vopnum Frakka tefldu Prússar fram afturhlöðnu Kruppfallbyssunum sem gátu sundrað fótgönguliði á löngu færi.
Skipulag Þýska hersins undir stjórn hernaðarsnillingsins von Moltke var hins vegar mun betra en skipulag franska hersins. “Um Moltke hefur verið sagt að hann hefði gert hernað að vísindum og prússneska herráðið að vísindafélagi”( 1977, bls 257, Lars-Arne Norborg, Saga mannkyns ritröð AB 11.bindi). Þýski herinn var mjög vel þjálfaður og naut þess að vera undir stjórn framtakssams og heilbrigðs manns ólíkt franska hernum er var undir stjórn hins lasburða og framtakslausa Napoleons.
Í fyrstu árekstrunum biðu Þjóðverjar lægri hlut 2. Ágúst var lítill herflokkur rekinn frá Saarbrucken sem stendur við landamæri Frakklands og Þýskalands. Þessi orrusta var þó fremur lítil og fór nú að halla á ógæfuhliðina hjá Frökkum og í stórorrustunum við Weissenburg,4.ágúst,Wörth, 6.ágúst og Spichern, 6. Ágúst unnu Þjóðverjar sigra á frönskum her undir stjórn Macmahon marskálks. Macmahon var í kjölfarið skipað að hörfa til borgarinnar Châlons. Bazaine hershöfðingi sem stjórnaði öllu frönsku herliði austur af borginni Metz var skipað að halda kyrru fyrir. Metz mætti ekki falla í hendur óvinanna. Þessar skipanir ollu því hins vegar að franski herinn var tvískiptur sem eftir þetta var ómögulegt að sameinast og missti alla framtakssemi. 12.ágúst lét Napoleon stjórn hersins í hendur Bazaine hershöfðingja sem var illa á sig staddur eftir ósigrana við Vionville,15 águst og Gravelotte, 18 ágúst. og hafði hörfað inn í Metz. Þar sátu tveir þýskir herir um borgina. Macmahon marskálki var þá skipað að frelsa Metz. 30 ágúst kom síðan þýski herinn Macmahon í opna skjöldu og sigraði hann við Beaumont þaðan sem hann hörfaði til bæjarins Sedan.
Orrustan við Sedan var sú sem réði úrslitum í stríðinu, þó svo hún byndi ekki enda á það. Prússneski herinn sem taldi 200.000 manns og var undir stjórn von Moltke barðist þar við 120.000 manna franskan her undir stjórn Macmahon marskálks. Orrustan hófst að morgni til 1.september árið 1870. Macmahon særðist illa í orrustunni um kl.07.00 og einni og hálfri klukkustund síðar var stjórn hersins fengin í hendur de Wimpffen. Kl.16.15 tók síðan við Napoleon sem var nýkominn til Sedan, við stjórn hersins. Napoleon gafst upp og skipaði svo fyrir að hvíta fánanum væri flaggað. Samið var um uppgjöfina aðfaranótt 2.septembers og 2.september gafst Napóleon og 83.000 manna lið upp fyrir Prússum. Samkvæmt þessu virðast þá um 40.000 manns hafa fallið úr röðum Frakka en mannfall úr röðum Prússa var eingöngu 9000 manns.
Eftir að fréttir um ósigurinn bárust til Parísar var gerð uppreisn í borginni þann 4. September. Byltin þessi var án blóðsúthellinga. Lýst var yfir stofnun lýðveldis og ný stjórn mynduð til að stýra vörnum landsins.Evgenía drottning flúði til Bretlands og Napóleon fór þangað ári síðar. Maður nokkur að nafni Leon Gambetta flúði frá París ásamt aðstoðarmanni sínum í loftbelgi og stofnaði nokkurskonar höfuðborg í borginni Tours þar sem hann réð yfir 36 herdeildum. Þessi her Gambetta var ekki stórtækur og var hann hrakinn til Sviss þar sem hann var afvopnaður og Gambetta handtekinn.
Bazaine gafst upp ásamt 173.000 manna her sínum, 27. oktober og Parísarbúar gáfust upp eftir fjögurra mánaða umsátur þann 19.janúar 1871 en formleg hertaka Parísar átti sér stað 28.janúar og í kjölfarið fylgdi 3 vikna vopnahlé . Þriðja franska lýðveldið var stofnað í Bordeux 13.febrúar og var Adolph Thiers kjörinn forseti þess. Parísarbúar virðast engu að síður hafa verið andsnúnir friðarsamningunum og í mars 1871 gerðu Parísarbúaruppreisn og stofnuðu nýja stjórn, Parísarkommúnuna. Uppreisnin var síðan barin niður í maí sama ár.
Í friðarsamningunum öðluðust Þjóðverjar yfir héruðunum Elsass og Lotringen. Bismarck var andsnúinn því að taka héruðin en mikill þrýstingur heima fyrir olli því að hann lét undan. Og kannski vegna þess að héruðin voru rík af járni og öðrum málmum sem gátu komi þýskum iðnaði í blóma til góða. Í héruðunum bjuggu reyndar þýskumælandi fólk en það leit á sig sem Frakka þar eð það hafði gengið í gegnum súrt og sætt með þeim allt frá 17.öld. Einnig voru Frakkar skyldaðir til að greiða 5 milljarða franka í stríðsskaðabætur.
Sameiningin.
Sameining Þýskalands átti sér stað 18.janúar meðan að stríðið stóð ennþá. 22 furstar, þar af 3 konungar sóru Prússakonungi hollustueið sem þýskum keisara. Ágreiningur kom upp milli Vilhjálms og Bismarcks vegna þess að Vilhjálmur tók ekki í mál annað en að vera kjörinn keisari yfir Prússlandi. Hann gaf þó undan að lokum en var svo reiður Bismarck að þegar hann steig niður af krýningarpallinum að hann leit ekki við honum. Þýskaland hafði verið sameinað. Hið nýja þýska ríki var samt ekkert nema norðurþýska sambandið með landamæri þar sem áður höfðu verið landamæri suður-þýsku ríkjanna. Þýska ríkið taldi nú 25 þýsk ríki. 4 konungsríki,6 stórhertogadæmi, 5 hertogadæmi, 7 furstadæmi og 3 borgríki. Þýska ríkið stóð frá 1871 til 1918 er fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Eftir lát Vilhjálms I. tók sonur hans Friðrik 3. Sonur hans við en hann ríkti stutt og við tók Vilhjálmur 2. Sonur Friðriks. Vilhjálmur hafði ekki sömu stjórnunareiginleika og afi sinn og skeytti lítt um það að viðhalda friði milli stórveldanna og má segja á einn eða annan veg að hann hafi átt stóran þátt í orsök fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hér læt ég hins vegar frásögn minni af sameiningu Þýskalands lokið.




Heimildaskrá

www.encyclopedia.com

Encarta Encyclopedia 97

Bárður Jakobsson,1977, Afburðamenn og örlagavaldar, bls 177-187, Ægisútgáfan, Reykjavík.

Lars-Arne Norborg, 1987, Saga mannkyns Ritröð AB bls 252-262. , Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Knútur Arngrímsson og Ólafur Hansson, 1962, Mannkynssaga handa framhaldsskólum-nýja öldin frá 1789, bls 43-46, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.