Endalok Kalda stríðsins í Reykjavík (aftur???) Á liðnum dögum hefur mikið verið um það rætt í heimspressunni, sem og í fjölmiðlum hér heima að mikið tímamótasamkomulag hafi náðst á fundi utanríkisráðherra NATO hér á dögunum. Endalokum kalda stríðsins hefur verið lýst yfir á forsíðum margra virtustu blaða heims og fréttamenn (og reyndar pólitíkusarnir sjálfir) kalla samkomulagið milli Nató og Rússlands mikil tímamót í sögunni sem ætíð verði tengd nafni Reykjavíkur. Ó en hver gríðarlegur heiður fyrir vora litlu, en yfirmáta þjóðrembingslegu þjóð :)

Það sem er skemmtilegt við þetta allt saman er að þetta er í annað sinn sem kalda stríðið líður undir lok í Reykjavík!

Árið 1986 var kalda stríðið farið að vera frekar þreytt fyrirbæri. Gullaldarár Sovétríkjanna voru löngu liðin og yfirmáta langur og dýr stríðsrekstur í Afghanistan hafði dregið tennurnar úr Sovésku hervélinni svo um munaði. Þau ár sem Leonid Brezhnev hnyklaði valdsmannslegar augabrýr sínar framan í heiminn höfðu skilið eftir sig stöðnun og þrot hjá kerfi sem mátti muna fífil sinn fegurri.

Sú slökun sem hafist hafði á valdatíma Nixons í Hvíta Húsinu með viðurkenningu USA á Rauða Kína og heimsóknum Nixons til Beijing og Moskvu hafði leitt af sér ójafna stöðu stórveldanna þar sem USA var nú að vissu leyti stjórnmálalega feti framar en USSR. Erfingjar Déténte tóku líka ólíka stefnu í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

USSR fékk Brezhnev, kommúnista af gamla skólanum, harðlínumann sem lítinn áhuga hafði á umbótum á efnahagskerfinu, sem var orðið verulega þreytt í kjölfar viðreisnarstefnu Stalíns og ónógra lagfæringa afstalíniseringarinnar. Aðaláhersla var lögð á viðhald vopnakapphlaupsins, sem þrátt fyrir SALT samningana og alla slökunina hélt áfram að skipa forgangssætið í ríkisútgjöldum Sovétríkjanna.

USA fékk demókratann Jimmy Carter (því hver telur Gerald Ford með?) sem lagði mikla áherslu á uppbyggingu í efnahagsmálum og lagði grunninn að því góðæri sem Bandaríkjamenn bjuggu við á níunda og tíunda áratugnum. Þrátt fyrir klúður í utanríkispólitík tókst Carter að halda góðu sambandi við bandamenn sína, ólíkt Sovétríkjunum sem sönnuðu enn einu sinni á sig tuddaskapinn með því að ráðast inn í Afghanistan að “beiðni” sósíalistastjórnarinnar þar.

Þegar þeir félagar Reagan og Gorbachov settust að samningaborðinu í Höfða 1986 var því töluvert öðruvísi um að litast í herbúðum þeirra en tíu til fimmtán árum fyrr. Reagan kom til fundarins sem þrautreyndur forseti á öðru kjörtímabili styrktur af efnahagsbata sem gerði honum kleift að eyða miklum fjárhæðum í geimvarnaráætlun gegn kjarnorkueldflaugum, eftirlætisverkefni repúblíkana um þær mundir og þeirra stærsta tromp í vopnakapphlaupinu. Gorbachov hafði ekkert þessara spila á hendi. Hann var búinn að vera rétt um ár í embætti aðalritara og hafði ekki sama takmarkalausa stuðning kerfisins eins og fyrirennarar hans. Hann tók við embætti eftir eina mestu fíaskósögu Kremolar þar sem tveir aðalritarar hrukku upp af í embætti innan árs. Hann tók við vafasömu búi sem stóð höllum fæti efnahagslega og þurfti að gangast undir meiriháttar umbætur ef takast átti að bjarga þjóðarskútunni. Þannig að þótt Höfðafundurinn hafi átt í orði kveðnu að vera fundur þar sem leiðtogar stórveldanna hittust jafnfætist þá var langt því frá að svo væri.

Það þarf engum blöðum að fletta um það sem gerðist í Höfða 1986. Kalda stríðið var laggt undir á stærsta pókerborði sögunnar og Ronald Reagan lagði út mesta blöff sem sést hefur og hélt sig fast við það í krafti stöðunnar. Gorbachov reyndi mikið að fá Bandaríkjamenn til að falla frá geimvarnaráætluninni því að hann vissi sem víst að Sovétríkin voru ekki tilbúin, fjárhagslega eða tæknilega til að fara út í nýtt geimkapphlaup. Þó að á endanum hafi leiðtogarnir komið pappírslausir út um aðaldyr Höfða (sem voru búnar að loga lokaðar á sjónvarpsskjám heimsbyggðarinnar þessa tvo daga) og fundurinn verið lýstur flopp af stjórnmálaskýrendum er nú almennt viðurkennt að þarna hafi tímamótaatburður átt sér stað og staðfesta Reagans hafi átt stóran þátt í því að Sovétríkin létu leiðast að samningaborðinu í Washington nokkru síðar til að undirrita samning um fækkun kjarnaodda. Sá samningur var USA mikið í vil því þeir létu á móti hina margfrægu stjörnustríðsáætlun sem í ruan hafði aldrei verið möguleg á þessum tíma, heldur bara gabb.

Í kjölfar þessara samninga og þeirra óvinsælu efnahagsumbóta sem Gorbachov barðist fyrir á heimavelli veiktist staða hans mjög innan sovétkerfisins, sem alltaf hafði verið byggt á valdaklíkum. Allir vita svo hvernig fór þegar harðlínumenn innan kremlar reyndu að steypa Gorbachov og urðu til þess að Sovétríkin leystust upp 1991, aðeins fimm árum eftir Höfðafundinn. (einhvern vegin held ég samt að Boris Jeltsín hafi ekki verið akkúrat það sem þeir höfðu í huga sem eftirmann Gorba gamla :)

Það horfir einkennilega fyrir mér að ennþá sé verið að tala um kalda stríðið 11 árum eftir að annar stríðsaðilinn hætti að vera til. Vissulega má færa að því rök að Rússland sé arftaki Sovétríkjanna þó ekki sé það hugmyndafræðilega, þó ekki væri nema vegna kjarnorkuheraflans sem Rússar ráða nú að mestu yfir ásamt Úkraínumönnum. En Rússland í núverandi mynd líkist í raun á margan hátt fremur keisaraveldinu gamla hvað varðar utanríkispólitík heldur en Sovétríkjunum. Sovétríkin eru dauð. Endalok Kalda stríðsins urðu árið 1991. Á því leikur fyrir mér enginn vafi.

Eftir að kalda stríðinu lauk hefur Nató átt í ákveðinni tilvistarkreppu. Bandalagið var jú stofnað sem varnarbandalag vestrænna ríkja og var beinlínis beint gegn Sovétríkjunum. Án sovétríkjanna hefði ekki verið neitt Nató. Það má því segja að Nató hafi misst allar forsendur fyrir tilvist sinni þegar USSR lagði upp laupana og allt í einu varð ósköp friðvænlegt í heiminum. Nató hefur eytt síðustu tú árum í að endurskipuleggja starf sitt, að reyna að finna sér ný verkefni og hefur hreinlega þurft að réttlæta tilvist sína í nýrri heimsmynd. Þetta hefur bandalagið gert með ýmsum umdeildum aðgerðum eins og t.d. stækkun í austur og lofthernaðinum í Júgoslavíu. Ýmsir skandalar hafa skakið bandalagið (s.s. njósnir hátt settra hershöfðingja innan þess) og það hefur á köflum verið í mikilli vörn gegn þeim er segja það vera uppi dagaðan risa frá fornri tíð. Evrópuherinn og Rapid Response sveitir Sameinuðu þjóðanna hafa sýnd fram á að alþjóðasamfélagið er að mörgu leyti betur í stakk búið nú til að taka á friðargæsluvandamálum en oft áður í sögunni og segja má að Balkanskagaófriðurinn hafi verið það sem hélt lífi í bandalaginu þar sem því tókst að sýna fram á að það getur enn verið til einhvers gagns fyrir þjóðir Evrópu. Þó var sá galli á að loftárásirnar sýndu enn betur hve háð Nató er duttlungum Bandaríkjamanna um áætlanagerð og ákvarðanatöku.

Eitt af því sem Nató hefur tekið sér fyrir hendur til að endurskapa sig í nýrri mynd alsherjarbandalags friðar og samstöðu í Evrópu er stækkun bandalagsins í austur. Pólland, Ungverjaland og Tékkland eru að mig minnir þegar orðnir aðilar að bandalaginu og Nató hefur mikinn áhuga á því að bjóða Eystrasaltslöndunum aðild. Ekki er ósennilegt að í ljósi hins nýja samkomulags við Rússa verði það gert á fundi Nato í Prag í sumar.

Það er ekkert undarlegt að Rússum sé illa við að þessi gömlu og grónu “austantjaldsríki” séu að ganga í bandalagið. Utanríkis- og varnarstefna Sovétríkjanna sálugu gekk í fimmtíu ár út á það að hafa röð bufferríkja, leppríkja, á milli Sovétríkjanna og kapítalistanna. Það er erfitt fyrir Rússa að horfa nú upp á þessi sömu ríki sem áður tryggðu öryggi Rússlands flykkjast inn í Nató. Rússar líta enn svo á (og hér komum við að því sem ég talaði um áðan með keisaraveldið) að ríki austur evrópu séu hluti af þeirra áhrifasvæði. Járntjaldið lifir enn í rússnesku þjóðarsálinni og það er meira en að segja það fyrir Rússa að hleypa Nató upp í landsteinana.

Nú hafa margir haldið því fram á þessum undangengnu tíu árum, ég sjálfur meðal annarra, að besta lausnin á tilvistarvanda Nató, stórveldistremma Rússa og á miklu af öryggisvandamálum Evrópu sé að Rússland verði hluti af Nató á einhvern hátt, fái rödd innan bandalagsins.

Andstæðingar þessarar hugmyndar hengja sig mjög á þá röksemd að vegna stöðu Bandaríkjanna innan Nató sé það rússum ómögulegt að vinna með bandalaginu. Það er vissulega rétt að Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að USA og USSR vinni saman á jafnréttisgrundvelli innan bandalagsins. Til þess er hlutverk Bandaríkjamanna í Nató allt og sterkt og mikilvægt. Rússar gætu heldur ekki sætt sig við að vera undirmenn Bandaríkjamanna, eins og Evrópuþjóðirnar eru í raun og veru þó að annað eigi að heita. Við skulum ekki velkjast í neinum vafa um að það eru Bandaríkjamenn sem eru hryggsúlan í Nató og munu alltaf verða. Það hafa tvær heimsstyrjaldir sannað.

Á hinn bóginn er mögulegt og að mínu mati nauðsynlegt fyrir Rússa að geta sagt sína skoðun á málum sem varða öryggi í Evrópu innan þessa valdamikla bandalags og orðið þannig það mótvægi sem bandalagið þarfnast að mínu mati í mikið breyttum heimi. Þap er ljóst að slíkt samstarf mun ekki ganga snuðrulaust fyrir sig :) en mikið er til vinnandi ef það verður til þess að samvinna næst á einhverjum stigum utanríkis- og varnarmála milli Bandaríkjanna og Rússlands. Það er ljóst að viljinn er fyrir hendi hjá báðum aðilum.

Ég er því algerlega ósammála því þegar fjölmiðlar halda því fram að samkomulagið um Nató-Rússlandsráðið marki endalok Kalda stríðsins. Samkomulagið markar miklu frekar upphaf nýrra möguleika í varnarsamstarfi og öryggismálum í Evrópu og gefur Nató færi á að verða aftur leiðandi afl í öryggismálum álfunnar eftir tíu ára fát í myrkrinu. Kalda stríðið er löngu búið. Við þurfum að hætta að hengja okkur í söguna og einbeita okkur að því að skapa hana.


obsidian