Íran á okkar tímum, III: Frá Mossadeq til Khomeini I. hluta má finna hér (linkur)
II. hluta má finna hér (linkur)

Mossadeq stígur á sjónarsviðið

Fyrstu árin eftir seinni heimsstyrjöldina eru talsverð ólguár, þingið er óstöðugt og stjórnarskipti eru ör.
Árið 1951 er þó ljós í myrkrinu þegar Mohammed Mossadeq er kjörinn í embætti forsætisráðherra, en hann nýtur mikilla vinsælda og er á vissan hátt sameiningartákn, en hann býður Bretum birginn skömmu eftir embættistöku sína þegar hann boðar þjóðnýtingu olíulindanna, sem eru í eigu Anglo-Iranian Oil Company.

Á þessum tíma er Íran fjórði stærsti olíuframleiðandi heims og sér Evrópuríkjum fyrir 90% af olíu þeirra.
Þetta er í hrópandi mótsögn við þá staðreynd að á sama tíma er Íran eitt fátækasta land jarðar.

Íranska ríkið fékk einungis 16% olíugróðans á meðan að í öðrum löndum tíðkaðist 50/50 hlutfall gróðadreifingar. Íranska ríkisstjórnin hafði lengi reynt að semja við AIOC um að fá stærri hlut en allt kom fyrir ekki. Stuðningur þjóðarinnar við Mossadeq þegar hann reynir að þjóðnýta olíulindirnar er því vel skiljanlegur.

Bretar niðurlægðir

Mohammed Mossadeq, á fundi Öryggisráðs SÞ, okt. 1951,
Olíulindir Írans, rétt eins og moldin, vötnin og fjöllin í Íran, eru eign írönsku þjóðarinnar.
Einungis Íranar hafa rétt til þess að ákveða hvort eigi að nýta þessa olíu, með hvaða hætti og af hverjum.

Um haustið 1951 ákveða Bretar að taka málið fyrir hjá Öryggisráði SÞ og hugsa sér gott til glóðarinnar, þar séu þeir á heimavelli og Mossadeq sé í engan stakk búinn til að fara með málsvörn Írana og muni verða sér og sinni þjóð til skammar.

Þessi áætlun springur hins vegar í andlitið á þeim, en Mossadeq er doktor í alþjóðalögum og framúrskarandi ræðumaður og hljóta Bretar mikla skömm af málinu.

Mossadeq hrakinn frá völdum

Eftir þennan niðurlægjandi atburð hefja Bretar markvissar tilraunir til að bola Mossadeq frá völdum og beita ýmsum brögðum til þess.
Þeir fá Mohammed Pahlavi, hinn unga og óreynda arftaka Reza Khan, í lið með sér og breska leyniþjónustan MI6 óskar eftir aðstoð CIA en hlýtur ekki góðan hljómgrunn, þáverandi bandaríkjaforseti Harry Truman er ekki mikið gefinn fyrir svona mál.
Þrátt fyrir höfnun Truman þá ná þeir að fá Kermit Roosevelt (barnabarn Teddy Roosevelt), útsendara CIA, til liðs við sig og hjálpar hann þeim að skipuleggja valdaránstilraun árið 1952.

Þar höfðu þeir ráðið nokkra háttsetta foringja innan íranska hersins sem voru hliðhollir Pahlavi til að steypa Mossadeq af stóli, en tilraunin misheppnast og Pahlavi flýr land.
Í janúar 1953 tekur svo Dwight Eisenhower við forsetaembættinu í Bandaríkjunum og menn CIA ásamt Dulles-bræðrum (Allen Dulles, yfirmaður CIA, og John Foster Dulles, utanríkisráðherra) sannfæra hann um að Mossadeq sé í nánu sambandi við sovéska embættismenn og ætli sér að koma á fót kommúnistaríkisstjórn.
Þetta gera þeir með fölsuðum skjölum frá MI6.

Svo fer að í ágúst 1953 setja menn á launaskrá CIA á svið mótmæli í höfuðborg Íran, Teheran, eftir að lykilmönnum á þingi, í hernum og ýmsum öðrum embættisstöðum hefur verið mútað og fréttaveitum hefur verið borgað fyrir að birta rógburð um Mossadeq.
Áætlun CIA gengur eins og í sögu og Mossadeq flýr land eftir fjölmenn mótmæli.
Pahlavi tekur sér nú sess sem valdamesti maður landsins og þingið er gert nánast valdalaust.

SAVAK, sukk og strengjabrúður

Á næstu áratugum sannar Pahlavi sig sem strengjabrúðu Breta og Bandaríkjamanna.
AIOC heldur kverkataki sínu á olíulindum landsins og Pahlavi sýnir kommúnistum enga miskunn. Íran viðurkennir sjálfstæði Ísrael.
Auk þessa sýnir hann af sér sama dramb og konungarnir á 19. öld, t.d. heldur hann 1971 hátíð til að fagna 2500 ára afmæli Persaveldis og býður frægðarfólki hvaðan að úr heiminum og sparar ekkert til.
Kostnaður við þessa veislu telur 300 milljónir dala, íranska þjóðin er jafn blönk eftir.

Óvinsældir Pahlavi aukast fljótlega eftir valdaránið 1953 og CIA-menn fara að óttast um framtíðina. Þeir koma því á fót leynilögreglunni alræmdu SAVAK, sem átti eftir að hrella og pynta þúsundir í stjórnartíð Pahlavi og verða heimsfræg fyrir hrottaskap gagnvart hverjum þeim sem þeir kölluðu óhliðholla keisaranum.
Þannig var á árunum 1953-1979, þegar Pahlavi var óskabarn Vesturlandabúa, ekkert pólitískt frelsi, kúgun, ofsóknir og misbeiting valds sem einkenndu þessi ár.

Þó var ekki allt illt sem Pahlavi gerði. Árið 1963 kom hann hinni svokölluðu Hvítu byltingu í gang, en hún var ekki bylting í sjálfu sér heldur aðeins nokkur verkefni á vegum stjórnvalda sem leituðust við að nútímavæða íranska þjóðfélagið.
Þar bar mest á endurskipulagningu landeigna en einnig endurbættu heilbrigðiskerfi og auknum kvenréttindum.
Í fyrstu nutu þessar umbætur stuðnings þjóðarinnar en fljótlega kom í ljós að „endurskipulagning landeigna“ fól í sér grófa frændhygli embættismanna og keisara.

Bylting, enn einu sinni

Einn af helstu gagrýnendum Pahlavi var trúarlegi leiðtoginn Ayatollah Khomeini, sem sjía-múslimar kölluðu Imam, en hann hafði verið dæmdur í útlegð fyrir ummæli sín.
Hann heldur þó uppi öflugri stjórarandstöðuhreyfingu og er ritum hans smyglað til stuðningsmanna í Íran.

Það er svo ekki fyrr en árið 1978, ári eftir að sonur Ayatollah Khomeini er myrtur af SAVAK, að það sýður upp úr og gríðarlega fjölmenn mótmæli brjótast út.
Mótmælin eru svo fjölmenn að hermenn neita skipunum um að beina vopnum sínum að þeim og snúast frekar gegn yfirmönnum sínum.
Hvarvetna í borgum Írans má sjá myndir af Khomeini, skilaboðin eru skýr: Pahlavi burt, Khomeini inn.

Þessi bylting kom Bandaríkjamönnum algjörlega í opna skjöldu og mistókust allar tilraunir þeirra til að halda Pahlavi við völd.
Það gerist 16. janúar, 1979, að Pahlavi flýr land og Khomeini tekur við sem leiðtogi landsins, klerkaræði er komið á með trúna sem miðpunkt í allri opinberri starfsemi og Bandaríkin eru nefnd Shaytan-e Bozorg, Hinn Mikli Satan.
Íslamskt lýðveldi er stofnað.

Handan landamæranna í vestri er á sama tíma umdeildur leiðtogi að rísa sem á eftir að verða góðkunningi okkar, nefnilega Saddam Hussein, og er hann að mörgu leyti algjör andstæða Khomeini.
Eins og við mátti búast verður samband þeirra ekki eintóm sæla og verður fjallað lauslega um það í næstu og síðustu grein í þessari röð.

Mynd: Ansi illileg teikning af Khomeini prýðir forsíðu Time 1979, klárlega ekki „okkar maður".
Romani ite domum!