Íran á okkar tímum, II: Stórveldi togast á I. hluta má finna hér (linkur)

Barist um olíu

Við uppgötvun olíu magnaðist togstreita Rússa og Breta á ný um yfirráð yfir svæðinu, en eins og áður segir lauk borgarastyrjöldinni 1911 með sigri stjórnarskrársinna.
Þingið kom saman á ný en brösuglega gekk að koma hlutum í verk, sérstaklega vegna tregðu keisarans til að vinna með þinginu. Þolinmæði stórveldanna var ekki mikil, nú var hver olíulindin á eftir annarri uppgötvuð, og í október 1911 senda Bretar herdeildir sínar til suðurhluta Persíu. Rússar svara í sömu mynt, norðan frá.
Majli-þingið mótmælir en fyrir lok ársins er það uppleyst fyrir þrýsting stórveldanna.

Hér er kort sem sýnir í grófum dráttum áhrifasvæði Breta og Rússa við upphaf 20. aldar.

Þar með lauk stuttu en frjóu tímabili þingræðis í landinu.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin brýst svo út 1914 hernema bæði Rússar og Bretar landið en eftir Októberbyltinguna í Rússlandi draga Rússar sig að mestu úr landinu og lýkur þætti þeirra þar með að mestu.
Eftir það hafa Bretar bæði tögl og hagldir í landinu og stjórna bak við tjöldin. Þó misheppnast þeim árið 1919 að gera Persíu að leppríki sínu, svo að eftir fyrri heimsstyrjöldina er Qajar-ættin enn við lýði, þó hún sé í dauðaslitrunum.

Athyglisvert er, með tilliti til næstu áratuga, að skoða aðgerðir Þjóðverja á þessum árum til að auka áhrif sín á svæðinu. Þeir voru nefnilega á þessum árum að leggja járnbraut sem tengdi Berlín við Bagdad og voru að kaupa allar þær olíulindir á svæðinu sem þeir komust í. Þetta átti vafalaust sinn þátt í að útskýra fúsleika Breta til að hernema landið.

Maður fólksins rís til valda

Árið 1921 kemst metnaðarfullur herforingi að nafni Reza Khan Pahlavi til valda með því að þvinga hina valdalitlu og veikburða Qajar-ætt frá völdum.
Reza Khan og félagar hans hlutu stuðning Breta í valdaráni sínu, en Bretar óttuðust um olíuhagsmuni sína á svæðinu, fyrst og fremst óttuðust þeir að Bolsévikarnir næðu yfirráðum yfir olíulindunum.

Þannig má í vissum skilningi segja að þarna hafi kommagrýlan fyrst litið dagsins ljós og þessi stjórnarskipti verið viss fyrirboði fyrir það sem átti eftir að koma í utanríkisstefnu Bandaríkjanna í Kalda Stríðinu (sbr. Gvatemala 1954, Dóminíska Lýðveldið 1961, Chile 1973 (sjá grein DutyCalls) o.s.frv. sem ég mun mögulega skrifa greinar um á næstu vikum/mánuðum).

Í fyrstu gegnir Reza Khan stöðu yfirherforingja og varnarmálaráðherra en í október 1923 varð hann forsætisráðherra landsins eftir að síðasti Qajar-keisarinn flúði land.
Hann verður þá óumdeildur leiðtogi landsins og tekst að koma aftur á miðlægri stjórn í landinu eftir nokkurra ára stjórnleysi.
Það er svo 1925 að hann krýnir sig Shah og tekur titilinn Reza Shah Pahlavi, fyrsti Shah Pahlavi-ættarinnar.

Tímabær nútímavæðing

Þegar Reza tók við völdum var Íran eitt fátækasta land Asíu, skattkerfið var óhagkvæmt, landbúnaðarframleiðsla var lítil og efnahagurinn í lamasessi.
Ættbálkakerfið var enn sterkt og trúin spilaði ríkan þátt í lífi fólks, sjaría-lög giltu.

Reza Pahlavi lét hendur standa fram úr ermum og hóf metnaðarfullt nútímavæðingarverkefni.
Á 16 ára valdaferli Reza Pahlavi stórefldi hann heilbrigðis- og menntakerfið, fjölgaði iðnaðarverksmiðjum 17-falt og gerði öflugt vegakerfi. Hann sótti margar hugmynda sinna til Kemal Atatürk sem var að nútímavæða Tyrkland.

Rétt eins og Atatürk barðist Pahlavi gegn áhrifum íslams á opinberum vettvangi.
Hann felldi sjaría-lög úr gildi og lét skipa lærða dómara í stað klerka til að dæma í opinberum málum.
Hann þjóðnýtti jarðeignir trúarlegra stofnana og hjó þannig djúpt skarð í veldi klerkanna.
Hann innleiddi lög sem kváðu á um að karlmenn skyldu ganga í vestrænum fötum og bera vestræna hatta og bannaði konum að ganga með slæður utan heimilisins.

Eins og vænta má vakti þetta mikla óánægju klerkanna jafnt sem meirihluta almennings og óvinsældir Pahlavi uxu með árunum.
Þetta varð til þess að félagslegar umbætur Pahlavi gengu ekki eftir eins og hann hafði vonað, þetta var of mikið í einu, of stór biti.
Það var svo 1935 sem hann lét breyta nafni landsins úr Persíu í Íran, sem er það sem landið kallaðist á móðurtungunni.

Horft til Þýskalands

Til að fjármagna þessar umbætur leitaði Pahlavi á 4. áratugnum í síauknum mæli til Þýskalands, en hann varð tortrygginn í garð Breta. Ríkin tvö hófu náið efnahagslegt samstarf og undir lok 4. áratugarins var Þýskaland helsta viðskiptaland Íran.

Gremja Breta var gífurleg, en þeir höfðu átt í deilum við Pahlavi um hversu hátt hlutfall olíugróðans ætti að renna til íranska ríkisins og höfðu tapað málinu fyrir dómstóli Þjóðabandalagsins (League of Nations).
Einnig hafði Pahlavi bannað flugumferð breskra flugfyrirtækja en leyft umferð hins þýska Lufthansa.

Sagan endurtekur sig

Nú brýst seinni heimsstyrjöldin út og 1941 ganga Sovétríkin til liðs við Bandamenn og bæði Bretar og Sovétmenn hernema Íran þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi.

Nú er þá komin sama staða og tæpum 30 árum áður, þegar Bretland og Rússland hernámu landið í fyrri heimsstyrjöldinni, sagan endurtekur sig.

Í gegnum Íran senda Bandamenn Sovétmönnum birgðir vopna og matar, en Bretar hafa lært af reynslunni og nýta sér tækifærið meðan þeir hafa kverkatak á landinu og koma Reza Khan Pahlavi frá völdum og setja hinn unga og óreynda son hans, Mohammed Reza Pahlavi, í keisarastólinn.
Hann nýtur nokkurra vinsælda í fyrstu, hann dregur til baka margar af umbótatilraunum föður síns og lætur þinginu enn frekari völd í té.
Afleiðingar þessa mun ég fjalla um í næstu grein í röðinni.

Mynd: Reza Khan í opinberri heimsókn til Atatürk í Tyrklandi. Khan tók Atatürk sér til fyrirmyndar í nútímavæðingunni á 4. áratugnum.
Romani ite domum!