Loftárásin á Dresden - Fyrri hluti Myndin er af Arthur Harris, yfirmanni “Bomber Command” Breska flughersins.

Allir áhugamenn um Seinni heimsstyrjöld kannast vel við loftárásina á Dresden. Þessi árás var ein af þeim al-hrikalegustu í allri styrjöldinni. Hún var nánast algerlega ástæðulaus og grimmdarleg. Ekki nóg með að þessi ca. 750 þúsund manna borg væri algerlega varnarlaus, heldur var hún einnig ein af elstu, sögufrægustu og fegurstu borgum Evrópu. Enginn veit hversu mörgum hundruð þúsund fólks var þarna slátrað á einni nóttu, til þess eins að svala hefndarþorsta bæði Breta og Rússa á Þjóðverjum.

Eða svo segir sagan. Þó sú saga sé líklega ekki beinlínis “röng”, þá er hún samt “alls ekki svo einföld”. Um það fjallar þessi grein. En áður en við komum að sjálfri Dresden-árásinni, er alveg þess virði að rifja forsöguna upp.


Þróun loftárasa

Fyrsta setning í hvaða bók um flugsögu mannkyns sem er, hljómar jafnan eitthvað á þessa leið: “Allt frá örófi alda hafði manninum dreymt um að geta flogið um loftin blá eins og fuglarnir”. Þegar okkur prímötunum loks tókst að hafa okkur á loft, kom í kjölfarið öfund yfir öðrum hæfileika fuglanna: Þeir höfðu öldum saman dritað á okkur & okkar verk án þess við fengjum nokkuð við því gert. Gætum við nú ekki aftur tekið okkur þá til fyrirmyndar, var ekki hægt að drita einhverju úr þessum nýju flugmaskínum á óvini vora?

Ítalir riðu á vaðið árið 1911, í styrjöld sinni við Tyrki í Lýbíu. Þar höfðu flugmenn með sér nokkrar litlar sprengjur í flugmannsklefann, sem þeir fleygðu síðan með handafli á óvinaherinn. Skiljanlega varð árangur af þessu nánast enginn, en þetta var þó alltént byrjun.

Loftárásir í Fyrri heimsstyrjöldinni voru öllu mannskæðari, enda var þar í fyrsta sinn ráðist á almenning fjarri vígstöðvunum. Þar voru það aðallega Þjóðverjar að verki. Þeir flugu Zeppelin-lofskipum sínum yfir breskar borgir, oftast í skjóli nætur, og létu sprengjurar falla. Síðar í stríðinu, þegar loftskipin voru orðin of viðkvæm fyrir loftvörnum, komu þeir með fyrstu sérhönnuðu sprengjuflugvélarnar. Þessar árásir voru smáar miðað við þær sem urðu í næstu styrjöld, en þó bönuðu þær nokkur hundruð breskum borgurum og ollu gríðarlegri skelfingu (og reiði) almennings.

Á millistríðsárunum fóru hernaðarspekingar eins og t.d. Douhet á Ítalíu og Mitchell í Bandaríkjunum að íhuga nánar þau áhrif sem stórfelldur lofthernaður gæti haft á styrjaldir í framtíðinni. Þeir sáu fyrir sér risavaxna flugflota og gereyðingu helstu stórborga strax á fyrstu klukkustundum nýrrar styrjaldar. Ekki aðeins með öflugum þrýstings- og íkveikjusprengum, heldur einnig eiturgas-sprengjum.

Stjórnmálamenn og almenningur greip þessar kenningar á lofti, og á árunum fyrir Seinni heimsstyrjöld var mikil hystería í gangi varðandi þetta. “The Bomber will always get through” sagði frægur breskur stjórnmálamaður. Þýskir nazistar ýttu undir þessa trú með áróðri, og þóttust sýna fram á þetta í verki með hinni alræmdu loftárás á Guernica á Spáni 1937, í Borgarastríðinu þar. Það gleymdist í umræðunni að Guernica var varnarlaus smábær, ekki stórborg með einhverjar loftvarnir.

Í raun og veru var það svo árið 1939, að hvorki Þjóðverjar né önnur stórveldi höfðu raunverulega getu til að valda neitt meir en fremur óverulegu tjóni á borgum óvinarins. Hjá Þjóðverjum voru sprengjuflugvélar fremur smáar og ekki eins margar eins og þeir vildu að fólk héldi. Hjá Frökkum var það svipað. Bretar voru að vísu með nokkrar stórar vélar á teikniborðunum, en að öðru leyti voru þeir jafnvel verst settir. Auk þessa, þá voru leiðsögu- og miðunarkerfi allra aðila ófullkomin ennþá, þó það stæði til bóta.


Loftárásir aukast

Í upphafi Seinni heimsstyrjaldar í september 1939 gerðu Þjóðverjar mjög harkalegar loftárásir á Varsjá höfuðborg Póllands. Vorið eftir var komið að Niðurlöndum og varð þá hafnarborgin Rotterdam í Hollandi hvað verst úti. Þýski flugherinn þóttist nú vera “ógnvaldur heims”, ein gáði ekki að því að loftvarnir höfðu verið fremur slakar í þessum löndum.

Þegar hann hóf sókn sína gegn Bretlandi sumarið 1940, var mun harkalegar tekið á móti honum. Bretum hafði á þessum mánuðum tekist að efla loftvarnakerfi sitt um allan helming. Þeir höfðu núorðið fullkomnasta radarkerfi heims, auk orrustuflugvéla sem stóðu þeim þýsku síst á sporði. Enda guldu Þjóðverjar afhroð og urðu að láta undan síga að lokum. Ekki þó fyrr en að hafa þó tekist að valda miklu manntjóni og eyðileggingu á Bretlandi.

Enda hugsuðu Bretar þeim þegjandi þörfina. Þeir byggðu upp sprengjuflugflota sinn undir stjórn hins óbilgjarna Arthur “Bomber” Harris, og hófu fljótlega að láta Þjóðverja bragða á sínum eigin meðulum. Fyrsta “þúsundvéla-árásin” var gerð á Köln árið 1942. Árið eftir, þegar Bandaríkjamenn voru einnig komnir í spilið, skipulögðu Bretar “Operation Gomorrah”. Markmiðið var að gereyða einni af stærstu borgum Þýskalands. Hamborg varð fyrir valinu, og hlaut hroðalega útreið í risavöxnum loftárásum sem stóðu yfir í rúma tvo sólarhringa. Var þetta ekki ósvipað því sem síðar gerðist í Dresden, enda drógu menn lærdóma af þessu.

Svipaðar árásir héldu síðan áfram næsta hálfa annað árið. “Bretar á næturnar, Kanar á daginn”. Bandaríkjamenn höfðu meiri trú á “nákvæmnis-árásum” í björtu á herngagnaiðnaðinn, en þýsku loftvarnirnar efldust framan af og ollu þeim oft hroðalegu tjóni. En þegar líða tók á árið 1944, fór loks mjög að verða vart við ofurefli Bandamanna. Rússlandsstríðið dró sífellt meiri mátt úr Þjóðverjum, auk innrásar Bandamanna í Frakkland. Að auki voru bandamenn núna komnir með betri og fleri fylgdar-orrustuvélar til að gæta sprengjuflota sinna.

Þó að nú virðist það augljóst að Þýskaland væri “sigrað” í ársbyrjun 1945, var það ekki tilfellið sem blasti við mönnum þá. Það var reyndar löngu orðið alveg dagljóst að Þjóðverjar myndu á endanum tapa. En þrátt fyrir það, var enn langt í land. Þegar Bandamenn höfðu reynt djarfa sókn í Hollandi haustið 1944, í von um að ljúka stríðinu fyrir áramót, höfðu þeir komist að því fullkeyptu að það var mjög óhófleg bjartsýni. Í austri höfðu Rússar, eftir mánaðalanga risavaxna og erfiða sókn, ákveðið að staldra aðeins við í Póllandi til að meta stöðuna og undirbúa næstu skref. Eftir þetta höfðu Þjóðverjar loks gert Bandaríkjamönnum heilmiklar skráveifur í Belgíu fyrir og um áramótin 1944-45.

Þannig höfðu hvorki vestrænir Bandamenn enn sótt austur yfir Rínarfljót, né Sovétmenn vestur yfir Óder. Þjóðverjar héldu því enn nánast öllu sínu eigin landi, þar sem þeir höfðu ennþá yfir milljón vana menn undir vopnum, auk “heimavarnarliðs”. Þýskt framleiðslukerfi og þjóðfélag almennt virkaði furðanlega vel miðað við aðstæður. Að auki var Noregur, Danmörk og mikill hluti Hollands, auk fleiri minni landsvæða hér og þar um álfuna, enn á þeirra valdi. Þýskaland, þó veikt væri orðið miðað við áður og ætti enga von um sigur, var hreint ekki enn sigrað.

Og enn áttu því margar sögufrægar borgir sem enn höfðu sloppið tiltölulega vel við loftárásir, eftir að verða fyrir þeim…


Dresden

Dresden var stofnuð á tólftu öld, sem verslunarmiðstöð við Saxelfi. Hún er höfuðborg hins forna Saxlands (þýs. Sachscen, eng. Saxony). Á fyrri hluta Miðalda (ca. 500-1000) voru Saxar einhver skelfilegasti germanski þjóðflokkur hinnar skógi vöxnu Mið-Evrópu. Þeir brutu sér síðan leið niður eftir Elbe-fljótinu sem nú er við þá kennt á íslensku (Saxelfur), allt að ströndum Norðursjávar.

Áður en Rómverska heimsveldið leið undir lok, voru Saxar og bandamenn þeirra Englar farnir að herja á strendur Bretlands og setjast þar að í stórum stíl. Þeir brutu allt hið nýtilegasta af því stóra eylandi undir sig, ruddu innfæddum landsmönnum yfir í fjall-lendi Wales og Skotlands. Þeir gerðust Engilsaxar - og síðar með blöndunum við fleiri innrásarmenn í gegnum aldirnar - Englendingar. Þótt afar langsótt sé, mætti því kannski segja að frændur hafi snúið heim til höfuðborgar Saxlands þessa nótt.

Á næstu öldum varð Dresden sannkölluð verslunar og menningarborg, eins og staðsetningu hennar við Saxelfi hæfði, og jafnframt suðupunktur í ýmsum deilum. Pólitík þýsku ríkjanna almennt (sértaklega Prússands), en einnig Póllands og Tékklands fléttuðust mjög inn í sögu borgarinnar.Enda varð borgin fyrir alvarlegum fallbyssu-barningi í Prússnesk-Austurríska stríðinu árið 1760. Ungur (og síðar frægur) drengur að nafni Johann Goethe kom til borgarinnar skömmu síðar og efaðist um að hún yrði nokkru sinni söm, allt í rjúkandi rúst. Endurbygging hennar í það skiptið varð enda til lítls, því rúmum 40 árum síðar kom Napóleon Bonaparte Frakklandskeisari þangað með her sinn og olli jafnvel enn meiri eyðileggingu. Þá var bara málið að byrja aftur.

Árið 1871 sameinuðust hin ótalmörgu konungsríki og furstadæmi Þýskalands í eitt stórt land undir forystu Prússlands. Konungsríkið Saxland-Coburg var kannski ekki mjög fjölmennt í keisaradæminu, en menningarlega og hvað “þýsknesku” almennt varðaði, var það mjög öflugt. Þar spilaði höfuðborgin Dresden stærsta þáttinn, núna aftur orðin ein flottasta borg Mið-Evrópu, keppti við Vínarborg og Prag í glæsileik. Var henni einnig líkt við fleiri glæsiborgir Evrópu, oft kölluð “Flórens við Saxelfi”. Um aldamótin 1900 var hún jafnvel orðin einskonar “Litla París”, aðsetur framsækinna listamanna, innlendra og erlendra, sem “fíluðu andrúmsloftið” þar.

Eins og flestar aðrar borgir Þýskalands, slapp Dresden algerlega ósködduð frá Fyrri heimsstyrjöldinni, en fékk að finna fyrir efnahagsvandamálum og tilheyrandi óróleika millistríðsáranna. Borgin varð á seinni árum Weimar-tímans helsta “nazistabæli” austanverðs Þýskalands, óvíðar höfðu nazistar meira fylgi en þar. Atvinnulíf hóf að blómstra þar undir stjórn þeirra.

Íbúar Dresden höfðu hingað til orðið minna varir við stríðið en margir aðrir Þjóðverjar. En þegar hér var komið sögu, var fólk farið að ókyrrast yfir nálægð Rússa við borgina, enda flóttafólk farið að streyma þangað. En fólk huggaði sig þó við að engar alvarlegar loftárásir höfðu verið gerðar, og yrðu varla gerðar úr þessu.


Ögurstund

Þann 13. febrúar, þegar vetrarsíðdegið færðist yfir og skyggja tók á Englandi, fóru áhafnir Lancaster-vélanna að gera sig klára og ræsa hreyflana. Tíu manns voru í hverri vél, flest piltar um tvítugt, helst að flugstjórarnir væri aðeins eldri. Ólíkt því sem verið hafði nokkrum mánuðum áður, voru þeir ekkert sérlega smeykir við að fljúga alla leið austur til Dresden. Þeir vissu að loftvarnir Þjóðverja voru nú orðnar fremur veikar almennt, sérstaklega á þessu svæði. Þeir voru fegnastir að skotmarkið, “Target for tonight” var ekki Berlín. Þeim fannst svosem ekkert merkilegra við Dresden en aðrar þýskar borgir sem þeir höfðu verið að sprengja undanfarna mánuði, og tæpast hefur þeim dottið í hug að þessi árás yrði eitthvað sögufrægari en aðrar.

Þunghlaðnir Lancasterar hófu sig smám saman á loft hundruðum saman frá flugvöllum um allt England með miklum drunum og látum. Þegar þeir höfðu brölt upp yfir skýjahuluna, söfnuðust þeir saman og röðuðu sér í fylkingar. Með lækkandi sól að baki sér, héldu þeir í austur inn yfir Norðursjóinn, í átt að meginlandi Evrópu. Eins og vanalega.

Rúmri klukkustund síðar brunaði lítill hópur Moskító-véla á loft. Hlutverk þeirra var að vera “Pathfinders”, semsagt að vísa leiðina að skotmarki. Moskító var lítil tvíhreyfla flugvél, ein af hraðfleygustu og jafnframt fjölhæfustu flugvélum stríðsins. “Pathfinder” vélar voru sérútbúnar með fullkomnasta radíó-leiðsögubúnaði sem þá þekktist. Þær höfðu áður verið útbúnar með breskum græjum eins og “Gee” eða “Oboe”, en núna voru þær með glænýtt amerískt kerfi sem nefndist LORAN. Yfir Hollandi tóku Moskíturnar fram úr Lancaster-hlunkunum fyrir ofan sig, og fóru að kanna það sem framundan var fyrir þá.

Þó að þýska loftvarnakerfið væri núna hvergi nærri jafn öflugt og áður, gat það enn látið til sín taka, og því höfðu Bretar allan varann á. Moskíturnar dreifðu sér núna í ýmsar áttir yfir miðju Þýskalandi og notuðu alla sína radíótækni til að rugla loftvarnirnar. Sprenguflotinn breytti nokkrum sinnum eilítið um stefnu. Einnig voru aðrar flugsveitir á ferli í nágrenninu, í öðrum árásarferðum. Alls voru um 1700 flugvélar Bandamanna á sveimi yfir Þýskalandi þetta kvöld.

Þjóðverjar sátu við radarskjái sína, rýndu í þá og reyndu að finna út hvert stóri flotinn stefndi í þetta skiptið. Var það Berlín eins og þeim fannst líklegast? Leipzig? Chemnitz? …Dresden kannski? Neeii varla… Og þó!! Þegar loftvarnarmenn áttuðu sig loks, var um seinan að gera það litla sem í þeirra valdi stóð núorðið. Þær fáu nætur-orrustuflugvélar sem Þjóðverjar enn áttu, voru á Berlínarsvæðinu. Þær fáu loftvarnabyssur sem verið höfðu í Dresden og nágrenni, höfðu nú einnig verið fluttar annað. Dresden var varnarlaus borg, og nú fengi hún að finna fyrir því.


Í seinni hluta verður árásinni og afleiðingum hennar lýst, einnig miklum umræðum og deilum sem urðu um hana eftir stríðið og allt fram á þennan dag.
_______________________