Saga Hernaðar - Orrustan við Megiddo 1479 f.Kr. Megiddo er fyrsta orrusta sögunnar í þeim skilningi að hún er
fyrsta orrustan sem einhverjar heimildir eru til um. Hér á eftir
fylgir stutt yfirlit yfir hana sem má segja að tengist fyrri grein
minni um upphaf hernaðar.

Faraóinn Tútmose III jók veldi Egyptalands gríðarlega á
valdatíma sínum. Að sögn söguritara síns var hann
smávaxinn en sérlega sterkur og ákaflega fær bogmaður.
Hann stækkaði egypska ríkið í herferðum sínum þar til það
náði allt frá Núbíu í suðri til Palestínu, Sýrlands og bakka
Efratesár í norðri og austri.
Hann beitti stórum landher sínum (4 herdeildir, 5000 menn
hver) af kænsku og lagði undir sig hálendi Palestínu og
byggði einnig öflugan flota sem hann notaði til að sigra
hafnarborgir Föníkumanna og gera þær að skattlendum
sínum. Hann fyrirskipaði einnig að þau lönd og borgir sem
hann lagði undir sig skyldu sjá her hans fyrir vistum þegar
hann hélt áfram að stækka yfirráðasvæði sitt.

Tútmose beitti eftirfarandi formúlu í norðurhernaði sínum.
Hann eyddi vetrinum í að undirbúa aðgerðir sumarsins, líkt og
herir hafa gert eftir hans tíð, og að voru flutti hann herinn
sjóleiðina til Palestínskra borga sinna og bjó hann undir stríð.
Þegar óvinurinn varðist innan borgarmúra þá gerði hann
umsátur og notaði tiltæk tré til að byggja virkisvegg umhverfis
óvininn og svelti hann síðan til uppgjafar. Takmarkið var ávallt
að koma hernum heim fyrir vetur því að egypskir hermenn
þoldu illa kalda vetur og því beitti Tútmos þá óvini sem neituðu
að gefast upp mikilli hörku. Þó kaus hann helst að bjóða
óvininum konunglega vernd sína gegn sköttum og undirgefni
og var í raun samningsfús herkonungur. Hann tók yfirleitt eldri
syni óvinaleiðtoga í gíslingu og flutti þá til Egyptalands þar
sem þeir fengu menntum eins og um egypska prinsa væri að
ræða. Ef feður þeirra reyndust erfiðir lénsmenn þá setti hann
einfaldlega syni þeirra í hásætið þar sem þeir voru mun
samvinnuþýðari og egypskari í hugsun. Rómverjar tóku síðar
upp þessa aðferð við stjórn lénsríkja.

Konungur borgarinnar Kadesh í Palestínu tryggði sér
stuðning annarra borga í Canaan og leiddi uppreisn þeirra
gegn Egyptalandi 1479 f.Kr. Þeir lögðu undir sig virkið
Megiddo sem var staðsett á mikilvægum krossgötum
flutninga bæði til Líbanon og austur að Efratfljóti. Virkið var
byggt á hæð sem veitti yfirsýn yfir “þjóðveginn” þar sem hann
lá út úr hinu þrönga Arunskarði og út á opnar slétturnar.

Þegar Egypski herinn kom á vettvang gat Tútmos valið um
þrjár sóknarleiðir; vestur eða suður fyrir hálendið yfir opið
land, eða í gegnum hið þrönga Arunskarð. Gegn ráðum
herforingja sinna kaus Faraóinn að sækja upp skarðið þar
sem óvinurinn myndi síst vænta þess. Þetta reyndist
skynsamlegt þar sem meginher óvinarins beið hans nokkrum
kílómetrum sunnan við skarðið, en hefðu þeir mætt honum
þar sem skarðið opnast hefði her hans verið gereytt þannig
að áhættan var mikil. Hann barðist með framvarðasveitum
sínum við sveitir óvinarins sem gættu skarðsins meðan
Egypski herinn sótti út á sléttuna og myndaði skipulega
víglínu. Einnig kom hann fyrir bakvarðarsveit í Norðvestri ef
hann þyrfti að horfa frá meginorrustunni. Þar sem óvinaherinn
beið átekta ákvað Tútmos að bíða morguns og herinn setti
upp búðir sínar að kveldi 14. mai.

Næsta morgun bjóst Tútmos til orrustu í gull og
silfurskreyttum stríðsvagni sínum. Hann leiddi síðan áhlaupið
og slíkur var sóknarþunginn að áætlun óvinarins varð að
engu. Þeir höfðu komið liði sínu fyrir í tveimur fylkingum og
hugðust síðan beita stríðsvögnum sínum til árásar á hlið
Egypska hersins til að koma honum úr jafnvægi. En slík var
framganga Egyptanna, með Faraóinn í broddi fylkingar, að
flótti brast í hinn “fjölþjóðlega” óvinaher. Skelfingin var svo
mikil að varnarliðið í virkinu sjálfu opnaði ekki hliðin til að
hleypa félögun sínum innfyrir múrana en tókst þó að hjálpa
mörgum þeirra yfir veggina áður en Egyptarnir náðu til þeirra.
Egypski herinn hlýddi ekki fyllilega skipunum Faraósins og tók
að ræna búðir óvinarins í stað þess að brjótast strax til
inngöngu í virkið og það varð til þess að það féll ekki fyrr en í
löngu umsátri í kjölfarið. Sigur Tútmosar yfir Megiddo var að
lokum gríðarlega mikilvægur því hann handsamaði fjölda
óvinaleiðtoga innan borgarmúranna og því voru eftirfarandi
orð hans við hæfi, “þar sem höfðingi hvers ríkis sem gert
hefur uppreisn gegn mér er innan borgarinnar er taka hennar
sem taka þúsund borga”.

Þó að nánari heimildir séu ekki til um framgang orrustunnar
veitir þetta dálitla innsýn í herstjórn og skipulag þessa tíma.
Það má segja að tvö meginatriði hafi orsakað sigur
Egyptanna. Annars vegar var það dirfska Faraósins, því allir
góðir herstjórar taka ákveðna áhættu en byggja hana þó á
rökréttum ályktunum um hegðun óvinarins. Hins vegar tel ég
að lítil samhæfing og “þjöppun” (kallað Cohesion í
hernaðarkenningum) óvinarins hafi ráðið úrslitum þegar á
hólminn var komið. Eins og við eigum eftir að sjá í orrustum
og herferðum á tímum grikkja, makedóníumanna, rómverja
og jafnvel Napóleons og á 20. öld er mjög erfitt að búa til
sterkan og áhrifaríkan her úr ólíkum þjóðarfylkingum (þó að
það hafi vissulega tekist). Loks má jafnvel gera ráð fyrir að
hinn gyllti vagn faraós í miðjum hernum og fremst í sókninni
hafi skotið óvininum skelk í bringu því hér stóðu bænda- og
kaupmannssynir andspænis Faraó, hinum lifandi guð.

Til gamans má geta að bretar háðu orrustu á þessum sama
stað gegn tyrkjum í fyrri heimsstyrjöld þar sem síðasti
riddarasigur sögunnar átti sér stað. Einnig getur biblían þess
að við Megiddo muni her hins illa heyja lokaorrustuna við heri
ljóssins í Armageddon, en armageddon þýðir einmitt “Á
Megiddo”.

vona að einhver vaki í gegnum þetta allt saman :)
______________________________