Saga Hernaðar Hernaðaraga – 1.1
Uppruni Skipulegs Hernaðar

Í fornöld einkenndist hernaður af skærum milli lítilla hópa
hirðingja sem áttu í samkeppni um beitar- og veiðilendur. En
með tilkomu skipulegrar akuryrkju í upphafi þriðja árþúsunds
fyrir Kristsburð urðu til stór menningarsamfélög í Egyptalandi
og Austurlöndum Nær sem höfðu bolmagn til að koma á fót
herjum og styðja þá með birgðaflutningum og byggingu
varnarvirkja.
Landbúnaðarbyltingin gerði það að verkum að föst búseta
jókst og þéttbýliskjarnar urðu til, þar af leiðandi var
nauðsynlegt að huga að leiðum til að verja hin dýrmætu
jarðræktarlönd, og borgara hinna nýju ríkja. Auk þess hentaði
landslag svæðisins í heild mjög vel til hernaðar þar sem
veðurfar var milt og stöðugt og að undanskildum ám (sem
voru vel færar) voru engar meiriháttar hindranir sem stóðu í
vegi fyrir herferðum.
Þar sem hin skipulögðu hagkerfi Súmera, Hittíta og Egypta
bundu enda á sjálfsþurftabúskap þróaðist annar iðnaður
samhliða fækkun landbúnaðarstarfa. Nú gafst tími til
skipulegrar vopnasmíði, brynjugerðar og stríðshestaræktunar.
Þróun “hirðarinnar” varð einnig til þess að allt skipulag sem
laut að hernaði varð skilvirkara og til urðu sérstakir
embættismenn sem unnu að her- og varnarmálum ríkjanna.
Hér er því um að ræða uppruna hernaðar eins og við þekkjum
hann í dag og um leið varð gríðarleg breyting á þeim átökum
sem samfélög áttu sín á milli. Þessi þróun gerði mönnum
kleift að koma á fót gríðarstórum herjum og því margfaldaðist
mannfall og eyðileggingarmáttur herja var meiri en
nokkurntímann hafði þekkst. Hinir nýju herstjórar hikuðu ekki
við að beita valdi sínu til hins ýtrasta eins og sjá má af
eftirfarandi frásögn Assýríska höfðingjans Tiglath-Pileser í
kjölfar sigur hans á Hunusa:

“Ég felldi stríðsmenn þeirra milli hæðanna eins og
stormsveipur. Ég skar af þeim höfðin eins og lömb og blóð
þeirra fyllti dalina og flæddi um fjöllin. …borgina tók ég; nam
guði þeirra á brott; fjarlægði auð þeirra og eigur, og lagði eld
að borg þeirra. Ég eyddi hinum miklu borgarmúrum þeirra,
og borginni allri breytti ég í akurlendi.”

Bronsaldarherir Persa og Assyringa gátu eytt
óvinasamfélögum í heild sinni og í raun má segja að
eyðingarmáttur þeirra, og miskunnarleysi, hafi gert þá að
hættulegustu herjum sögunnar allt fram til síðustu aldar.
Stjórnkerfi þessara þjóða gerði herstjórnendum þeirra kleift
að beita herjum sínum að vild, og engar venjur eða lög voru til
á þessum tíma til að takmarka aðgerðir þeirra. Því tíðkuðust
skipulegar útrýmingar og ekki var vænst miskunnar af
sigurvegurum þegar orrustu lauk. Hér var um að ræða
einræðisríki þar sem duttlungaákvarðanir leiðtoga gátu
auðveldlega leitt til styrjalda og líf hins almenna borgara eða
hermanns var einskis virði. Þessa grimmd má sjá greinilega
í frásögn Biblíunnar af falli Jerikóborgar:

“… fólkið hrópaði gríðarlega og múrinn féll flatur, þannig að
fólkið sótti inn í borgina og tóku hana. Og þeir gjöreyddu öllu
sem í borginni var, bæði mönnum og konum, ungum sem
gömlum, og uxum og sauðum og ösnum..”

Þessi einokun valds þýddi þó að dauði leiðtoga hafði viss
lamandi áhrif á ríkin og því einkenndist hernaður tímabilsins
að vissu leyti af áherslu á handtöku eða aftöku óvinaleiðtoga.
Samfélög þessi voru því ákaflega veik fyrir þó stór væru og oft
var þeim ógnað í heild sinni með dauða leiðtogans þar sem
hann leiddi oft til átaka innan ríkisins um erfðir og skapaði auk
þess ringulreið sem gaf óvinum tilefni til innrása.
Þó svo að hernaðartækni hafi fleygt fram á þessum tíma og
stórir, skipulagðir, herir hafi komið fram á sjónarsviðið
takmörkuðust þeir eins og áður sagði mjög af stjórnkerfi
ríkjanna og það er ekki fyrr en Grísku borgríkin komast til
áhrifa að frekari þróun verður.

Framhald…

Hernaðarsaga - 1.2
Herir Grísku Borgríkjanna
______________________________