Samtal Mannerheims og Hitlers Á myndinni, sem líklegast er tekin í lestarvagninum áður en samtalið átti sér stað, er Adolf Hitler til vinstri, Jukka Rangell, forsætisráðherra Finnlands við hlið hans. Á móti Hitler situr Risto Ryki, forseti Finnlands og Mannerheim marskálkur á hans hægri hönd.

Þann fjórða júní 1942 hélt Adolf Hitler til Finnlands til að heimsækja Karl Gústav Mannerheim marskálk og helsta hernaðarleiðtoga Finna, í tilefni af 75 ára afmælinu hans. Hann ætlaði einnig að nota tækifærið til að óska um frekari styrk frá Finnum á austurvígstöðvunum, en lét þó ekki af því verða. Heimsóknin var stutt, rétt um 5 tímar.

Vegna þess að Mannerheim vildi ekki að heimsóknin yrði opinber fór hún fram í lestarvagni nálægt Immola flugvellinum í suðausturhluta Finnlands. Eftir að hafa hitt Risto Ryti, forseta Finnlands, á flugvellinum héldu þeir á fund marskálksins í lestarvagninum sem þá hafði verið búinn tilheyrandi varúðarráðstöfunum. Hitler hélt þá ræðu í tilefni afmælissins og eftir borðhöldin ræddu þeir, Hitler og Mannerheim saman yfir kaffibolla.

Meðan borðvagninn var mannlaus kom Thor Damen, starfsmaður finnska útvarpsins, fyrir hljóðnema á hattastandinum í þeim tilgangi að taka upp það sem fram færi á milli Foringjans og marskálksins í leyni. Snúrurnar frá hljóðnemanum leiddu svo út um glugga og í upptökutækin sem voru í næsta vagni.

Hljóðneminn náði að taka upp ellefu mínútur af samtali þeirra, þar til einhver manna Hitlers tók eftir honum og klippti á snúrurnar. Þrátt fyrir að hafa verið hótað með orðunum “Ef þetta væri í Þýskalandi yrðir þú sendur í fangabúðir”, og skipað að eyða spólunum samstundis, fékk Thor að halda einu eintaki, sem enn er til í dag.

Það sem merkilegt er við þessa upptöku er að þetta er eina upptakan sem til er af Hitler þar sem hann vissi ekki að verið væri að taka upp. Foringinn var mjög strangur í þessum málum og harðbannaði öllum að taka sig upp, eða mynda sig án þess að hann vissi af því.

En um innihald samræðnanna er það að segja að í henni kemur svo sem ekkert merkilegt í ljós. Hitler sýnir sitt týpíska andlit eins og samstarfsmenn hafa lýst honum, samræðan breytist fljótt í einræðu þar sem hann talar lengi og býst ekki við því að sér sé svarað. Hann talar um það hvernig það kom sér á óvart hversu sterkir Sovétmenn voru en fer svo að tala um sína sýn á gang stríðsins frá 1939 fram að innrásinni í Sovétríkin, hvernig Rússar hefðu kúgað hann og hversu viss hann væri í þeirri sök að Rússar hefðu ætlað að gera innrás Í Rúmeníu árið 1940 sem hefði lamað þýska herinn.

Í gamni mínu þýddi ég samtalið hér að neðan, en sú þýðing er lauslega þýdd úr ensku en samtalið fór náttúrlega fram á þýsku upphaflega. Stundum er erfitt að greina orðin og þess vegna er textinn á köflum frekar samhengislaus. Þegar ég geri “…, -” þá þýðir það annað hvort að ekki skilst/heyrist hvað sagt er, eða ef samhengið er í lagi, að sá sem er að tala hikar í máli sínu.


Upptakan hefst er Foringinn er í miðri setningu:

Hitler: … afar alvarleg hætta, eflaust sú alvarlegasta, sem við getum aðeins nú gert okkur grein fyrir í öllu sínu veldi. Við skildum ekki sjálfir…, - hversu vel þetta ríki [Sovétríkin] var vopnum búið.

Mannerheim: Nei, við höfðum ekki hugsað út í þetta.

Hitler: Nei, ekki ég heldur, nei.

Mannerheim: Í Vetrarstríðinu…, - Í Vetrarstríðinu höfðum við ekki einu sinni hugsað út í þetta. Auðvitað…

Hitler: [Grípur fram í] Já.

Mannerheim: …en hvað þeir…, -í raun og veru…, [Hitler talar í kapp við hann, svo erfitt skilst] - og nú leikur enginn á vafi á því hvað þeir höfðu í pokahorninu.

Hitler: Algjörlega, þetta er…, – þeir höfðu ein gríðarlegustu hergögn sem, -öh, - fólk gat ímyndað sér. Jæja, - ef einhver hefði sagt mér að land með… [Hitler stoppar stundarkorn þegar hurð opnast og lokast]. – Ef einhver hefði sagt mér að þjóð gæti haft 35 þúsund skriðdreka til að byrja með þá hefði ég sagt „Þú ert brjálaður!“.

Mannerheim: þrjátíuogfimm?

Hitler: 35 þúsund skriðdrekar.

Rödd í bakgrunni: 35 þúsund, já.

Hitler: Við höfum eyðilagt, nú sem komið er, meira en 34 þúsund skriðdreka. Ef einhver hefði sagt mér þetta, hefði ég sagt: „Þú herra minn, þú sérð allt í tvöföldu eða tíföldu veldi. Þú ert brjálaður, þú sérð drauga“. Þetta hefði ég talið ógerlegt. Ég sagði þér frá því áðan að við fundum verksmiðjur, ein þeirra var í Kramatorskaja til dæmis. Fyrir tveim árum síðan voru þar bara nokkur hundruð skriðdrekar. Við vissum ekki neitt. Í dag er skriðdrekaverksmiðja þar sem á fyrstu vakt unnu litlu meira en 30 þúsund verkamenn og í lok dags, rúmlega 60 þúsund verkamenn…, - í einni skriðdrekaverksmiðju! Gígantísk verksmiðja! Herir af verkamönnum sem klárlega bjuggu við sömu kjör og dýr og…

Rödd í bakgrunni: [Grípur fram í] Á Donets svæðinu?

Hitler: Á Donets svæðinu.

[Þeir stansa og hljóð í leirtaui að færast til heyrist, líklega er verið að taka af borðinu þeirra].

Mannerheim: Já, ef þú hefur það í huga að þeir höfðu um það bil 20 ár, næstum 25 ár af…, -tíma til að vopna sig…

Hitler: [Grípur fram í] Ótrúlegt, það var ótrúlegt.

Mannerheim: … Og öllu, öllu var eytt í hergögn.

Hitler: Bara í hergögn.

Mannerheim: Bara í hergögn!

Hitler: [Varpar öndinni] Aðeins.., - alla vega er það…, - eins og ég sagði forsetanum þínum [Risto Ryti] áðan, þá hafði ég enga hugmynd um þetta. Ef ég hefði haft hugmynd um þetta þá hefði þetta [að ráðast á Sovétríkin] verið miklu erfiðara fyrir mig, en ég myndi samt hafa tekið ákvörðunina, vegna þess að…, - það var engin önnur leið. Það var klárt mál, strax um veturinn ´39/´40, að stríðið varð að hefjast. Ég hafði bara þessa einu martröð, en það var ennþá meira! Vegna þess að stríð á tveimur vígstöðvum hefði verið ógerningur, það myndi hafa eyðilagt okkur. Í dag sjáum við það enn skýrar en við sáum á þeim tíma…, - að það myndi hafa eyðilagt okkur.

Upphaflega vildi ég, strax um haustið ´39…, - vildi ég hefja stríðið í vestrinu, en hin stanslausa slæma veðrátta hindraði okkur í því. Allur herafli okkar, eins og þú veist, er aðeins hugsaður fyrir gott veður. Hann er mjög fær, mjög góður, en er því miður bara góður þegar vel viðrar. Við sáum það í þessu stríði…, - vopnin okkar voru náttúrulega hönnuð fyrir vestrið, og við vissum allir, fram að þeim tíma, -öh, - eða það var álit manna afar snemma að við gætum ekki heygt stríð um vetur. Og við höfum einnig þýsku skriðdrekana, þeir voru ekki undirbúnir fyrir vetrarstríð. Í stað þess [að undirbúa þá] framkvæmdum við prófanir sem sýndu fram á að það væri rétt möguleiki á að heygja stríð um vetur. Hvað þetta varðar vorum við á öðrum upphafspunkti [en Sovétmenn]. Um haustið 1939 stóðum við alltaf andspænis þessari spurningu. Ég hafði örvæntingarfulla löngun til að gera innrás, og ég trúði því í einlægni að við gætum unnið Frakkland á sex vikum.

Alla vega, þá stóðum við andspænis þeirri spurningu hvort við gætum yfirhöfuð ráðist til atlögu [gegn Frakklandi]…, - það rigndi stanslaust. Og ég þekki franskt landsvæði sjálfur mjög vel og gat ekki sniðgengið ráðleggingar hershöfðingja minna, um að við.., - eflaust…, - myndum ekki hafa…, - að skriðdrekaher okkar myndi ekki hafa verið skilvirkur, og ekki flugherinn heldur, vegna regnsins.

Ég þekki Norður-Frakkland sjálfur. Eins og þú veist þá þjónaði ég í Stríðinu mikla í fjögur ár. Og það varð að fresta þessu. Ef ég hefði sigrað Frakkland strax ´39, þá myndi heimssagan hafa breyst. En ég þurfti að bíða til ársins 1940, og því miður var það ekki hægt fyrr en í maí. 10. maí var fyrsti góði dagurinn, og þann 10. maí réðist ég strax til atlögu. Ég gaf skipunina til árásar þann tíunda á þeim áttunda. Og svo [eftir fall Frakklands] þurftum við að framkvæma þessa miklu flutninga hersveita okkar frá vestri til austurs.

Fyrst var það hernám[Frakklands líklega]…, svo var það verkefnið í Noregi…, á sama tíma stóðum við andspænis, ég get hreinskilningslega sagt í dag, miklu óláni; veikleika Ítalíu. Vegna þessa veikleika lentum við í, fyrst vegna stöðunnar í Norður-Afríku, svo í Albaníu og Grikklandi, miklum óförum. Við þurftum að koma til aðstoðar [Ítölum]. Þetta þýddi fyrir okkur að við þurftum, í litlu magni til að byrja með, að skipta flughernum og skriðdrekasveitunum, á meðan við vorum á sama tíma að undirbúa þær í austrinu. Við þurftum að láta af hendi, á einu bretti, tvær hersveitir, tvær heilar hersveitir og svo bættist sú þriðja við, og við þurftum að endurmanna þær vegna mikils mannfalls þar. Þetta var…, - blóðugur bardagi í eyðimörkinni.

Þetta var náttúrulega allt óhjákvæmilegt sjáðu til. Ég rætti við Molotov [Utanríkisráðherra Sovétríkjanna] á þessum tíma, og það var alveg öruggt að hann kom með það í huga að heyja stríð [gegn okkur], ég útilokaði að við myndum hefja stríð, en ég kvaddi hann með þá ákvörðun í huga að það væri ógerlegt að afstýra því. Þar var.., - þetta var eini,… – vegna þess að þær kröfur sem maðurinn kom upp með voru klárlega settar fram til að stjórna Evrópu á endanum. [Hitler hefur lækkað róminn og hvíslar næstum því nú] Svo hafði ég hann…., - ekki opinberlega… [hljóðið deyr út].

Strax um haustið 1940 stóðum við frammi fyrir þeirri spurningu, - öh..,: Skyldum við íhuga að brjóta friðinn [við Sovétríkin]? Á þeim tíma ráðlagði ég finnsku ríkisstjórninni að…, - viðræður um að vinna tíma og tefja málin…, - því ég hafði alltaf óttast það að Rússland myndi skyndilega ráðast á Rúmeníu seint um haustið…, - og hernema olíusvæðin, því við vorum ekki tilbúnir þarna seint um haustið 1940. Ef Rússland hefði tekið rúmensku olíusvæðin, þá hefði Þýskaland verið glatað. Þá hefði það ekki þurft nema 60 rússneskar hersveitir til að klára málið.

Í Rúmeníu höfðum við auðvitað, á þeim tíma, ekki mikinn her. Rúmenska ríkisstjórnin hafði þá nýlega snúið sér til okkar…, - og það sem við sáum þar var hlægilegt. Þeir hefðu aðeins þurft að hertaka olíusvæðin. Auðvitað gat ég ekki, með okkar vopnum, hafið stríð í september eða október. Það var ekki inn í myndinni. Herflutningnum til austursins var náttúrulega ekki lokið strax því herinn þurfti auðvitað fyrst að endurstyrkja sig í vestrinu. Fyrst þurfti að sjá um hergögnin því einnig við, já, það hafði líka verið mannfall hjá okkur í herförinni í vestrinu. Það hefði verið ógerningur að ráðast til atlögu…, - fyrir vorið 1941. En ef Rússarnir hefði á þessum tíma, um haustið 1940…, - hefðu hernumið Rúmeníu…, - hefðu tekið eldsneytisuppspretturnar, þá hefðum við verið hjálparlausir árið 1941.

Rödd í bakgrunni: Án eldsneytis…

Hitler: [Grípur fram í] Við höfðum gríðarlega mikla þýska framleiðslu, en kröfur flughersins, skriðdrekasveitanna…, þær voru mjög miklar. Þetta er neyslustig sem fer fram úr allri ímyndun. Og án þessara fjögra til fimm milljóna tonna af rúmensku eldsneyti hefðum við ekki getað barist í stríðinu…, - og við hefðum þurft að láta það eiga sig…, - og það miklar áhyggjur fyrir mig. Þess vegna reyndi ég að lengja viðræðutímabilið þar til við yrðum nógu sterkir til að andsvara þessum óréttlátu kröfum [frá Sovétmönnum] því…, - þessar kröfur voru ekkert annað en fjárkúganir. Þetta voru fjárkúganir. Rússarnir vissu að við vorum uppteknir í vestrinu. Þeir gátu í raun kúgað allt frá okkur. Það var ekki fyrr en Molotov kom…, - sem ég sagði honum hreinskilnislega að kröfur þeirra, þeirra fjöldamörgu kröfur, væru ekki samþykkjandi af okkar hálfu. Með þessu enduðu viðræðurnar skyndilega þennan sama morgun.

Það voru fjögur umræðuefni [sem Molotov setti fram]. Eitt þeirra, sem snéri að Finnlandi, var frelsi til að verja þá [Sovétmenn] frá finnsku ógninni, sagði hann. [Ég sagði:] „Þú ætlar þó ekki að segja mér að Finnland sé ógn við ykkur!“ En hann sagði: „Í Finnlandi er ógn…, - þeir sem grípa til aðgerða gegn vinum Sovétríkjanna, þeir myndu grípa til aðgerða gegn okkar samfélagi, gegn okkur…, - þeir myndu stanslaust áreita okkur og stórveldi getur ekki verið ógnað af smáríki“. Ég sagði: „Ykkar tilvist er ekki ógnað af Finnlandi! Það er, þú ætlar þó ekki að segja mér…“

Mannerheim: [Grípur fram í] Hlægilegt!

Hitler: „… að ykkar tilveru sé ógnað af Finnlandi?“ .“Jú“ [sagði hann], þetta var mórölsk ógn sem væri beint gegn stórveldi og það sem Finnland var að gera var móralskt…, - ógn sem stafaði að móralskri tilveru þeirra [Sovétríkjanna]. Þá sagði ég honum að við myndum ekki samþykkja frekara stríð á Eystrasaltssvæðinu sem áhorfendur. Hann svaraði með því að spyrja hvernig við litum á stöðu okkar í Rúmeníu. Þú veist, við höfðu gefið þeim [Rúmenum] stuðningsyfirlýsingu. [Hann vildi vita] ef yfirlýsingunni væri beint gegn Rússlandi. Og þá sagði ég honum: „Ég met það ekki svo sem henni sé beint gegn ykkur því ég held að það sé ekki ásetningur ykkar að ráðast á Rúmeníu. Þið hafið alltaf sagt að Bessarabia sé ykkar, en þið hafið…, - aldrei haldið því fram að þið mynduð ráðast gegn Rúmeníu. „Já“ sagði hann mér, en hann vildi vita meira um það hvort þessi stuðningsyfirlýsing…

Upptakan endar í miðri setningu, rétt eftir að það heyrist í hurð opnast.
Es rasseln die Ketten, es dröhnt der Motor,