Verðbólguþróun á Íslandi 1971-1991

Aðfararorð

Nú um stundir er verðbólga eitt af aðalmálunum í umræðunni hér á landi og datt mér því í huga að birta hér hagsögulegt yfirlit í stórum dráttum um þróun verðbólgu hér á landi á ákveðnu tímabili sem var til umræðu í einum tíma í sagnfræðinni í HÍ nú fyrir skemmstu.

Til að geta áttað sig á því efni sem hér er til umfjöllunar er fyrir það fyrsta nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvað hugtakið “verðbólga” gengur út á. Hugtakið “verðbólga” felur í sér í fæstum orðum sagt viðvarandi hækkanir á almennu verðlagi. Í þessu samhengi merkir “viðvarandi” að verðbólgan útilokar árstíðarbundnar og tilviljanakenndar hækkanir. Hækkun almenns verðlags þýðir hins vegar hækkun á fjölbreyttri matarkörfu, þ.e. á verðlagi á almennum nauðsynjavörum.

Sögulegt yfirlit

Árið 1971 var tók vinstristjórn undir forystu Framsóknarflokksins við völdum og var miðstýrð atvinnuuppbygging kjarninn í efnahagsstjórn hennar samfara róttækum breytingum á velferðarkerfinu. Stjórnin lenti í þeim vanda að gæta ekki nægjanlegs aðhalds í ríkisfjármálum sem leiddi til aukinnar verðbólgu sem átti eftir að einkenna áratuginn. Þau þrjú ár sem stjórnin sat var mikill umbrotatími jafn hérlendis sem erlendis, s.s. eldgosið í Heimaey, umrót á alþjóðagjaldeyrismörkuðum og hækkanir á olíuverði árið 1973.

Fyrri hluti valdatímabils stjórnarinnar einkenndist þó af mikilli uppsveiflu og mældist hagvöxtur þá sá næstmesti síðan 1945 með aukningu í landsframleiðlu upp á 13% árið 1971. Viðskiptakjaraþjóunin reyndist mjög hagstæð fyrir Íslendinga á árinu 1972 og fram til síðla árs 1973 vegna hækkunar á verði alls hráefnis, þ.m.t. fisks. Þessi þróun snerist þó við með þreföldun olíuverðs haustið 1973.

Árið 1975 var verðbólgan komin í 50% en hjaðnaði hins vegar árið 1976 og náði sú hjöðnun fram á árið 1977. Ástæða þess var einkum vegna róttækra aðgerða í launa- og verðlagsmálum sem höfðu í för með sér mikla kjaraskerðingu. Vorið 1977 var verðbólgan komin í 25%. Þá um haustið voru undirritaðir svokallaðir “sóstöðusamningar” þar sem laun voru bundin vísitölu og grunnlaun voru hækkuð verulega.

Á árunum 1978-1983 var verðbólga á bilinu í 45-60%. Þar skipti einkum máli áhrif samninganna frá haustinu 1977 ásamt reglulegri gengisfellingu krónunnar á tímabilinu, en einnig hækkun olíuverðs haustið 1979 vegna aukinnar erlendrar verðbólgu.

Við upphaf níunda áratugarins mældist verðbólga 30%. Efnahagsstjórn síðustu ára áttunda áratugasrins hafði einkennst af gengisfellingum og tekjustefnu í smáum og gagnslausum skömmtum. Sú stefna breyttist ekki í upphafi níunda áratugarins. Afli dróst saman árin 1982 og 1983 ásamt auknins atvinnuleysis og aukinni verðbólgu. Stefndi í þriggja stafa verðbólgu er komið var fram á vor 1983.

Um vorið það ár tók ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við völdum. Stefna hennar var að hverfa frá smáskammtalækningum fyrri ára. Greip stjórnin í því skyni til þeirra aðgerða í efnahagsmálum að fella gengið um tæp 15% og banna verðtryggingu (vísitölubindingu) launa um tveggja ára skeið. Ennfremur var tekin upp sú stefna í peningamálum að leggja fyrst og fremst áherslu á að halda genginu stöðugu. Er kom fram á árið 1984 fóru aðgerðirnar að skila árangri og mældist verðbólgan þá um 30%.

Kaupmáttur launa skertist verulega vegna aðgerðanna stjórnarinnar enda verðbólga þá nær þriggja stafa tala. Eftirspurnin eftir vinnuafli hélst þó mikil áfram. Haustið 1984 kom til verkfalls opinberra starfsmanna og samdist um 10% launahækkanir til þeirra sem þó vonlaust var að standa við. Þessu var því svarað af hálfu stjórnarinnar með 12% gengisfellingu krónunnar nokkrum vikum eftir undirritun kjarasamninga.

Nýtt þensluskeið hóf innreið sína upp úr 1984 eftir niðursveifluna ár árunum 1982-1983. Stóð það þensluskeið fram til ársins 1987. Á þessu tímabili jókst kaupmáttur launa um 40% og þar af yfir 20% eingöngu á árinu 1987. Forsenda þessa þensluskeiðs var sem áður mikil aflaaukning auk mjög hagstæðra viðskiptakjara.

Eftirleikurinn
Verðbólga áranna 1984-1985 var um 30% og fór niður í 18-20% árin 1986 og 1987. En ýmis önnur þenslumerki mátti þó sjá. Gengi krónunnar var haldið föstu þrátt fyrir að kostnaðarhækkanir hérlendis væru miklu meiri en gerðist erlendis. Þetta hafði í för með sér gífurlega raungengishækkun. Sjávarútvegurinn gat borið þá hækkun um skeið vegna hagstæðs verð erlendis en að samkeppnisiðnaði var mjög þrengt. Leiddi það til versnandi viðskiptajafnaðar.

Undir lok ársins 1987 voru blikur á lofti á erlendum mörkuðum auk þess sem dökkt var framundan varðandi afla. Aðgerðir stjórnvalda vegna versnandi efnahagsástands árið 1988 voru m.a. þrjár gengisfellingar á árinu auk ýmissa ráðstafana hins opinbera til að stuðla að endurskipulagningu og hagræðingu hjá fyrirtækjum sem voru í rekstarvanda. Verðbólga jókst þó og varð um 26% það ár. Einkenndi samdráttur og stöðnun íslenskt efnahagslíf árin 1988-1993.

Hjörtur J. G. Hjarta
Með kveðju,