Heinrich Schliemann


Þýski fornleifafræðingurinn Heinrich Schliemann hafði ungur að árum mikinn eldmóð fyrir grískri menningu og fylgdi henni eftir með stórkostlegum fundum, sem óneitanlega eru einir þeir merkustu í fornleifasögunni. Ég mun fjalla sér í lagi um fund hans á Tróju og greina frá því sem helst dreif á hans daga.

Heinrich Schliemann var fæddur árið 1822 í Þýskalandi, sonur fátæks prests. Jólin 1829, þegar hann var 7 ára, fékk hann myndskreytta mannkynssögu í jólagjöf frá föður sínum. Hann varð gjörsamlega heillaður af þessari bók og þá sérstaklega mynd einni þar sem Eneas trójukappi flýr úr brennandi Trójuborg með aldraðan föður sinn á bakinu. Drengurinn lýsti því kíminn yfir við föður sinn að þegar hann yrði stór ætlaði hann sér að finna Trójuborg! Faðir hans hló af þessari fullyrðingu drengsins, en hefði betur sleppt því, því að drengurinn átti svo sannarlega eftir að verða sannspár eins og síðar verður greint frá.
Sem barn lærði hann allt um Hómerskviður og gríska menningu frá föður sínum sem kenndi honum mikið og gaf honum fjölmargar bækur um málefnin og hlýddi honum reglulega yfir. Ein saga greinir frá því að þegar Schliemann vann sem afgreiðslumaður í búð nokkurri kom í búðina fyllibytta ein öskrandi upp yfir sig einhverja óskiljanlega þulu. Schliemann varð heillaður af eldmóði mannsins og þegar hann komst af því að þetta var úr Illíónskviðu varð hann enn þá hrifnari og borgaði manninum fyrir að fara með sömu þuluna aftur.


1841 – Ævintýrið byrjar.

Þetta tiltekna ár hélt hann til Hamborgar og réði sig sem vikapiltur á skip sem sigldi til Venezúela. Tveim vikum síðar varð skipið þó fyrir miklum stormi og strandaði við strönd Hollands. Í Hollandi fékk hann vinnu sem sendill á skrifstofu í Amsterdam. Hann bjó þar í hrörlegri íbúð og skemmti sér með því að kenna sjálfum sér tungumál. Fyrr en varði fékk hann þó betri vinnu sem bókari hjá öðru fyrirtæki í borginni sem að byggði upp mikil viðskipti við Rússa. Hann varð mikils metinn hjá fyrirtækinu sínu og innan skamms tíma var hann kominn með sína eigin heildsölu. Árið 1846, 24 ára gamall var hann síðan sendur til Sankti-Péturborgar af fyrirtæki sínu þar sem ári seinna átti hann eftir að stofna út- og innflutningsfyrirtæki. Í kaupsýslugjörðum sínum ferðaðist hann víða, hitti konunga og forseta, og lærði um leið þau tungumál í þeim löndum sem hann gisti í til einhvers tíma, en Schliemann var gríðarlega fær málamaður.
Árið 1864 ætlaði hann loks að veita sér þau forréttindi að heimsækja staðina þar sem talið var að Trója hafi staðið en þess í stað hélt hann í tveggja ára för um heiminn. Eftir þessa heimsreisu ákvað hann að snúa baki við viðskiptalífinu, stórefnaður maður, og snúa sér þess í stað að bernskudraumum sínum um fornleifafræði og eins og kom fram í byrjun, að finna hina mögnuðu borg Tróju.


Uppgröftur Tróju - 1871-1873


Almenn skoðun fræðimanna þess tíma sem Schliemann hóf að leita að Tróju var sú að borgin hefði alls ekki verið til og sagnirnar í Illíónskviðu þar sem greinir frá borginni væru uppspuni frá rótum. Einnig var talið að Hómer væri bara samnefni margra rithöfunda Grikklands hið forna og ekkert mark bæri að taka af honum. En Schliemann lét þó ekki blekkjast og trú hans á sannleiksgildi Hómers stóð óhögguð. Með kviðurnar að vopni hóf hann leit sína að hinni fornu borg. Fyrsti staðurinn sem hann athugaði var staðurinn Búnarbashi í Tyrklandi. Fljótlega sá hann þó að lýsing Illiónskviðu á staðsetningu Tróju gat ekki passað við þennan stað. Samkvæmt henni áttu Grikkir að hafa labbað að skipum sínum 6-7 sinnum á dag, en Búnarbashi var 16 km frá sjó, svo að þetta gat engan veginn passað. Einnig var bærinn sjálfur alltof stór til þess að Akkiles gæti elt Hektor 3 hringi í kringum hann.
Þess í stað beindi Schliemann nú sjónum sínum að hæðinni Hissarlik í vesturhluta dalsins. Staðsetningin passaði við lýsingu Hómers og réði Schliemann þegar í stað 10 tyrkneska vinnumenn til að vinna að uppgreftrinum. Þann 9. Apríl 1870 hófst svo uppgröfturinn á hæðinni. Samtals vann Schliemann af uppgreftrinum í 6 og hálfan mánuð frá 1870-73. Ekki leið á löngu þar til hann kom niður á borgarveggi og ýmsar gersemar og vopn komu í ljós og augljóst var að þarna hafði eitt sinn staðið auðug borg. Gröfturinn hélt áfram og á hverjum degi fundust nýjar gersemar og eitthvað óvænt og furðulegt kom í ljós. Það furðulegasta var kannski að þegar uppgreftri lauk sat hann uppi með heil 9 borgarstæði, minjar um borgir sem hver um sig hafði þurrkast út og risið aftur. Í öðru og þriðja lagi frá botni fann hann leifar gríðarlegra borgarveggja og rústir af geysimiklu hliði. Hann var ekki í nokkrum vafa um að þarna hafi hann fundið Trójuborgina sína.
Seinasta dag uppgraftar kom hann niður á miklar gullgersemar sem hann taldi vera fjársjóð Príamosar Trójukonungs. Hann skipaði konu sinni að senda verkamennina heim og sagði henni að ná í stórt rautt sjal sem hann setti síðan allar gersemarnar í. Hann smyglaði mest öllu úr landi og gaf safninu í Berlín þær og hlaut mikið lof fyrir. Seinni rannsóknir á Tróju leiddu þó í ljós að þetta var alls ekki fjársjóður Príamosar heldur konungs sem var uppi 1000 árum fyrr og einnig var Trója í sjötta jarðlagi neðan frá en ekki 2-3. Þrátt fyrir þetta hafði Schliemann samt sem áður óvefengjanlega sannað að Trója væri til sem reyndist ómetanlegt fyrir vísindin.
Schliemann lét þó ekki alveg staðar numið við Trójufundinn og meðal annarra afreka má nefna mikinn uppgröft á Mýkenu þar sem kom í ljós gröf Agamemmnons og gríma sem kennd er við hann og Ljónahliðið mikla, en ég ætla ekki að fara nánar í þá fundi.

Ljóst er að með fundum sínum hefur Heinrich Schliemann skipað sér á stall með merkustu fornleifafræðingum sögunnar og áhrif hans á söguna eru óvefengjanleg. Hann treysti sögulegri nákvæmni aldagamla sagna frekar en vísindalegum tilraunum og uppskar meira en mörgum vísindamönnum hefði nokkurn tíma dreymt um. Hann sannaði í eitt skipti fyrir öll tilvist Trójuborgar og sýndi fram á að meira er spunnið í fornar sagnir en margur hefði haldið.