Jürgen Kocka skilgreinir samanburðarsagnfræði sem tæki til að „ræða tvö eða fleiri sagnfræðileg fyrirbæri á kerfisbundinn hátt með tilliti til líkinda þeirra og mismuna til að ná sérstöku fræðilegu marki.“ Hér verður rætt um gagnsemi þessarar aðferðar ef einhver er. Hvort hún sé eitt af mikilvægustu tækjum sem sagnfræðingar búa yfir, gagnleg stundum en stundum ekki eða hvort hún sé úrelt og beri að varast. Eitthvað hlýtur hún þó að hafa fært sagnfræðingum, annars hefðu ekki verið skrifaðar jafn margar greinar um hana og raun ber vitni. Hvernig er samanburður notaður í rannsóknum? Hefur hún einhverja annmarka, hverjir eru þeir og hversu alvarlegir eru þeir? Hvenær, ef einhvern tímann, er það góð hugmynd fyrir sagnfræðing að nota samanburð í sinni rannsókn og hvaða aðferðum þarf hann að beita til að sú rannsókn verði vel heppnuð? Þessar spurningar og svör við þeim liggja til grundvallar hér á eftir.

Bakgrunnur
Þó að næstum öll sagnfræði geri ráð fyrir samanburði að einhverju leyti, allavega samkvæmt Marc Bloch , þá er talið að tilraunir til skýrrar og afmarkaðrar notkunnar á aðferðinni sé hægt að rekja til John Stuart Mill. Á fyrri hluta 20. aldar var hún stunduð af nokkrum merkum sagnfræðingum eins og Marc Bloch, Emile Durkheim og Max Weber sem bar saman áhrif trúarbragða á þróun efnahagskerfa. Þessir voru þó undantekningar því flestir sagnfræðingar áttu erftt með að leita að viðfangsefnum og skýringum fyrir utan sitt eigið þjóðríki. Á seinni hluta aldarinnar jukust vinsældir samanburðar í samhengi við aukna áherslu á alþjóðlegt nám eftir seinni heimsstyrjöld og almenna hnattvæðingu. Þó fer það töluvert eftir löndum hversu vinsæl aðferðin er. Til dæmis hefur hún ekki sett stórt mark á greinina í Bretlandi en í Bandaríkjunum hefur hún skipt sköpum.

Aðferðir og kostir
Markmið með samanburðarrannsóknum eru tvíþætt. Í fyrsta lagi eru þær notaðar til að varpa ljósi á hversu einstakt viðfangsefnið er með því að bera það saman við þau sem eru öðruvísi og áherslan er mest á eitt stakt viðfangsefni til að sýna andstæður. Þessi aðferð er vinsælli meðal sagnfræðinga því þeir hafa oft áhuga á því að varpa ljósi á hversu einstakt fyrirbæri er. Í öðru lagi er hann notaður til að sýna líkindi milli tveggja eða fleiri viðfangsefna og þá er yfirleitt lögð jöfn áhersla á hvert viðfangsefni. Þessi gerð er vinsæl meðal félagssögufræðinga. Þessar tvær gerðir skiptast svo í nokkra undirflokka. Umlykjandi samanburður er notaður til að skýra mun á fyrirbærum sem deila grunni. Þetta á við um samanburð á ýmsum hugmyndum. Til dæmis ef leitað væri að mismun á milli þjóðernisstefnu í tveimur löndum þyrfti að viðurkenna að þjóðernisstefnur eiga alltaf eitthvað sameiginlegt. Afbrigðis samanburðarrannsóknir leitast við að finna mun á nokkrum viðfangsefnum sem eru þó hluti af sama fyrirbærinu. Rannsóknir á fasisma falla undir þessa gerð því fasismi er ákveðið fyrirbæri en hefur þó ákveðin afbrigði. Þetta fellur undir seinni yfirflokk samanburðarrannsókna en umlykjandi samanburður fellur undir fyrri yfirflokkinn.

Gagnsemi samanburðar í sagnfræði er mikil og Jürgen Kocka gerir greinarmun milli fjögurra notkunarmöguleika á samanburði í sagnfræði. Hann telur aðferðina vera leiðbeinandi., samanburðurinn hjálpar til við að koma auga á spurningar sem kynnu annars ekki að vakna. Marc Bloch, sem sérhæfði sig í rannsóknum á landbúnaði, notaði samanburð á Englandi og Frakklandi á 16. til 19. öld til að komast að mikilvægum breytingum í eignarrétti á landi í Provence héraðinu í Frakklandi. Hann hafði fyrst rannsakað breytingar í Englandi og síðan dregið þá ályktun að eitthvað hliðstætt hefði líklega gerst í Frakklandi. Þarna fékk hann rannsóknarefni sem honum hefði aldrei dottið í hug að athuga eftir öðrum leiðum. Afleiðingin var sú að saga héraðsins var endurskrifuð með nýjum upplýsingum. Hér á Íslandi þar sem við teljum okkur hafa sérstaklega einstaka sögu og því gæti verið erfitt að ímynda sér aðstæður þar sem þetta gæti komið að notum. Sérstaklega á þetta viðhorf við um þjóðveldisöldina og það óvenjulega konungslausa stjórnarfar sem ríkti. Samt væri hægt að spyrja hvaða önnur samfélög voru laus við framkvæmdarvald? Var blóðhefnd líka tæki íbúanna þar til að ná fram einhvers konar réttlæti? Blóðhefndin er vítahringur og hægt væri að spyrja hvort áhrif hennar og endalok séu svipuð í öðrum samfélögum þar sem hún tíðkaðist.
Lýsandi samanburðarsagnfræði er notuð til að skýra útlínur einstakra tilfella með því að bera þau saman við önnur. Dæmi um þetta eru öll fyrirbæri sagnfræðinnar sem voru sérstök eða einstök. Gott dæmi um þetta er þýska Sonderweg leiðin frá aðalsveldi til lýðræðis. Þar yrði þessi partur af sögu Þýskalands borinn saman við önnur ríki og rannsakað hvað er líkt og hvað er ólíkt við leið þeirra frá einu stjórnarfyrirkomulagi til annars. Þegar viðfangsefni rannsóknar eru af þessari gerð þá er samanburður óhjákvæmilegur.

Greinandi nálgunin er nauðsynleg til að fjalla um hversdagslegri málefni. Dæmi um þetta eru ýmis þróunaratriði milli samfélaga í heimssögunni eins og t.d. uppgötvun vísindalegrar aðferðar. Þessi aðferð er líka notuð til að gera sagnfræðilegar tilraunir. Emile Durkheim hafði miklar væntingar til þessarar aðferðar og leit á hana sem jafngildi hinnar vísindalegu tilraunar í náttúruvísindum. Tilgangurinn væri þá að einangra breyturnar og sanna orsakasamhengið. Það er þó ekki hægt að taka fullkomlega mark á niðurstöðum slíkra tilrauna því að það er ekki hægt að setja upp tilraunir og láta bara eina breytu vera öðruvísi og því þarf hálfpartinn að giska á áhrif hverrar og einnar breytu. Þrátt fyrir þessa vankanta er vel hægt að nota þessa aðferð til að sigta burt slæmar skýringar. Frábært dæmi um þetta er uppganga nasismans í Þýskalandi. Vinsæl skýring, sem skiljanlegt er við fyrstu skoðun að fólk hafi treyst á, er að efnahagskreppan hafi verið höfuðorsökin. Hins vegar fæst með einföldum samanburði við Bandaríkin þar sem efnahagskreppan var jafn slæm, sú niðurstaða að þetta geti ekki staðist. Bandaríkin voru aldrei nálægt því að verða fasísk.

Síðasta notkun samanburðar hjálpar svo við að fjarlægja sig aðeins frá viðfangsefninu og þeirri sýn sem maður hefur byggt upp með sjálfum sér á söguna. Ef maður ber sína eigin söguskoðun saman við annarra getur maður þurft að endurskoða viðhorf sín. Sumir geta haft kreddufullar skoðanir, vanans vegna, og þegar maður ber þær saman við aðrar þá er ekki víst að þær standist samanburðinn og í það minnsta rennur upp fyrir manni ljós að þó að maður sé sérfræðingur í ákveðnu efni eru yfirleitt til önnur sjónarhorn. Þetta er ákaflega gagnlegt þar sem þetta eykur víðsýni og umburðarlyndi sagnfræðinga fyrir hvor öðrum ásamt því að hvetja þá til að færa betri rök fyrir máli sínu í rökræðum við aðra sagnfræðinga.

Samkvæmt Chris Lorenz er sagnaritun sú tegund sagnfræði sem þarf mest á samanburði að halda. Hann gerir grein J. L. Granatstein að víti til varnaðar. Grein Granatstein, Who Killed Canadian History? fjallar um áhugaleysi Kanadamanna um sína eigin sögu. Íbúar landsins finna þar af leiðandi ekki fyrir samkennd og íbúar þess hætta að vera þjóð. Greining hans á vandanum nær ekki út fyrir þjóðríkið og því felst í henni að vandamálið sé einskorðað við landamæri Kanada þó að greiningin innihaldi vel þekkta þætti úr öðrum löndum.

Samanburður er notaður til að gagnrýna skýringar sem takmarkast við þjóðríkið, leggja áherslu á margbreytileika sögunnar, hvetja til gagnrýnnar hugsunar gagnvart hnattrænum skýringarmyndum og setja samfélög í samhengi með því að bera þau saman við önnur samfélög til að sýna hvað er óvenjulegt og hvað það á sameiginlegt með öðrum.

Erfiðleikar við samanburð í sagnfræði
Hver sem er ætti að sjá notkunarmöguleika þessarar aðferðar fyrir sagnfræðina. Umræðan um alræðisstefnur, eitt af stærstu málum 20. aldarinnar, hefur til að nefna dæmi aðlagað sig að samanburðarsagnfræði. Samanburður er besta tæki sem sagnfræðingar búa yfir til að prófa kenningar og skýringar. Ástæðurnar fyrir því að samanburður hefur ekki verið meira notaður í sagnfræðirannsóknum en raun ber vitni eru nokkrar. Ef það á að rannsaka fyrirbæri frá mörgum löndum þá þarf sá sem rannsakar að kunna mörg tungumál til að skoða frumheimildirnar eða reiða sig á eftirheimildir. Þó margir sagnfræðingar geti lesið fleiri en móðurmál sitt eru færri sem geta lesið asísk mál eða önnur fjarlæg. Þetta takmarkar mjög fjölda atriða sem hægt væri að bera saman. Að treysta of mikið á eftirheimildir er heldur ekki góð sagnfræði og er ekki mögulegt í alvarlegum rannsóknum. Þar að auki er dýrt að þurfa kannski að ferðast um allan heiminn til að ná í frumheimildirnar. Það tvöfaldar alla vinnu sagnfræðings að bera saman tvö svæði í stað þess að gera úttekt á einu. Það er erfitt að finna frumheimildir í tveimur löndum sem eru sambærilega og þegar eftirheimildir eru lesnar verður að byrja á því að kanna vel og bera saman ríkjandi hefðir í rannsóknum. Sagnfræðingar á einu svæði hafa kannski spurt annara spurninga, haft aðrar forsendur og önnur sjónarhorn. Það þarf einnig að vara sig á allskonar misræmi milli svæðanna sem geta skekkt heildarmyndina. Það er ekki alltaf hægt að átta sig á misræmi með því að lesa um það heldur verður rannsakandinn stundum að dveljast á því svæði sem hann ætlar sér að skilja betur.

Sá sem notar samanburð í sinni rannsókn þarf að vara sig á tíma og rúmi. Landamæri eru sérstaklega varhugaverð því þau eru sköpuð af mönnum og af mismunandi ástæðum og því er hættulegt að gera ráð fyrir því að þau myndi ákjósanlegustu svæðin til samanburðar. Einnig þarf að færa góð rök fyrir því hvaða tímabil er notað. Yfirleitt er sami tími notaður fyrir þau svæði sem borin eru saman en nokkur atriði gerast á mismunandi tíma á mismunandi svæðum og því er líklegra betra að nota ekki sama tímabil á hverju svæði. Þó verður að gæta hófs þegar þessi aðferð er notuð því að ef viðfangsefnin eru of fjarlæg getur það tekið allan tilganginn úr því að bera saman. Það er á þessum slóðum sem sagnfræðingum er hætt við að gera tímaskekkjur. Það þarf að passa sig á notkun hugtaka og kenninga eins og Samuel P. Huntington komst að eftir bók sína um átök menningarheima. Hann setti upp sína rannsókn þannig að viðfangsefni hans, Vesturlönd og hinn íslamski heimur, voru ósamrýmanleg í stað þess að kanna fyrst flæði og samskipti milli svæðanna og svo að búa til hugtakagrind. Stefan Berger kallar tungumál jarðsprengjusvæði. Hugtök geta virst vera þau sömu í mismunandi tungumálum en oft er mikill munur í merkingu þeirra. Jafnvel grundvallarhugtök eins og miðstétt geta haft mismunandi merkingu milli landa. Íslenskir sagnfræðingar ættu að þekkja þetta vel því að öll hugtök sem tengjast stétt hljóta að gilda öðruvísi á Íslandi því hér var stéttarkerfið mjög frábrugðið því sem gerðist á meginlandi Evrópu. Það skapar líka vandamál að í samanburðarrannsóknum er gert ráð fyrir að það sé hægt að skilja viðfangsefnin algjörlega að þegar þau eru í samhengi hvort við annað. Flæði frásagnarinnar er truflað. Það þarf líka alltaf að draga ákveðin atriði úr viðfangsefninu til að bera saman. Þegar þetta er gert eru hlutir teknir úr samhengi en það er mjög mikilvægt í sagnfræði halda þeim í samhengi.

Þegar 10. áratugur síðustu aldar hófst og heimurinn skiptist ekki lengur í tvær andstæðar blokkir fóru sagnfræðingar að líta öðruvísi á mörg sagnfræðileg álitamál og aðferðir breyttust. Þetta gerðist í kjölfar alþjóðavæðingar og afleiðingin er aukin áhersla á svokallaða flækjusagnfræði (e. entanglement history) (f. historie croiseés) sem Kocka telur vera í andstöðu við hefðbundna samanburðarsagnfræði. Hann tekur dæmi af samanburði á Evrópu og heimi Araba þar sem gagnkvæm áhrif beggja svæða væru mun áhugaverðari heldur en samanburður á því hvað er líkt og hvað er ólíkt milli þeirra. Þannig er tekin saga tveggja svæða og skoðuð í samhengi, hvernig þau eru flækt saman með tilliti til fólksflutninga, verslunar og þess háttar í stað þess að fjalla um þau sem tvær stakar og einangaraðar einingar. Helsta gagnrýnin sem flækjusagnfræði ber á hendur samanburðarsagnfræði er sú að hún er of greinandi, tekur hluti úr samhengi og einangrar þá til greiningar í stað þess að sjá þá eins og þeir raunverulega eru, hluti af stórri flækju. Þetta er aðferð sem hjálpar til við að losa sagnfræðinga undan oki þjóðríkisins. Mörg viðfangsefni sagnfræðinnar eru þess eðlis að ef þau eru ekki skoðuð í samhengi við aðrar þjóðir og önnur svæði þá er ekki hægt að segja nema hálfa sögu. Þetta á sérstaklega við hugmyndasögu því hugmyndir og stefnur er erfitt að skilja ef jarðvegurinn sem þær spretta úr er ekki skoðaður. Þetta er gagnlegt á Íslandi þar sem við höfum yfirleitt það hlutverk að taka við áhrifum frá öðrum löndum frekar en að vera upphafsstaður nýrra hugmynda.

Niðurstöður
Það er greinilegt að samanburður er nothæft tæki fyrir sagnfræðinga og eitthvað sem allir ættu að reyna að ná tökum á sem ætla sér að gerast fræðimenn. Tilgangur samanburðar er margþættur en skiptist þó í tvö meginflokka eftir því hvort verið sé að sýna að viðfangsefnið sé einstakt eða hvort sé verið að varpa ljósi á sameiginlega þætti meðal viðfangsefna. Helstu kostir samanburðar eru að hann varpar nýju ljósi á viðfangsefni, hægt er að nota hann til að gera hálfgerðar sagnfræðilegar tilraunir og hann getur hjálpað sagnfræðingum við að útvíkka sjónarhorn sitt og losna við kreddufulla söguskoðun. Stundum er samanburður svo mikilvægur að hörð gagnrýni er mjög líkleg til að fylgja ef hann er ekki notaður í þeim tilfellum.

Þrátt fyrir þetta er margt sem ber að varast þegar samanburður er notaður. Helsta vandamálið er samrýmanleiki þeirra viðfangsefna sem bera á saman. Það getur verið erfitt að finna heimildir sem fjalla um viðfangsefnið á sama hátt og eftirheimildir sem mótast af mismunandi söguskoðunarhefðum geta haft mismunandi sjónarhorn á viðfangsefnið. Hugtök er oft erfitt að þýða beint á milli tungumála og því verður að hafa varann á og ekki taka því sem gefnu að hugtök þýði nákvæmlega það sama og maður er vanur. Einnig ber að minnast flækjusagnfræði sem hefur gagnrýnt samanburðartæknina fyrir að taka hlutina of mikið úr samhengi í stað þess að skoða frekar flæði milli viðfangsefna.


Heimildaskrá

Berger, Stefan. Writing history : theory & practice. London, 2003.

Braembussche, A. A. van den. „Historical Explanations and Comparative Method : Towards a Theory of the History of Society.“ History and theory 28:1. Middletown Connecticut, 1998.

Kocka, Jürgen. „Comparison and beyond.“ History and theory 42:1. Middletown Connecticut, 2003.

Lorenz, Chris. „Comperative Historiography : Problems and perspectives.“ History and theory 38:1. Middletown Connecticut, 1999.

Schönpflug, Daniel. „Histoires croisées: François Furet, Ernst Nolte and a Comparative History of Totalitarian Movements.“ European History Quarterly 37:2. London, 2007.