Rómverjar lögðu mikið kapp á að þróa byggingartækni og aðferðir við að byggja mannvirki. Þeir voru frumkvöðlar á ýmsum sviðum í byggingarlist og enn í dag má greina áhrif þeirra þar. Leituðust þeir við að fegra Róm og gera hana að einni af hinum mestu borgum Miðjarðarhafslanda. Meðan Rómaveldi var í svo mikilli útþenslu gátu þeir ekki verið að þróa sína eigin list og fengu hana því lánaða hjá ríkjum sem þeir höfðu unnið. Þegar þeir höfðu fullkomnað byggingarstíl sinn voru þeim engin takmörk sett. Róm var í upphafi dæmigerð etrúsk borg, reist dágóðan spöl frá sjó, uppi á hæð og umkringd borgarmúr.
Frá byrjun Rómar hefur byggingarstíllinn stuðst við etrúska menningu og listasköpun Grikkja. En Rómverjar hrifust ekki af hinu reglubundna og formföstu hönnun í byggingum Grikkja. Þeir vildu skapa eitthvað nýtt með því að sameina allar gerðir súlna s.s. dórískar, jónískar og kórinþískar en þeir bættu einnig við það boganum frá Etrúrum.
Bogaformið var í miklu uppáhaldi hjá Rómverjum vegna þess hvernig fullkomnun hringsins náði að njóta sín og verkfræðilegra yfirburða þess. Með samliggjandi bogahleðslum er hægt að beina miklum þunga beint á undirstöðurnar á báðum endum bogans. Þannig nýttu þeir sér bogann óspart í hverskonar mannvirki sem og vatnsleiðslur. Með boganum var hægt að leggja vatnsleiðslur tugi kílómetra án þess að eyða í það miklum efniviði. Hvelfingin er þó upprunalega komin frá Mesópótamíu og hafði komið þaðan frá Etrúrum löngu áður en Róm varð til.
Á tímum Ágústusar var ekki byrjað að byggja úr tígulsteini, þá var burðarveggurinn yfirleitt úr blöndu af steinlími, steypumolum og smásteinum. Lag af þessari blöndu var lagt lárétt yfir múrinn og annað lag af múrsteinum sett yfir o.s.frv. Að utan var veggurinn klæddur öðru efni sem hafði næstum engin áhrif á styrkleika eða burðarþol. Á þriðju til annari öld f.Kr. var rómverska steinsteypan fullþróuð. Hún var samsett af kalki og eldfjallaösku. Uppgötvast hafði verið við hafnargerð í Pozzuoli að steinlím,eldfjallaaska og vatn blandað saman myndar harða steinsteypu. Steinsteypan auðveldaði nýja byggingartækni verulega því nú var hægt að móta steypuna í form sem menn höfðu ekki hugsað sér áður og gaf þannig rómverskum arkítektum og byggingarmeisturum lausan taum.
Vatnsleiðslunum var ætlað að veita neysluvatni úr nærliggjandi fjalllendi niður til þéttbýlis, en það var ein af þeirri þjónustu sem ríkinu bar að veita skattborgurunum. Þær voru jafnan nefndar eftir frægum fornum Rómverjum eða einhverju sem var þeim kært. Vatnsleiðslurnar fóru yfir dali, mishæðir og ár og var þeim ekkert ókleift í þeim málum. Í fornöld var Róm betur séð fyrir vatni en nokkurri annarri borg, jafnvel betur en nokkurri nútímaborg. Þó svo að vatnsleiðsurnar gætu flutt nálægt þúsund lítrum á mann á sólarhring, þá skorti hinn almenna Rómverja ævinlega vatn til daglegrar notkunar. Vatnið sem kom til Rómar var skipt í þrjá jafna hluta; einn fyrir opinberar tjarnir og gosbrunna, einn fyrir opinberu baðhúsin og einn fyrir einkaneyslu. Hinir ríku fengu hinsvegar einkum vatn til einkaneyslu því það þurfti að greiða fyrir það.
Hið venjulega rómverska hús yfirstéttarfólks var á einni til tveimur hæðum, ferkantað og byggt úr múrsteini eða steini með timburþaki. Það var inngangur á öðrum endanum og þaðan var gengið inn í yfirbyggðan inngarð er nefndist „Atríum“. Þar var op sem bæði veitti inn birtu og neysluvatni í laug sem þar var fyrir neðan. Til hliðanna voru síðan annað hvort svefnherbergi(cubiculum) eða eldhús(culina). Ef gengið er framhjá fyrsta inngarðinum er annar stærri og öllu mikilfenglegri, oftast með jurtum, styttum og gosbrunnum. Milli þessara garða var námsaðstaða(tablinum) sem var opin á báðum endum en hægt var að loka þeim annars vegar með tjöldum eða harmonikkuhurðum. Jafnvel hinir ríku leigðu hluta af húsinu sínu til búðaraðstöðu(taberna). Hið venjulega rómverska hús í Róm var hinsvegar margra hæða hús, allt upp í tuttugu metra. Þau voru mjög ótraust og var mikið um að þau hryndu. Þau voru oftast með einn sameiginlegan garð fyrir alla.
Hringleikahús Rómverja voru yfirleitt sporöskjulaga þó nafnið gefi annað til kynna. Þó hringleikahúsin séu lík þeim grísku var skipulag þeirra gerólíkt. Grikkir reistu leikhús sín í lægðum en Rómverjar reistu þau á jafnsléttu. Undir sætunum var komið fyrir flóknu en fullkomnu kerfi af vængjastigum og göngum. Var þessu háttað þannig að fólk streymdi út úr hringnum í allar áttir. Neðst í hringleikjahúsunum voru dórískar súlur síðan jónískar og efst voru kórinþískar. Hægt var að strengja sólhlíf yfir hringleikahúsin með gati í miðjunni og þykir nær óskiljanlegt hvernig þeir fóru að því að reikna út svo óreglulegt form.
Þegar Rómverjar hófust fyrst handa á hofum voru þau í etrúskum stíl sem hafði mótast af grískum áhrifum en í sumum atriðum voru þau einu sinnar tegundar. Rómverjar vildu hafa hof sín stærri svo að súlnarið var aðeins fremst en ekki allt í kring .Einnig hækkuðu þeir sökkulinn sem hofið stóð á til að virðast tignarlegri. Á tímum Ágústusar og Tíberíusar voru flest hof reist og var þá í miklum mæli farið að reisa hringlaga hof. Samgyðishofið Panþeon var í upphafi reist í hinum hefðbundna ferninglaga stíl en hún lét mikið á sjá eftir mikla brunann árið 64. En á árunum 120-124 lét Hadríanus rífa gamla hofið og reisti hið hringlaga hvolf sem stendur nú. Hefð var fyrir því að halda í fyrrverandi sérkenni bygginga og þessvegna stendur þar að Marcus Agrippa hafi reist það svo að það sé ekki satt. Ástæða þess að Panþeon hofið stendur enn er vegna þess að það var gert að kristinni kirkju á 7. öld f.Kr.
Vegirnir voru nauðsynlegir fyrir vöxt Rómaveldis þ.e. búa til greiða leið fyrir herfylkingar svo þær kæmust á sem skemmstum tíma á áfangastað. Mörg mismunandi undirlög voru lögð fyrst og síðan voru þeir lagðar stórum óreglulegum graníthellum. Samkvæmt tólf töflu lögunum var kveðið á að sérhver opinber vegur skyldi vera 2,45m á breidd ef þeir lágu beint en helmingi breiðari eða 4,9m ef þeir væru í beygju. Vegirnir voru oftast nefndir eftir sensornum sem skipaði fyrir um byggingu vegarins. Ef það var ekki vitað þá var vegurinn nefndur eftir því svæði sem hann var á eða stefndi til. Rómversku vegirnir voru svo vel lagðir að það mætti segja að ekki voru notaðir neinir aðrir vegir í V-Evrópu út allar miðaldirnar.
Rómverjar höfðu meira vægi á hinum reglubundnu og stílföstu byggingarhefðum í þverhlöðum, lágmyndum og súlnariðum . Dórískar og jónískar súlur voru ekki í tísku lengur og með yfirmennsku brjálæði keisaranna þróaðist nýr, sjálfstæðari stíll og kórinþíska súlan varð einráð og bogahurðir og bogagluggar tóku við. Ýmsir samverkandi þættir gerðu Rómverjum kleift að vera ávallt skrefinu framar í byggingartækni og má þar helst nefna vegi, vatnsleiðslur og þróun steinsteypunnar. Segja má að Rómverjar könnuðu út í ystu æsar alla möguleika hvelfingarinnar og tel ég að það hafi tekist nokkuð vel.