Saga Tinna í stuttu máli Hér er á ferðinni gömul Menntaskólaritgerð sem ég samdi ásamt félaga mínum, Geir Ármanni Gíslasyni, í áfanganum fjölmiðlafræði 203 líkast til. Ýmislegt mætti eflaust færa til betri vegar, bæði hvað varðar málfar og efnistök, en ég læt textann hér standa óbreytan. Ég veit að þetta eru ekki merkilegasta ritgerð í heimi, hvorki að uppbygginu né efnið sjálft, enda ritgerðin unnin á bölvuðu hundavaði á sínum tíma, en sökum greinahallæris á áhugamálinu ákvað ég að láta hana flakka. Vonandi njótið þið vel.



Þegar Tinni hélt til Sovétríkjanna þann 10. janúar 1929 á síðum belgíska unglinga- blaðsins, Le Petit Vingtiéme, grunaði sennilega fæsta hversu mikil frægð biði hans. Tinni átti á dögunum 75 ára afmæli og lætur aldurinn hvergi á sig fá. Á þessum tíma hefur Tinni farið um víðan völl og komist í kynni við margar skrautlegar persónur. Tinni hefur til að mynda komið á tunglið, ferðast í Norður-Íshafið, komið til Tíbet, Ameríku, Afríku auk marga annarra landa, tekist á við ævintýri neðansjávar og margt margt fleira.

Höfundur Tinna bókanna var Belginn Hergé. Hergé hét réttu nafni Georges Remi en hann tók sér Hergé sem listamannsnafn, en Hergé er franski framburðurinn á R.G. sem eru upphafsstafir hans afturábak! Hann var fæddur 22. maí 1907 og dó 3. mars 1983, eftir langvarandi veikindi sem rekja mátti til blóðleysis. Hann hafði þá skrifað 23 heilar Tinnabækur og skildi eftir sig þá 24. ókláraða. Hún heitir á íslensku Tinni og leturlistin, eða Tintin and the Alph-art á ensku. Hún var gefin út árið 1986 og síðan endurútgefin 2004, þá betur frágengin. Blóðleysið var ekki það eina sem hrjáði Hergé en hann fékk taugaáfall a.m.k. tvisvar og fékk síðan gjarnan martraðir eftir að hann hafði komist yfir taugaáföllin. Svissneskur sálfræðingur ráðlagði Hergé að hætta að vinna að Tinna og þá myndi hann jafna sig en í staðinn varð hann enn einbeittari og samdi bókina Tinni í Tíbet. Sú bók endurspeglar martraðir hans á listrænan hátt. Martraðirnar voru fullar af hvítu en Hergé notfærði sér það þegar hann skapaði ógnvekjandi, en jafnframt stórfenglegt umhverfið í bókinni. Veikindi Hergé gerðu það að verkum að oft leið nokkuð langur tími á milli bóka.
Hergé er ávallt eini höfundurinn sem skráður er fyrir sögunum um Tinna. Því fer þó fjarri að hann hafi verið algjörlega einn um það að skapa Tinna. Ævintýri Tinna komu ekki út sem bækur í fyrstu, heldur birtust þau í hlutum í teiknimyndablöðum. Með vaxandi vinsældum Tinna annaði Hergé ekki lengur eftirspurn, en blaðið kom út vikulega, og fékk því til liðs við sig ýmsa aðstoðarmenn til þess að sjá um smáatriði, endurteiknun og litun og fleira í þeim dúr þegar hann hafði ekki tíma til þess sjálfur. Sumir þessara aðstoðarmanna vildu fá sitt nafn á kápurnar en Hergé tók það aldrei í mál enda aðalhugmyndasmiður bókanna. Frá og með bókinni Blái lótusinn lagði Hergé á sig mika vinnu til þess að hafa sögurnar sem réttastar og t.d. kynnti hann sér menningu Kína til hlýtar áður en hann hófst handa við Bláa lótusinn. Einn helsti aðstoðarmaður Hergé var Edgar Pierre Jacob en hann pressaði mjög á Hergé um að fá sinn hluta af heiðrinum. Það fór að lokum svo að hann hætti að vinna við Tinna vegna deilna við Hergé, en hélt áfram að skrifa í blaðið. Hann er höfundur bókanna um Blake og Mortimer.

Margar eftirminnilegar persónur hafa litið dagsins ljós í gegnum tíðina í Tinnabókunum, og sennilega þykir sumum nokkrar þeirra vera orðnar ódauðlegar. Fyrstan ber að sjálfsögðu að nefna Tinna sjálfan. Tinni er ungur blaðamaður (þó hann skili aðeins inn einni frétt alla sína tíð!) frá Belgíu, en Hergé reyndi þó að gera hann alþjóðlegri með árunum og tengja hann sem minnst við ákveðin lönd til þess að gera hann meira aðlaðandi fyrir lesendur um allan heim.Tinni býr á Labradorvegi 26, í borginni, en aldrei kemur fram hver sú borg er. Tinni er frekar litlaus persóna, sérstaklega miðað við aðrar persónur í bókinni. Með tímanum fóru að koma fram nýjar persónur í bókunum til að sjá um húmorinn. Hann stígur aldrei feilspor eða gerir eitthvað af sér sem leiðir til mistaka sem hindra hann í gjörðum sínum. Hann er einnig mikill bindindismaður sem hvorki drekkur né reykir, þrátt fyrir mörg boð. Framan af kom lítið fram um persónuleika Tinna en eftir því sem árin liðu fór Hergé að fá leið á persónu Tinna. Samhliða því fór að koma meira fram um persónulega hagi hans, eins og t.d. það að hann ók um á skellinöðru og stundaði jóga í frítíma sínum. Mörgum aðdáendum fundust það svik hjá Hergé og þeim fannst hann vera að skemma þá hlutlausu ímynd sem búið var að byggja upp af Tinna. Eftir að Hergé fékk leið á Tinna minnkaði ævintýraþrá hans og hann hætti að leita ævintýrin uppi. Þetta átti þó bara við allra síðustu bækurnar.

Tinni hefur sérstakt útlit og má allaf þekkja hann á hárgreiðslu hans, en allt hárið er mjög slétt og fellt fyrir utan toppinn sem stendur alltaf beint uppí loftið. Tinni skipti oft um föt í sögunum, en það er ekki mjög algengt í myndasögum. Hann klæðist líka staðbundnum fötum eftir því hvar hann er staddur, t.d. er hann í kúrekafötum í Tinni í Ameríku og í hefðbundum kínverskum fötum í Bláa Lótusnum. Frá og með bókinni Leyndardómur Einhyrningsins var Tinni þó nánast alltaf í ,,einkennisbúning” sínum, í blárri peysu og hvítri skyrtu undir með kragann uppúr peysunni, í brúnum kvartbuxum og háum hvítum sokkum. Í síðustu sögunni, Tinni og Pikkarónarnir, er Tinni hins vegar í brúnum gallabuxum og vilja margir meina að það sé ástæðan fyrir takmörkuðum vinsældum þeirrar sögu! Allt frá fyrstu sögunni hefur ein persóna ávallt fylgt Tinna, en það er hundurinn hans Tobías. Tobíasarnafnið er þó bara notað á ögurstundum og þekkja hann sennilega flestir undir nafninu Tobbi. Tobbi er traustur hundur og fylgir Tinna hvert sem hann fer. Hann fær gjarnan línur en þær eru þó bara til gamans gerðar fyrir lesendur. Tobbi er sem sagt ekki talandi hundur.

Önnur stór persóna, sem er í uppáhaldi hjá mörgum lesendum, er Kolbeinn Kaldal, sem er þó oftast þekktur sem Kolbeinn Kafteinn, en hann kom fyrst fram á sjónvarsviðið í bókinni Krabbinn með gylltu klærnar. Hann var upprunalega aðeins kjánalegur karakter sem Tinni átti oft í stökustu vandræðum með að hafa stjórn á, en með tímanum varð hann þó siðmenntaðari og alvarlegri, og jafnvel álíka hetja og Tinni. Meðan að Tinni er alvarlegur og rólegur og sér um spennuna í bókunum, sér Kolbeinn um gamansömu hliðina. Kolbeinn býr á stóru sveitasetri sem nefnist Myllusetur og hefur einkaþjón þar sem nefnist Jósep. Í seinni sögum dvelst Tinni oft að Myllusetri og hafa verið kenningar á lofti um það að hann og Tinni séu í raun ástmenn, en hér skal þó ekki fjölyrt um það! Kolbeinn er frekar drykkfeldur, og er viskí í miklu uppáhaldi hjá honum og þá sérstaklega tegundin Loch Lomond, hann getur hreinlega ekki án þess verið. Hann reykir líka mikið, og þá pípu eins og sönnum sjóara sæmir. Einnig er hann þekktur fyrir sín gríðarlega skemmtilegu blótsyrði, sem í raun eru þó engin blótsyrði og því algjörlega við hæfi barna. Flestir ættu að kannast við setningar eins og ,,gráúldnar grásleppur frá Grindvík!” ,,billjón baneitraðir beinhákarlar frá Bíldudal” ,,fari það í milljón marglyttur og trilljón tindabykkjur” og fleiri setningar í þeim dúr. Eins og sést stuðla þessar setningar en Tinnabækurnar eru listilega þýddar af Lofti Guðmundssyni. Þess má til gamans geta að á frummálinu heitir Kolbeinn Captain Haddock, en sagan segir að Hergé hafi ákveðið að kalla hann Haddock, sem á ensku þýðir ýsa, eftir að konan hans sagði honum að þetta þýddi ,,dapur enskur fiskur.” Í viðtali 1971 viðurkenndi Hergé að hann héldi orðið meir uppá Kolbein heldur en Tinna.

Ekki væri hægt að tala um Tinnabækurnar án þess að minnast á prófessor Vandráð. Vandráður en óneitanlega mjög gáfaður og finnur upp marga hluti sem notaðir eru í bókunum, en þar sem hann heyrir mjög illa og er einnig mjög utan við sig verður hann óhjákvæmilega frekar kjánaleg persóna. Slæm heyrn hans gerir það að verkum að hann endurtekur mjög gjarnan það sem sagt er við hann kolvitlaust. Einnig heldur hann að Kolbeinn sé mjög hrifinn af einni uppfinningu hans sem er pilla sem gerir áfengi viðurstyggilegt á bragðið, en það er allt byggt á misskilningi sökum heyrnaleysis. Þetta er ekki eina dæmið um misskilning þeirra á milli. Sjálfur heldur Vandráður því fram að hann heyri nokkuð vel en staðreyndin er sú að hann er nánast heyrnlaus. Í bókinni Í myrkvum Mánafjöllum (þar sem þeir félagar fara til Tunglsins á eldflaug Vandráðar) notar Vandráður heyrnatæki og er í þeirri bók mun alvörugefnari en venjulega, og alls ekki eins utan við sig. Í næstu bók er ekkert heyrnatæki og prófessorinn nákvæmlega jafn kjánalegur og áður. Einn hlut skilur Vandráður aldrei við sig, en það er pendúllinn hans og hann ráðfærir sig gjarnan við sveiflur hans þegar kemur að ákvarðanatökum, sem verður að teljast í nokkru ósamræmi við annars mjög vísindalega hugsun hans.

Margar aðrar persónur hafa verið fastagestir í bókunum, eins og t.d. óperusöngkonan Væla Veinólína og hinir óborganlegu lögreglumenn Skapti og Skafti. Þrátt fyrir að líta út fyrir að vera eineggja tvíburar og eins klæðaburð eru þeir víst ekkert skyldir! Þeir eru ótrúlegir hrakfallabálkar og sú staðreynd að þeir skuli starfa sem lögreglumenn er með öllu óskiljanleg. Taktar þeirra minna óneitanlega svolítið á franska spæjarann og hrakfallabálkinn Clouseau, sem sumir kannski þekkja betur undir nafninu Bleiki Pardusinn.

Sögurnar um Tinna voru teiknaðar í eftir svokallaðari hreinlínustefnu. Sögurnar eru rökréttar en samt nokkuð ævintýralegar á köflum. Persóna Tinna tók aldrei neinum sérstökum útlitsbreytingum en í samanburði við persónur sem koma fram í seinni sögum sést hvernig teiknistíll Hergé hefur þróast, þar sem þær persónur eru flestar mun flóknari í útliti. Upprunalega komu sögurnar út í svarthvítu en með tilkomu litaprentunar voru þær allar endurútgefnar og jafnframt endurteiknaðar. Hergé þótti þá sumar sögurnar ekki í takt við tíðarandann og uppfærði þær þá. Breytti nöfnum, þjóðernum, staðarheitum og fleira í þeim dúr, og safnaði samhliða því nýjum og betri heimildum fyrir sögurnar. Mikil heimildaöflun varð nokkurs konar einkennismerki Hergé með árunum. Myndirnar eru ekki það eina sem skiptir máli í sögunum um Tinna en söguþráðurinn er alltaf djúpur og vel ígrundaður, og er honum vel fylgt eftir með vönduðum texta. Öll smáatriði komast vel til skila og má vel lesa úr svipbriðgum persónanna hvernig þeim líður hverju sinni.

Eins og áður sagði eru nú liðin 75 ár frá því að Tinni kom fyrst fram á sjónvarsviðið en hann er engu að síður ennþá gríðarlega vinsæll og eru bækurnar um hann enn á óskalistum marga barna fyrir jólin. Í Belgíu er gríðarstórt teiknimyndasafn þar sem Tinni er í aðalhlutverki, árið 1999 var gefið út frímerki með Tinna og Tobba sem seldist upp á nokkrum klukkutímum og í tilefni 75 ára afmælisins gáfu Belgar út 10 evru mynt með mynd af Tinna úr silfri, 50.000 talsins, sem seldust gríðarlega vel.
Sennilega mun Tinni seint hverfa úr hjörtum manna, ef það mun þá gerast yfirleitt



Heimildaskrá

http://en.wikipedia.org/wiki/Tintin (Sótt 4.12.2004)
http://en.wikipedia.org/wiki/Herg%E9 (Sótt 4.12.2004)
http://tinni.tk (Sótt 4.12.2004)


Myndaskrá (á auðvitað ekki við hér)

• Forsíðumynd: http://www.belgiumdesign.com/allhotelsbelgium/images/general/tintin.jpg
• Mynd 1: http://upload.wikimedia.org/wikipedia/en/thumb/4/45/180px-Herge.jpg
• Mynd 2: http://www.cathiedesigns.com/Tintin/tintin-top.jpg
• Mynd 3: http://upload.wikimedia.org/wikipedia/en/b/be/Tintin-and-Snowy.png
• Mynd 4: http://lrm.isr.ist.utl.pt/jsgm/00/desc/bd/haddock_pipe.jpg
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _