Árið 1521 var ríkisþing Hins heilaga rómverska keisaradæmis haldið í borginni Worms í fylkinu Rheinland-Pfalz í Þýskalandi. Það varð frægara en önnur ríkisþing því þar mætti Martin Lúther til að verja kenningar sínar. Vegna flókinna tengsla veraldslegs og geistlegs valds á þessum tíma var Lúther stefnt fyrir keisaralegt þing en ekki ráð skipað af páfa.

Í júní 1520 hafði þáverandi páfi Leó X fordæmt 41 tillögu Lúthers, en Lúther hélt áfram vinnu sinni og gagnrýni á páfadóm og kenningar hans. Páfinn bannfærði Lúther 21. janúar 1521 en það liðu nokkrir mánuðir áður en tilkynningin barst til Þýskalands. Velgjörðarmaður Lúthers, Friðrik III vitri kjörfursti af Saxlandi, neitaði að snúast gegn Lúther og samdi við Karl V keisara um að Lúther mætti á ríkisþingið gegn því að honum væri gefin grið.

17. Apríl 1521 kom Lúther í fyrsta skipti fyrir þingið. Aðspurður svaraði hann því játandi að þær bækur og þau rit sem lögð voru fyrir hann væru eftir hann (þau höfðu áður verið bönnuð af páfa), en þegar honum var skipað að hafna þeim bað hann um frest til að íhuga málið. Honum var veittur fresturinn og næsta dag mætti hann á ný fyrir ríkisþingið. Þá neitaði Lúther að hafna ritum sínum nema að rök væru færð fyrir því að þau væru röng samkæmt ritningunni eða heilbrigðri skynsemi. Annars sagði hann að samviska sín væri bundin orði Guðs. Samkvæmt hefðinni sagði hann: „Hér stend ég og get ekki annað“. Út braust almennur ófriður vegna neitunar Lúthers um að taka kenningar sínar aftur og keisarinn sendi þingið heim það sem eftir var dagsins.

Fyrir mótmælendum var hann hetja en fyrir kaþólikkum trúvillingur. Lúther fór skótt á brott því ýmsir þrýstu á keisarann að rjúfa griðin sem hann vildi þó ekki gera. Lúther flýði á endanum til kastala Friðriks vitra þar sem hann gat unnið að kenningum sínum. Í maí sama ár lýsti þingið Lúther útlaga og villutrúarmann, hvers rit væru villutrúarrit, hann skildi handtekinn og honum skilað til keisarans. Dómnum var aldrei framfylgt en gerði Lúther erfitt um vik að ferðast það sem eftir var lífsins og gerðu hann háðan velgjörðarmanni sínum, Friðriki vitra.


Mikill hluti greinarinnar var þýddur upp úr Encyclopædia Britannica sem, eins og flestir vita, stendur Íslendingum til boða á netinu.